Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar byggir m.a. á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 en markmið þeirra laga er að „koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins“ .
Lögin kveða því ekki aðeins um bann við mismunun á grundvelli kyns heldur miða einnig að því að jafna það misrétti kynjanna sem orðið hefur vegna venja, siða, hefða og staðalmynda kynjanna. Samkvæmt lögunum skulu allir einstaklingar „eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni“. Lögin tilgreina enn fremur hvernig nálgast eigi markmið laganna.
Lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda voru samþykkt af Alþingi í júní 2012. Markmið laganna er að tryggja einstaklingum með kynáttunarvanda jafna stöðu fyrir lögum á við aðra í samræmi við mannréttindi og mannhelgi. Lögin kveða einkum á um úrbætur sem snúa að stjórnsýslu og málsmeðferð, tilhögun kynleiðréttinga og nafnabreytingar í þjóðskrá.
Ísland hefur staðfest helstu alþjóðasamninga er varða réttindi kvenna. Af þeim má nefna alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Ísland varð aðili að Félagsmálasáttmála Evrópu árið 1976. Ísland hefur undirritað en ekki fullgilt samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali. Ísland hefur lögfest mannréttindasáttmála Evrópu.
Á vefsvæði Jafnréttisstofu má finna tengla á innlenda og erlenda jafnréttislöggjöf.
Á vefsvæði velferðaráðuneytisins má finna tengla á lög sem tengjast jafnréttismálum.
Á vefsvæði Mannréttindaskrifstofu Íslands má lesa nánar um löggjöf sem snýr að jafnrétti kynjanna.
Hér má lesa fræðslubækling um kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna.