Um aðal-, deili- og hverfisskipulag

Helstu hugtök skipulags í sveitarfélögum eru aðalskipulag, deiliskipulag, svæðisskipulag og hverfisskipulag. Hér að neðan eru lýsingar á því hvað þessi hugtök fjalla um og ná yfir. Hægt er að kynna sér skipulagsmál nánar á vef Skipulagsstofnunar en Alþingi setur lög um skipulag á Íslandi.
 

Aðalskipulag

 • Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags.
 • Í aðalskipulagi birtist stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál, þróun byggðar og byggðamynstur til a.m.k. 12 ára.
 • Í aðalskipulagi eru forsendur fyrir gerð deiliskipulags.
 • Aðalskipulag er háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar eða umhverfisráðherra þegar það á við.
 • Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð og endurskoðun aðalskipulags.

Deiliskipulag

 • Deiliskipulag er nánari útfærsla á aðalskipulagi fyrir afmarkað svæði eða reit.
 • Í deiliskipulagi er kveðið á um byggðamynstur, húsagerðir, landmótun, starfsemi, lóðarmörk o.fl.
 • Deiliskipulag á við í þéttbýli og dreifbýli, fyrir stór og smá hverfi, gatnamannvirki, hafnarmannvirki, útivistarsvæði, hljóðmanir, snjóflóðavarnargarða o.fl.
 • Í deiliskipulagi eru skipulagsskilmálar fyrir útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa.
 • Í upphafi vinnu að gerð deiliskipulagstillögu skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu, leita umsagnar um skipulagslýsinguna og kynna hana almenningi.
 • Sveitarstjórn ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Í deiliskipulagi koma fram skipulagsskilmálar fyrir uppbyggingu og framkvæmdir, svo sem um þéttleika byggðar, húsagerðir, lóðastærðir, lóðamörk, staðsetningu húsa á lóðum, bílastæði og landmótun.

Hverfisskipulag

 • Hverfisskipulag nær að jafnaði til heils reits eða nokkurra götureita þar sem settar eru fram almennar reglur um yfirbragð byggðar og verndargildi. Þegar unnið er deiliskipulag í þegar byggðu hverfi er heimilt að setja almennar reglur og rammaskilmála um þessa þætti í stað nákvæmra skipulagsskilmála fyrir einstakar lóðir. Slíkt skipulag kallast hverfisskipulag.
 • Reykjavíkurborg er skipt upp í tíu borgarhluta og stendur nú yfir vinna við hverfisskipulag í hverjum borgarhluta á grunni Rammaskipulags aðalskipulags Reykjavíkur. Um er að ræða nýjung í skipulagsmálum á Íslandi.
 • Nánari upplýsingar á /thjonusta/hverfisskipulag og https://hverfisskipulag.is.
 
Nánari upplýsingar á vef Skipulagsstofnunar.