Hverjir geta orðið dagforeldrar?

Til að gerast dagforeldri þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • umsækjandi skal vera orðinn 20 ára;
  • umsækjandi skal hafa lokið grunnámskeiði sem haldið er í samvinnu við Námsflokka Hafnarfjarðar eða hafa aðra menntun á sviði uppeldis-, kennslu- og/eða félagsfræða;
  • skila skal læknisvottorði fyrir umsækjanda og fjölskyldu hans;
  • skila skal sakavottorði fyrir umsækjanda og fjölskyldumeðlimi eldri en 18 ára;
  • skylt er að virða lög um tóbaksvarnir og eru því reykingar óheimilar á meðan á dvöl barna stendur;
  • leikrými fyrir hvert barn innanhúss skal vera að minnsta kosti 3 fermetrar;
  • útivistaraðstaða skal vera fullnægjandi og hættulaus;
  • skila þarf vottorði frá Eldvarnareftirliti.

Hversu mörg börn má hafa í vistun?

Fyrsta árið er veitt leyfi til gæslu allt að fjögurra barna samtímis að meðtöldum þeim börnum sem fyrir eru á heimilinu og eru yngri en 6 ára. Eftir eins árs samfelldan starfstíma er heimilt að veita leyfi fyrir einu barni til viðbótar, enda hafi dagforeldri sýnt af sér hæfni til starfsins og veitt börnum góðan aðbúnað í hvívetna. Að jafnaði skulu ekki vera fleiri en tvö börn undir eins árs aldri hjá hverju dagforeldri.

Hvernig er sótt um?

Sótt er um hjá viðkomandi þjónustumiðstöð í tengslum við réttindanámskeið hjá Námsflokkum Hafnarfjarðar þegar þau eru auglýst.

Eftirlit með starfsemi dagforeldra

Eftirlit með starfsemi dagforeldra felst meðal annars í þremur heimsóknum frá fulltrúa skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Hann fer yfir ýmis öryggisatriði og gengur úr skugga um að barnafjöldi sé í samræmi við leyfi. Við eftirlit er farið yfir gátlista sem skilað er til skóla- og frístundasviðs.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Þú getur haft samband við verkefnastjóra á skóla- og frístundasviði í  síma 4 11 11 11 eða netfangið sfs@reykjavik.is.  Eins er hægt að hafa samband við daggæsluráðgjafa á þjónustumiðstöðvum borgarinnar.