Oft og tíðum má bæta aðgengið með einföldum og ódýrum aðgerðum eins og að moka snjó frá tunnum, tjóðra hunda, setja upp hurðarpumpur og króka til að þær haldist opnar. Auk þess skiptir staðsetning íláta á lóð miklu máli. Dæmi eru um að starfsfólk sorphirðunnar þurfi að ganga yfir sex kílómetra til að losa 20 tunnur.

Gott aðgengi auðveldar hirðu ílátanna og tryggir heimilum betri og ódýrari þjónustu.

Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:
  • Tröppur – Það er sérlega erfitt að koma þungum tunnum upp tröppur. Skábrautir/sliskjur eru nauðsynlegar til að bæta aðgengið í tröppum. Einnig má kanna hvort önnur staðsetning sé möguleg.
  • Birta – í skammdeginu er mikilvægt að góð lýsing sé á vinnusvæði starfsfólks við sorphirðu miklu máli.
  • Hindranir – gætið þess að reiðhjól eða annað slíkt sé ekki í gangveginum fyrir tunnunum.
  • Snjór og hálka – gætið þess að moka snjó og fjarlægja klaka úr gangvegi starfsfólks á losunardögum.
  • Hundar – á losunardögum er betra að halda hundum fjarri. Ef hundur er tjóðraður á lóð er mikilvægt að hann verði ekki á vegi starfsfólks við sorphirðu.
  • Hurðir – betra er ef dyr haldast opnar meðan starfsfólkið athafnar sig. Hurðapumpur og krókar sem halda hurðum opnum meðan losun fer fram gera vinnuna auðveldari.
  • Staðsetning – athugið að samkvæmt samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík eiga tunnur fyrir sama úrgangsflokk hvers húss að vera geymdar á sama stað.
  • Undirlag – það er mun auðveldara að draga tunnurnar eftir malbiki eða hellum en grasi og möl. Þungar tunnur fara ekki vel með grasflötina.
  • Lofthæð – of lítil lofthæð í aðkomuleiðum gerir starfsfólki erfitt fyrir og eykur álag.
  • Efnisval – klæðning, dyrakarmar, gólf og veggir þarf að vera þannig úr garði gert að það skemmist ekki vegna umgengni um tunnurnar.
Athugaðu einnig að ódýrara er að staðsetja ílát í minna en 15 m fjarlægð frá hirðubíl.
 

Sjá myndband um aðgengi að sorpílátum