Aðgengi og viðhald sorptunna
Aðgengi að ílátum undir heimilisúrgang í borginni er misjafnlega gott og það hefur áhrif á kostnað við hirðu, fjölda tjóna og heilbrigði starfsmanna sem sinna hirðu úrgangs.
Aðgengi að ílátum
Í hverjum mánuði hirða starfsmenn að meðaltali um 1.600 tonn af úrgangi eða um 70 tonn á hverjum starfsdegi. Þetta jafngildir því að hver starfsmaður sem sinnir losun tunna og kerja í borginni handleiki að jafnaði 480–530 tonn af úrgangi yfir árið.
Oft og tíðum má bæta aðgengið með einföldum og ódýrum aðgerðum eins og að moka snjó frá tunnum, tjóðra hunda, setja upp hurðarpumpur og króka til að þær haldist opnar. Auk þess skiptir staðsetning íláta á lóð miklu máli. Dæmi eru um að starfsfólk sorphirðunnar þurfi að ganga yfir sex kílómetra til að losa 20 tunnur.
Gott aðgengi auðveldar hirðu ílátanna og tryggir heimilum betri og ódýrari þjónustu.
Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:
- Tröppur – Það er sérlega erfitt að koma þungum tunnum upp tröppur. Skábrautir/sliskjur eru nauðsynlegar til að bæta aðgengið í tröppum. Einnig má kanna hvort önnur staðsetning sé möguleg.
- Birta – í skammdeginu er mikilvægt að góð lýsing sé á vinnusvæði starfsfólks við sorphirðu miklu máli.
- Hindranir – gætið þess að reiðhjól eða annað slíkt sé ekki í gangveginum fyrir tunnunum.
- Snjór og hálka – gætið þess að moka snjó og fjarlægja klaka úr gangvegi starfsfólks á losunardögum.
- Hundar – á losunardögum er betra að halda hundum fjarri. Ef hundur er tjóðraður á lóð er mikilvægt að hann verði ekki á vegi starfsfólks við sorphirðu.
- Hurðir – betra er ef dyr haldast opnar meðan starfsfólkið athafnar sig. Hurðapumpur og krókar sem halda hurðum opnum meðan losun fer fram gera vinnuna auðveldari.
- Staðsetning – athugið að samkvæmt samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík eiga tunnur fyrir sama úrgangsflokk hvers húss að vera geymdar á sama stað.
- Undirlag – það er mun auðveldara að draga tunnurnar eftir malbiki eða hellum en grasi og möl. Þungar tunnur fara ekki vel með grasflötina.
- Lofthæð – of lítil lofthæð í aðkomuleiðum gerir starfsfólki erfitt fyrir og eykur álag.
- Efnisval – klæðning, dyrakarmar, gólf og veggir þarf að vera þannig úr garði gert að það skemmist ekki vegna umgengni um tunnurnar.
Athugaðu einnig að ódýrara er að staðsetja ílát í minna en 15 m fjarlægð frá hirðubíl.
Hæfilegur fjöldi íláta við heimili
Íbúar þurfa að hafa aðgang að tunnu undir blandaðan úrgang við heimili sitt, þ.e. annað hvort grárri tunnu eða spartunnu. Ekki er til almenn regla um fjölda tunna fyrir hverja íbúð og geta íbúar því ákveðið fjöldann og er kostnaðurinn samkvæmt því. Þörfin ræðst af fjölskyldustærð og fjölda íbúa, neysluvenjum og hversu duglegir íbúar eru að flokka. Að jafnaði eru um 0,8 gráar tunnur við hverja íbúð í Reykjavík. Samkvæmt þessu ættu fjórar íbúðir að geta sameinast um þrjár gráar tunnur undir blandaðan úrgang í fjöleignarhúsum og jafnvel færri tunnur flokki þeir pappír og plast eða jarðgera matarleifar.
Ekki er skylda að vera með bláa eða græna tunnu undir endurvinnsluefni. Reykjavíkurborg hefur farið þá leið að bjóða íbúum að velja það þjónustustig sem hentar þeim og að greiða fyrir þjónustuna í takt við það. Þannig geta íbúar valið hvort þeir vilja nýta sér þjónustu grenndar- eða endurvinnslustöðva eða hvort þeir kjósa að endurvinnanlegur úrgangur sé sóttur á heimili þeirra.
Ef horft er til endurvinnanlegra pappírsefna og plasts sem berst að jafnaði inn á heimili og hægt er að flokka frá þá má skipta einni grárri tunnu út á móti einni eða tveim bláum eða grænum tunnum í fjöleignarhúsum, eftir því hversu vel tunnurnar eru nýttar. Í sérbýlishúsum ættu flestir að komst af með spartunnu, eina bláa og eina græna. Spartunnan er fyrir blandaðan úrgang eins og sú gráa en hún er ódýrari og helmingi minni en sú gráa.
Notaðu reiknivélina til að skoða gjöldin miðað við fjölda og tegund íláta. Efst á síðunni er hægt að nálgast dagatal fyrir hirðu úrgangs við heimili í Reykjavík
Endurnýjun og viðhald sorptunna
Ílátin sem Reykjavíkurborg losar eru eign borgarinnar. Reykjavíkurborg sér því um endurnýjun og viðhald á skemmdum ílátum. Ef tjón á íláti er hægt að rekja til slæmrar umgengni kann íbúi að þurfa að greiða fyrir endurnýjun þess. Íbúar bera ábyrgð á að hreinsa ílátin.
Ef ílátið við heimilið þarfnast viðhalds eða endurnýjunar þá er hægt að óska eftir því í síma 411-1111 eða með tölvupósti á sorphirda@reykjavik.is. Ástand ílátsins verður skoðað og gert við það eða það endurnýjað ef þörf er á.
Aukahreinsun
Sé ekki hægt að losa ílát vegna hindranna, rangrar flokkunar eða af öðrum ástæðum, geta íbúar óskað eftir aukaferð til losunar. Greitt er fyrir þjónustuna skv. gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs.
Við upphaf þjónustu, fjölgun íláta eða aukna losunartíðni þarf einnig að greiða gjaldið. Fækkun íláta eða lækkun losunartíðni kostar ekkert.
Við upphaf þjónustu, fjölgun íláta eða aukna losunartíðni þarf einnig að greiða gjaldið. Fækkun íláta eða lækkun losunartíðni kostar ekkert.