Með stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara til ársins 2017 varð til framtíðarsýn sem snýst um það hvernig borgin getur stutt við samfélagsþátttöku og virkni eldri borgara og orðið aldursvæn borg. Liður í þeirri sýn er að taka þátt í samstarfi Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um aldursvænar borgir, Global Network of Age Friendly Cities and Communities, eða Heimsneti aldursvænna borga.

Forsagan

Samstarfsnet WHO um aldursvænar borgir var sett á stofn árið 2010  í þeim tilgangi að tengja saman borgir um heim allan sem eiga þá sameiginlegu sýn að vilja vera frábær staður til að verða eldri og verja efri árunum. Áður, eða árið 2006, hafði WHO kallað saman fulltrúa 33 borga í 22 löndum í þeim tilgangi að skilgreina hvaða þættir í borgarlífi styðja virka og heilbrigða öldrun. Niðurstöður þeirrar vinnu voru birtar í “Global Age-friendly Cities: A Guide ” sem er í raun lýsing á því hvernig aldursvæn borg þarf að vera. Upphaflegu borgirnar 33 tóku þátt í að gangsetja samstarfið 2010, en sex árum síðar hafði samstarfsnetið nærri tífaldast þegar þrjúhundruðasta borgin, Ibagué í Kólumbíu, gekk til liðs við það í ágúst 2016.

Borgirnar, sem og önnur sveitarfélög og stofnanir sem taka þátt í samstarfinu, skuldbinda sig til þess að vinna með skipulögðum hætti að því að verða æ aldursvænni. Í þeim tilgangi deila þær með sér þekkingu og reynslu á því hvað gerir borg að aldursvænni borg, hugmyndum að skrefum sem hægt er að taka á leiðinni og tæknilegri þekkingu á skipulagningu- og innleiðingu.

Eftir samþykki tekur við a.m.k. fimm ára vinna til að uppfylla þau skilyrði sem sett eru. Það er velferðarsvið Reykjavíkur sem stýrir umsóknarferlinu fyrir hönd borgarinnar en í stýrihóp verkefnisins eru fulltrúar frá öllum fagsviðum borgarinnar. Á þessari síðu verður hægt að fylgjast með umsóknarferlinu.

Reykjavík tekur þátt

í stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara til ársins 2017, sem samþykkt var í maí 2013 er lagt til að borgin sæki um aðild að Heimsneti aldursvænna borga á vegum WHO. Stýrihópur, skipaður fulltrúum frá sjö sviðum og skrifstofum borgarinnar undirbjó umsóknina, en WHO samþykkti aðild Reykjavíkur að samstarfinu í júní 2015. Frá þeim tíma hófst skipulagning stöðumats samkvæmt viðmiðum WHO en þau atriði sem sérstaklega eru skoðuð með tilliti til þess að borgir séu aldursvænar skiptast í átta flokka Útisvæði og byggingar, samgöngur, húsnæði, félagsleg þátttaka., virðing og félagsleg viðurkenning, virk samfélagsþátttaka og atvinnumöguleikar, fjarskipti og upplýsingar og loks samfélags- og heilbrigðisþjónusta.

Lykilatriði í nálgun WHO á verkefnið er þátttaka aldraðra, jafnt í að meta grunnstöðu borgarinnar sem og að þróa í framhaldinu aðgerðaáætlun og vinna að umbótum.

Frekari upplýsingar um hvað það þýðir að vera aldursvæn borg, um innleiðingu verkefnisins í Reykjavík og samstarf borgarinnar í netinu má finna með því að opna Tengt efni hægra megin á síðunni.