Bókasafnið í Spönginni er nýjasta safn Borgarbókasafnsins, en það var opnað 6. desember 2014. Það er um 1.300 fermetrar á tveimur hæðum og er bæði lyfta og stigi milli hæða. Á neðri hæð er afgreiðsla, upplýsingaþjónusta, barnadeild, unglingadeild, tímarit, mynddiskar og tónlist. Á efri hæð eru ljóð, skáldsögur og fræðibækur. Þar er einnig góð aðstaða til að lesa, læra og fræðast.

Húsakynni safnsins bjóða upp á möguleika á fjölbreyttu viðburðahaldi s.s. sýningar, fyrirlestrar, tónleikar og klúbbastarf. Safnið leggur áherslu á að vera hverfissafn og miðstöð fyrir íbúa Grafarvogs og eru íbúar eru hvattir til að hafa samband vilji þeir halda sýningu, fyrirlestur eða bjóða upp á annan viðburð sem hentað gæti í safninu. Einnig er kjörið að nota safnið sem fundarstað t.d. fyrir leshringi eða svipaðan félagsskap. 

Á neðri hæð safnsins er Sjónarhóll, fjölnota salur þar sem haldnar eru sýningar og fyrirlestrar. Ýmis konar dagskrá er í boði fyrir börn og fjölskyldur auk fræðsluerinda sem haldin eru reglulega yfir vetrartímann og bera yfirskriftina „Í leiðinni“. Á fimmtudögum er prjónaklúbbur og á þriðjudögum eru fjölskyldustundir þar sem foreldrar og aðrir með ung börn geta hist. Einu sinni í mánuði á veturna er boðið upp á dagskrá í fjölskyldustundum. Safnkynningar og sögustundir eru fyrir hópa. Á laugardögum yfir vetrartímann er boðið upp á Jazz í hádeginu og ýmiskonar barnadagskrá.  Í safninu er starfandi leshringur fyrir fullorðan og leshringir fyrir börn starfa í styttri tíma í senn.

Á safninu er hægt að kaupa aðgang að tölvum og einnig er boðið upp á þráðlaust net lánþegum að kostnaðarlausu.

Bókasafnið býður upp á fjölbreyttan safnkost. Auk bóka og tímarita eru hljóðbækur, myndbönd, tungumálanámskeið, margmiðlunarefni og tónlist á geisladiskum lánuð út. Dagblöðin eru keypt á safnið og er aðstaða til að lesa þau og nýjustu tímaritin góð. Safnkosturinn er skráður á vefsíðunni Leitir og aðgangur að raf- og hljóðbókum um vefinn í gegnum Rafbókasafnið.

Safnstjóri er Katrín Guðmundsdóttir.