Borgarbókasafnið í Grófarhúsi við Tryggvagötu ræður ríkjum á fyrstu, annarri og fimmtu hæð, en í húsinu er einnig Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Á safninu eru tölvur ætlaðar gestum, heitir reitir og upptökustúdíó. Þar er oft líflegt enda boðið upp á fjölmarga viðburði, smiðjur og sýningar. Þar er auðvelt að flýja eril miðborgarinnar, grúska á lessvæði og týna sér í hillunum. Komdu og kynntu þér málið.
Safnið er á þremur hæðum og er auðvelt að komast á milli hæða með lyftu eða stiga. Á öllum hæðum eru starfsmenn reiðubúnir að svara spurningum og aðstoða við leit að efni.

1. hæð

Á fyrstu hæðinni er að finna afgreiðslu safnsins og sjálfsafgreiðsluvélar. Þar er einnig aðstaða til að setjast niður, lesa blöðin, bækur eða tímarit og Artótekið, þar sem hægt er að leigja eða kaupa listaverk eftir samtímalistamenn. Í sýningarrými á fyrstu hæð er tilvalið að skoða sýningar, m.a. á verkum listamanna Artóteksins.

2. hæð

Á annarri hæðinni er hægt að nálgast íslensk og erlend skáldrit og hljóðbækur. Þar er gott úrval teiknimyndasagna, tímarita og annar bókakostur sem höfðar til ungs fólks á íslensku og erlendum málum.

Þarna má einnig finna barnadeild safnsins, þar sem yngstu gestirnir geta lesið, spilað, dundað og spjallað í rými sem er sérstaklega hannað með þarfir þeirra í huga.

Hægt er að panta sögustundir og safnkynningar fyrir hópa í barnadeildinni.

5. hæð

Fræðibækur og fræðitímarit eru á fimmtu hæðinni ásamt upplýsingaþjónustu safnsins. Þar er einnig að finna tón- og mynddeild þar sem hægt er að fá geisladiska, hljómplötur, nótur, myndbönd og mynddiska að láni auk fjölda bóka og tímarita um tónlist og kvikmyndir. Á hæðinni er ágæt aðstaða til að hlýða á tónlist auk þess sem þar er aðgangur að tölvum og prentara. Á sömu hæð eru einnig handbækur um efnið sem hægt er að nota á staðnum.

Safnstjóri er Barbara Guðnadóttir.