Aðventuhátíð - Ljósin tendruð á Oslóartrénu
Ljósin eru tendruð á Oslóartrénu á Austurvelli fyrsta sunnudag í aðventu. Í mörg ár hefur verið til siðs að halda upp á þessa vinagjöf með bæði hátíðlegum söng og skemmtilegum uppákomum. Fjölskyldur safnast saman á Austurvelli og taka við trénu frá sendiherra Noregs. Vegna samkomutakmarkana í fyrra og í ár hefur ekki verið haldinn viðburður í tengslum við tendrun ljósanna á Oslóartrénu.
Fyrsta Oslóartréð kom 1951
Rúm hálf öld er síðan Norðmenn færðu Íslendingum í fyrsta sinn grenitré að gjöf til að skreyta Reykjavík. Í mörg ár hefur verið til siðs að halda upp á þessa vinagjöf með hátíðlegum söng og skemmtilegum uppákomum. Fjölskyldur safnast saman á Austurvelli þennan sunnudag og taka við trénu frá sendiherra Noregs. Á fyrsta í aðventu í fyrra og nú í ár er ekki haldinn viðburður vegna samkomutakmarkana sem eru í gildi vegna Covid.
Dagskráin
Árlega er haldinn hátíðlegur viðburður þegar ljósin eru tendruð á Oslóartrénu á Austurvelli kl.16.00 fyrsta sunnudag í aðventu.
Söngvarar og tónlistarfólk flytur falleg jólalög ásamt hljómsveit. Jólasveinar hafa fyrir sið að stelast í bæinn og syngja og skemmta kátum krökkum.
Lúðrasveit Reykjavíkur leikur jólatónlist. Í fyrsta sinn í fyrra var ekki haldinn viðburður vegna samkomutakmarkana og var þá tendrunin í beinni útsendingu í fréttatíma RÚV. Sami háttur verður hafður á í ár.
Tendrun jólatrésins markar upphaf jólaborgarinnar Reykjavíkur en tréð er að venju sótt í norska lundinn í Heiðmörk og minnir sem fyrr á áratuga vinasamband Reykjavíkur og Oslóarborgar.
Jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra prýðir jólatréð ár hvert. Í honum sameinast íslenskur menningararfur, hönnun og mikilsvert málefni. Reykjavíkurborg hefur frá upphafi stutt verkefnið en óróar Styrktarfélagsins hafa verið eina skrautið á Oslóartrénu auk jólaljósanna.
Jólaskógurinn í Tjarnarsal ráðhússins opnar í byrjun desember með skemmtilegri dagskrá þar sem búast má við jólasveinum/jólavættum. Tjarnarsalurinn breytist í jólalegan skóg og börnin geta leikið sér.
Jólavættirnar eru svo á vappi víðs vegar um borgina það eru þau Grýla, Leppalúði, Jólakötturinn, Rauðhöfði, Leiðindaskjóða, Stekkjastaur, Hurðaskellir, Gluggagægir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Stúfur, tvíburarnir Surtla og Sighvatur, Kattarvali og Þórálfur sem bættist í hópinn í fyrra. Árlega er svo skemmtilegur fjölskylduleikur sem byggist á því að hafa upp á vættunum og svara léttum og skemmtilegum spurningum um þessa fjölbreyttu jólasveinafjölskyldu. Ratleikurinn er nú snjallvæddur og auðvelt að nálgast appið. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þann sem sigrar í leiknum.
Það er margt skemmtilegt í boði á aðventunni í Reykjavík. Meginmarkmiðið er að skapa áhrifaríka og skemmtilega jólaupplifun í borginni á einfaldan hátt í góðu samstarfi við fjölda samstarfsaðila víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu.
Dagskrá aðventuhátíðarinnar má nálgast á Jolaborgin.is