Hvenær skal sækja um afnotaleyfi?

Ef fyrirhuguð framkvæmd, viðburður eða önnur afnot eru á borgarlandi skal sækja um afnotaleyfi. Ef afnotin eru innan einkalóðar þarf að fá samþykki eiganda lóðar. Það athugist að sækja skal um leyfi til Vegagerðar vegna afnota af þjóðvegum í þéttbýli og til Faxaflóahafna vegna afnota innan hafnarmarka. Í borgarvefsjá má sjá afmörkun borgarlandsins, þjóðvegi í þéttbýli og hafnarmörk.

Sjá nánar: Lögreglusamþykkt og Borgarvefsjá 

Hvað telst til borgarlands?

Til borgarlands teljast allar götur, gangstéttar, stígar, torg, almenningsgarðar og opin svæði. Í borgarvefsjá má sjá afmörkun borgarlandsins og þar með hvort afnotin fara fram innan einkalóðar eða á borgarlandi. 

Hvað telst til rofs á yfirborði borgarlands?

Hér er átt við allt rof og aðra jarðvinnu í borgarlandinu þar sem síðan þarf að endurgera yfirborð gatna, gangstétta, stíga, grænna svæða o.s.frv.  Þarna undir falla einnig byggingaframkvæmdir og önnur mannvirkjagerð þar sem nýta þarf borgarland. Það athugist að einnig þarf að sækja um afnotaleyfi fyrir stærri byggingarreiti og framkvæmdir sem eru að öllu leyti innan lóðar þar sem slík verk hafa áhrif á aðgengi og flæði umferðar á borgarlandi. Sótt er um leyfi í rafræna umsóknarkerfinu RoSy

Umsókn um rof á yfirborði

Sækja þarf um afnotaleyfi í rafræna umsóknarkerfinu RoSy. Umsækjandi ber sjálfur ábyrgð á því að afla fylgigagna og er umsókn ekki tekin til afgreiðslu fyrr en öll gögn liggja fyrir.

Fylgigögn

  1. Merkingaráætlun um afmörkun og merkingar vinnusvæðis. Ef öryggi og aðgengi að borgarlandi skerðist vegna afnotanna (s.s. lokanir eða þrengingar á götum, gangstéttum, göngustígum eða hjólastígum) þarf að leggja fram teikningu sem sýnir afmörkun vinnusvæðis, merkingar á og við vinnusvæðið, og hvort og hvernig hjáleiðir eru skipulagðar. Merkingaráætlun getur ýmist verið staðalteikning í leiðbeiningum Vegagerðar og Reykjavíkurborgar, eða sérteikning í tilfelli framkvæmda sem hafa mikil áhrif á nærumhverfi. Merkingaráætlun skal vera unnin af aðila sem lokið hefur prófi í vinnusvæðamerkingum á vegum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar og þannig uppfylla reglur um vinnusvæðamerkingar.
  2. Ábyrgðarmaður merkinga. Nafn, símanúmer og netfang ábyrgðarmanns merkinga á vinnusvæðinu. Það er skilyrði að ábyrgðarmaður hafi lokið prófi í vinnusvæðamerkingum á vegum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar.
  3. Dagsett ljósmynd sem sýnir yfirlit og yfirborð fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis á borgarlandi.
  4. Ljósastaurar, götugögn eða gróður, ef við á. Upplýsingar um hvort fjarlægja þurfi ljósastaura, götugögn eða gróður vegna framkvæmdanna.
  5. Lagnateikningar. Teikningar eru pantaðar á heimasíðu Veitna  og Mílu.
  6. Framkvæmdaleyfi skipulagsfulltrúa ef um er að ræða meiriháttar framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið og ásýnd þess.
  7. Greinargerð vegna stærri framkvæmda og byggingaframkvæmda (ef leyfishafi þarf að nýta borgarland vegna framkvæmda innan lóðar). Í greinargerð skulu fylgja upplýsingar um:
    • Tímasetta framkvæmdaáætlun ef um áfangaskiptingu er að ræða.
    • Upplýsingaskilti og útlit vinnusvæðagirðinga en öll vinnusvæði þar sem framkvæmdir vara til lengri tíma verða að uppfylla ákvæði um upplýsingaskilti og útlit vinnusvæðagirðinga. Fjöldi upplýsingaskilta fer eftir stærð vinnusvæðis. Hér má nálgast skapalón fyrir eitt skilti og tvö skilti.  
    • Upplýsingagjöf til nærumhverfis.
    • Málsetta teikningu yfir afmörkun svæðis vegna hvers byggingarstigs fyrir sig (s.s. niðurrif, jarðvegsframkvæmdir o.s.frv.), ef við á.
    • Flutninga efna, tækja og búnaðar til og frá byggingarlóð, ef við á.

Samráð

Í mörgum tilfellum þarf að leita umsagnar annarra aðila sem málið varðar, s.s. Strætó bs., lögreglu, íbúa og annarra hagsmunaaðila og í þeim tilvikum getur afgreiðslutími lengst. Þegar um er að ræða stærri framkvæmdir er kallað til sérstaks samráðsfundar með leyfishafa og viðeigandi hagsmunaaðilum.  

Tilkynnt lok og yfirborðsfrágangur

Leyfishafi skal tilkynna um lok framkvæmda á Mínum síðum í RoSy. Þegar tilkynnt er um lok framkvæmdar skal yfirborð vera toppfyllt og tilbúið til yfirborðsfrágangs sem er á höndum Reykjavíkurborgar á kostnað leyfishafa. Frá 15. október – 31. mars skal toppfylling gerð með köldu malbiki.

