Umhverfis- og skipulagssvið (USK) gegnir fjölþættu hlutverki, allt frá því að vinna með kjörnum fulltrúum að stefnumótun í umhverfis-, skipulags- og samgöngumálum til þess að samþykkja teikningar og tryggja eftirlit í heilbrigðismálum. Að auki stýrir sviðið framkvæmdum og viðhaldi og sinnir almennum rekstri í borgarlandinu eins og garðyrkju og grasslætti, snjómokstri og hreinsun. Á sviðinu er unnið að fjölbreyttum verkefnum sem eiga að auðga mannlífið í borginni. Lögbundin verkefni byggingarfulltrúa, skipulagsfulltrúa og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur tilheyra sviðinu. Bílastæðasjóður er einnig hluti af umhverfis- og skipulagssviði sem og Grasagarður Reykjavíkur. Árið 2014 markaði ákveðin tímamót því nýtt aðalskipulag til ársins 2030 tók  gildi og er leiðarljós í allri vinnu sviðsins. Þar birtist sá græni þráður sem ber að halda á lofti í stefnumótun jafnt sem framkvæmd og endurspeglast í öllu starfinu á sviðinu. Starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs býr yfir einstakri fagþekkingu í þeim málaflokkum sem sviðið sinnir og gegnir lykilhlutverki í því að gera Reykjavík að enn betri borg. Sviðið er umhverfisvottað og leggur áherslu á að veita borgarbúum og öðrum viðskiptavinum góða þjónustu. Skrifstofa sviðsins er í Borgartúni 12-14. 

Starfsáætlun 2021