Opnunartímar

Tjarnargata 11, 101 Reykjavík

Móttaka í ráðhúsi opin virka daga frá 8:20 til 16:15

Húsið er opið mánudaga til föstudaga frá klukkan 08:00 til 18:00

Laugardaga frá klukkan 10:00 til 18:00

Sunnudaga frá klukkan 12:00 til 18:00

Um Ráðhúsið

Ráðhús Reykjavíkur er glæsileg bygging í norðurenda Tjarnarinnar. Svipmikið og nútímalegt húsið er hlutlaus miðja Reykjavíkur sem tengir saman náttúru, vatn og fuglalíf. Ráðhúsið hýsir starfsemi borgarstjórnar og borgarstjóra Reykjavíkur.
 

Saga hússins

Í ágúst árið 1986 ákvað borgarráð Reykjavíkur að efna til opinnar hönnunarsamkeppni um Ráðhús Reykjavíkur á uppfyllingu við svonefnda Bárulóð í norðvesturenda Tjarnarinnar. Alls bárust 38 tillögur í keppnina og skilaði dómnefnd niðurstöðu sinni í júni 1987. Fyrstu verðlaun hlaut tillaga tveggja ungra arkitekta, Margrétar Harðardóttur og Steve Christer, sem bæði luku prófi í byggingarlist frá Architectural Association School í London árið 1984 en þau reka enn þann dag í dag arkitektastofuna Studio Grandi. Bygging hússins hófst árið 1988 og var Ráðhúsið tekið í notkun árið 1992.

Arkitektarnir Margrét og Steve hugsuðu Ráðhús Reykjavíkur öðru fremur sem stað þar sem andstæður náttúru og borgar fléttast saman í margslungna, þrívíða heild. Til að draga úr umfangi hússins var það brotið upp í tvær aðgreindar byggingar með tengingu í götuhæð. Andstæðurnar í umhverfinu endurspeglast í yfirbragði húsanna tveggja.
 
Hús borgarstjórnar við Vonarstræti, vettvangur stjórnmálanna, er þungt og efnismikið, mótað af manngerðri reglufestu byggðarinnar í Kvosinni. Skrifstofubyggingin, aðsetur stjórnsýslu og embættismanna, hefur annað og léttara yfirbragð. Salir og vinnurými opnast til suðurs út á móti Tjörninni. Sólarljósið og endurvarp þess á vatnsfletinum mynda margslunginn vef ljóss og skugga á glerfletinum innan við röð súlna sem líkt og vaxa upp úr vatninu eins og sef. 
 
Byggingin var dregin frá horninu og við það varð til nýtt rými í borginni, eins konar aðkomutorg með bogadreginni tjörn á þaki niðurgrafinnar bílageymslu , þar sem vatninu og lífríki þess var stillt upp í návígi við eril borgarlífsins. 

Vatn gegnir veigamiklu hlutverki í Ráðhúsi Reykjavíkur og byggingarlist þess er eins konar óður til þess. Það umlykur bygginguna, flæðir inn undir hana, situr á hluta þakflatarins og seitlar niður vegg við inngang. Ráðhúsið er byggt úr steinsteypu og var lögð áhersla á að steypan í útveggjum héldi blæ sínum við veðrun og í bleytu. Notað var hvítt belgískt sement, danskur sandur og fylliefni úr íslensku basalti. Súlurnar fimmtán, sem rísa upp úr vatninu við suðurhlið hússins og bera upp bogadregið þakið, samsvara fjölda kjörinna fulltrúa í borgarstjórn.
 
Lífæð hússins og helsta almenningsrými er gönguásinn sem tengist fjölförnum gönguleiðum úr miðbænum til vestur og austurs meðfram Tjörninni. Jarðhæð hússins mótast af þessum leiðum og er hugsuð sem eins konar framlenging götunnar. Gönguásinn er  að jafnaði opinn þeim sem leið eiga hjá og er hugsaður sem snertiflötur borgarbúa og fulltrúa þeirra sem í húsinu starfa. Við enda gönguássins eru stórir gluggar með afmörkuðu útsýni til austurs og vesturs. Þar á glerið eru letruð með sandblásnum stöfum erindi úr ljóðunum Júnímorgun og Við Vatnsmýrina eftir Tómas Guðmundsson skáld.

Á jarðhæð er upplýsingaborð og Tjarnarsalurinn sem nýttur er bæði til funda- og sýningarhalds.