Borgarbókasafnið | menningarhús Árbæ var opnað í febrúar 2004. Safnið sem er um 550 m2 húsnæði á 2. hæð í góðu sambýli í litlum verslunarkjarna í Hraunbænum.

Öll aðstaða er til fyrirmyndar í safninu. Barnadeildin er björt og aðlaðandi, góð lestraraðstaða er fyrir gesti, tölvur fyrir almenning og heitur reitur. Hægt er að panta sögustundir og safnkynningar fyrir hópa.

Húsakynni safnsins bjóða upp á möguleika á fjölbreyttu viðburðahaldi s.s. sýningar, fyrirlestra, tónleika og klúbbastarf. Safnið leggur áherslu á að vera hverfissafn og miðstöð fyrir íbúa Árbæjarhverfis og eru íbúar eru hvattir til að hafa samband vilji þeir halda sýningu, fyrirlestur eða bjóða upp á annan viðburð sem hentað gæti í safninu. Einnig er kjörið að nota safnið sem fundarstað t.d. fyrir leshringi, klúbba eða svipaðan félagsskap.

Sýningar eru á Veggnum og boðið er upp á dagskrá og viðburði af ýmsu tagi m.a. eru haldin örnámskeið eða kynningar reglulega undir yfirskriftinni „Á staðnum“. Í safninu er starfandi leshringurinn Karla- og konubækur sem hittist fyrsta miðvikudag í mánuði á veturna. Einnig hittast ritlistarhópar reglulega yfir vetrartímann og prjónaklúbbar vikulega. Heilahristingur, sem er heimanámsaðstoð fyrir börn í 4.-10. bekk er einu sinni í viku í samvinnu við Rauða krossinn.

Safnkosturinn er um það bil 30.000 eintök, bækur, myndasögur, tímarit, mynddiskar, íslenskir tóndiskar, hljóðbækur og tungumálanámskeið. Safnkosturinn er skráður á borgarbokasafn.is og aðgangur að raf- og hljóðbókum er í gegnum Rafbókasafnið. Dagblöð eru keypt á safnið og er upplagt að kíkja í blöðin og fá sér kaffisopa í leiðinni.

Nánari upplýsingar um safnið og viðburði eru á heimasíðunni og á facebook.

Safnstjóri er Katrín Guðmundsdóttir.