Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þann 29. júní 2022 og borgarráðs Reykjavíkur þann 7. júlí 2022 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis. Í breytingunni felst að skipulagssvæðið er stækkað til suðurs að mörkum Ártúnshöfða og til austurs að veginum Gullinbrú.
Ástæða þess að skipulagssvæðið stækkar er fyrirhuguð dælustöð Veitna, en afmörkuð er lóð ásamt því að gerður er byggingarreitur fyrir dælustöð sem staðsett verður sunnan Sævarhöfða og vestan Gullinbrúar. Lagnabeltin verða tvö, annars vegar frá Ártúnshöfða og til norðurs að lóð dælustöðvar og
hins vegar frá lóð dælustöðvar til vesturs. Aðkoma þjónustuumferðar að lóðinni verður frá núverandi einstefnu frárein frá Gullinbrú að Sævarhöfða. Nánar um tillöguna vísast til kynningargagna.

Tillöguna má einnig nálgast á skjá og tölvu í þjónustuveri Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14, 1. hæð, virka daga kl. 8:30 – 16:00 frá 21. júlí 2022 til og með 2. september 2022. Einnig má sjá tillöguna á vefnum, www.reykjavik.is, skipulag í kynningu. Eru þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta hvattir til að kynna sér tillöguna. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna skal skila skriflega til skipulagsfulltrúa eða á netfangið skipulag@reykjavik.is, eigi síðar en 2. september 2022. Vinsamlegast notið uppgefið netfang fyrir innsendar athugasemdir með tölvupósti.

Umhverfis- og skipulagssvið notar þær persónugreinanlegu upplýsingar sem settar eru fram vegna athugasemda við skipulag, s.s. kennitölu, nafn og netfang í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna borgarbúa. Að auglýsingarferli loknu eru gögn varðveitt í 30 ár og flytjast að þeim tíma liðnum til Þjóðskjalasafns Íslands skv. lögum nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Nánari upplýsingar um meðferð persónuupplýsinga hjá Reykjavíkurborg má finna hér.

Vakin er athygli á því að athugasemdir teljast til opinberra gagna í allri skipulagsmeðferð og birtast meðal annars nöfn borgarbúa í fundargerðum skipulags- og samgönguráðs á netinu.