Breiðholt dregur nafn sitt af bænum Breiðholti. Bærinn stóð áður á svipuðum slóðum og Skógarsel stendur nú.  Hverfið markast af Reykjanesbraut, Elliðaám (syðri kvísl) og sveitarfélaginu Kópavogi. Einstakir hlutar hverfisins eru Efra - Breiðholt (Fell, Berg og Hólar), Neðra - Breiðholt (Bakkar og Stekkir) og Seljahverfi.

Breiðholt einkennist af öflugu hverfastarfi með áherslu á samskipti kynslóðanna. Breiðholt státar af öflugu skóla- og íþróttastarfi, Borgarbókasafni - Menningarhúsinu Gerðubergi og verslunarmiðstöðinni Mjódd svo sitthvað sé nefnt.

Reykjavíkurborg rekur víðtæka þjónustu í hverfinu, meðal annars í gegnum Þjónustumiðstöð Breiðholts í Mjódd.