Aðstoð við hreinsun á veggjakroti
Markmið Reykjavíkurborgar er að standa sameiginlega að hreinni borg, bættu viðhaldi og góðri umgengni. Reykjavíkurborg aðstoðar við fyrstu hreinsun á skemmdarverkum sem hafa verið máluð eða spreyjuð á húsveggi, girðingar og undirgöng í miðborginni í samstarfi við íbúa, rekstraraðila og/eða fasteignaeigendur.
Vantar þig aðstoð við hreinsun á veggjakroti?
Við leitum að íbúum, húseigendum og/eða rekstraraðilum til að vinna með okkur að hreinsun í miðborginni.
Til að ná sem bestum árangri á hreinsun á skemmdarverkum af völdum veggjakrots verður að vera samvinna á milli Reykjavíkurborgar, lögreglunnar á höfðuborgarsvæðinu, íbúa, rekstraraðila og/eða fasteignaeigenda með langtímamarkmið í huga. Þetta verkefni er ekki átaksverkefni heldur er ætlast til þess að framangreindir aðilar sýni ábyrgð og eftirfylgni til framtíðar.
Dæmi um góða samvinnu við íbúasamtök
Farið var í umhverfisgöngu með Íbúasamtökum miðborgar, fulltrúum frá borginni og lögreglunni veturinn 2017. Í framhaldi af henni var farið í að hreinsa svokallaðan Iðnaðarmannareit. Reykjavíkurborg styrkti eftirfylgni á svæðinu.
Ferlið er eftirfarandi:
1. Íbúi, húseigandi og/eða rekstraraðili setur sig í samband við Reykjavíkurborg og biður um aðstoð í gegnum ábendingavef borgarinnar - ábendingavefur.
2. Verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg skoðar og metur umfang skemmdarverkanna og íbúa, húseiganda og/eða rekstraraðila.
3. Verktaki hefur samband við íbúa, húseiganda og/eða rekstraraðila og koma þeir sér saman um tímasetningar á hreinsun og gera saman kostnaðaráætlun.
4. Eftirfylgni verktaka er í einn mánuð frá lokadegi fyrstu hreinsunnar.
5. Öll ný skemmdarverk skal tilkynna til lögreglu og verkefnastjóra verkefnis sem gerir verktaka viðvart.
6. Íbúi, húseigandi og/eða rekstraraðili tilkynnir eignaspjöll til lögreglunnar á höfðuborgarsvæðinu með því að mæta í afgreiðsluna á Hverfisgötu 113 og fylla þar út rafrænt eyðublað. Ferlið tekur um það bil 5 mín. Myndir af skemmdarverkum er hægt að senda á netfang sem gefið er upp í afgreiðslunni sem er mikilvægur þáttur í gagnaöflun. Hringja þarf til í lögreglu í síma 444-1000 daginn eftir að eignarspjöll eru tilkynnt til að fá málsnúmer.
Sjá nánari upplýsingar um verklagsreglur um hreinsun á veggjakroti.
Almennt um hreinsun á veggjakroti í borginni
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar sér um hreinsun veggjakrots á:
● fasteignum borgarinnar, þar á meðal grunn- og leikskólum;
● umferðarmannvirkjum, þar á meðal undirgöngum, umferðarbrúm og hljóðmönum;
● götugögnum, en það eru bekkir, ruslastampar, ljósastaurar, stöðumælar og umferðarskilti;
● leiktækjum, utanhúss við leikskóla og á gæsluvöllum og opnum leiksvæðum í eigu borgarinnar;
● ýmsum mannvirkjum á opnum svæðum í alfaraleið;
● útilistaverkum á opnum svæðum og á lóðum stofnana borgarinnar.
Umhverfis- og skipulagssvið vinnur almennt náið með rekstareigendum og húseigendum við að bregðast við og mála yfir skemmdarverk af völdum veggjakrots. Mikilvægt er þó að hafa í huga að í öllum tilfellum þarf samþykki og samvinnu eiganda húsnæðisins. Sumarið 2018 var mæld þekja veggjakrots í miðborginni og voru niðurstöður birtar í skýrslunni skráning og hreinsun veggjakrots.
Það er því vel þegið að fá senda inn tilkynningar um veggjakrot í gegnum ábendingavefinn.