Nánar: Reglur um vinnusvæðamerkingar. Staðalteikningar vinnusvæðamerkinga. Listi yfir aðila sem réttindi til vinnusvæðamerkinga. Ákvæði um upplýsingaskilti og útlit vinnusvæðagirðinga. Upplýsingar um viðmiðunareiningaverð vegna yfirborðsfrágangs. 

 

Hvað fellur undir viðburði og önnur afnot?

Hér getur verið um að ræða útitónleika, útifundi, fjöldagöngur, íþróttakeppnir og aðra viðburði af ýmsu tagi. Önnur afnot af borgarlandi eru t.a.m. kvikmyndatökur, gámar vegna búslóðaflutninga, vinnupallar, vinnulyftur, kranar, önnur vinnutæki o.s.frv.

Umsókn um viðburð, kvikmyndatökur og önnur afnot

Sækja þarf um afnotaleyfi í rafræna umsóknarkerfinu RoSy. Umsækjandi ber sjálfur ábyrgð á því að afla fylgigagna og er umsókn ekki tekin til afgreiðslu fyrr en öll gögn liggja fyrir.

Umsókn um viðburð

Umsókn um önnur afnot

Fylgigögn

  1. Greinargerð um tilefni umsóknar og eðli hennar.
  2. Fylgiskjöl líkt og afstöðumynd eða kort, tímasett áætlun eða önnur gögn sem varða umsóknina.
  3. Merkingaráætlun um afmörkun og merkingar vinnusvæðis. Ef öryggi og aðgengi að borgarlandi skerðist vegna afnotanna (s.s. lokanir eða þrengingar á götum, gangstéttum, göngustígum eða hjólastígum) þarf að leggja fram teikningu sem sýnir afmörkun vinnusvæðis, merkingar á og við vinnusvæðið, og hvort og hvernig hjáleiðir eru skipulagðar. Merkingaráætlun getur ýmist verið staðalteikning í leiðbeiningum Vegagerðar og Reykjavíkurborgar, eða sérteikning í tilfelli framkvæmda sem hafa mikil áhrif á nærumhverfi. Merkingaráætlun skal vera unnin af aðila sem lokið hefur prófi í vinnusvæðamerkingum á vegum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar og þannig uppfylla reglur um vinnusvæðamerkingar.
  4. Ábyrgðarmaður merkinga. Nafn, símanúmer og netfang ábyrgðarmanns merkinga á vinnusvæðinu. Það er skilyrði að ábyrgðarmaður hafi lokið prófi í vinnusvæðamerkingum á vegum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar.

Í mörgum tilfellum þarf að leita umsagnar annarra aðila sem málið varðar, s.s. Strætó bs., lögreglu, íbúa og annarra hagsmunaaðila og í þeim tilvikum getur afgreiðslutími lengst. Þegar um er að ræða stærri viðburði er kallað til sérstaks samráðsfundar með leyfishafa og viðeigandi hagsmunaaðilum. 

Götu- og torgsala og leyfi til útiveitinga

Götu- og torgsala fellur undir samþykkt þar um og skal beina fyrirspurnum á netfangið torgsala@reykjavik.is.

Leyfi til útiveitinga og staðsetningar veitingaborða á gangstétt er gefið út af byggingarfulltrúanum í Reykjavík og skal beina fyrirspurnum á  netfangið byggingarfulltrui@reykjavik.is. Rík áhersla er lögð á að þjónustusvæði sé skilgreint og afmarkað, gerð sé grein fyrir öllum búnaði og að allir vegfarendur eigi greiða og óhindraða leið framhjá þjónustusvæðinu.

Um skilti á borgarlandi gildir samþykkt þar um.

Vinnusvæðamerkingar

Gerðar eru kröfur um merkingar á vinnusvæðum til að tryggja öryggi starfsmanna á vinnusvæði, öryggi óvarinna vegfarenda með greiðfærum göngu- og hjólaleiðum, lágmarka umferðartafir og hámarka framkvæmdahraða.

Í leiðbeiningum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar hafa verið settar fram staðalteikningar fyrir ólík vinnusvæði. Gerð er krafa um að lögð sé fram sérteikning þegar um er að ræða meiri truflanir á aðgengi vegfarenda og flóknari hjáleiðir.

Hönnuður vinnusvæðamerkinga og sá sem er ábyrgur fyrir merkingum á vinnusvæði þarf að hafa lokið prófi í vinnusvæðamerkingum á vegum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar. Einnig má leita til verkfræðistofa eða annarra aðila sem hafa slík réttindi til að hanna og ábyrgjast merkingar vinnusvæðis. 

Leyfishafi þarf sjálfur að afla skilta og merkinga. Þeir sem eiga ekki skilti og merkingar geta fengið þau leigð hjá Þjónustumiðstöð borgarlandsins að Stórhöfða.

Nánar: Reglur um vinnusvæðamerkingar. Staðalteikningar vinnusvæðamerkinga. Listi yfir aðila sem réttindi til vinnusvæðamerkinga.

Skilmálar afnotaleyfis

Helstu skilmálar afnotaleyfis tengjast skyldum leyfishafa varðandi;
•    Aðgengi og aðkomu allra vegfarenda framhjá framkvæmdasvæði. 
•    Verðmæti og frágang á yfirborði borgarlands.
•    Öryggi og vinnusvæðamerkingar.
•    Upplýsingaskyldu við vegfarendur, íbúa og aðra hagaðila í nærumhverfi. 

Gjaldskrá

Viðmiðunargjald er kr. 22.734 fyrir hvert útgefið leyfi. Heimilt er að lækka gjald niður í kr. 5.222 ef umfang er lítið og á það einkum við minni háttar afnot. Að sama skapi er heimilt að taka aukagjald sé vinnsla og afgreiðsla leyfis umfangsmeiri en almennt er.

Skoða gjaldskrá 

Afgreiðslutími 

Umsókn skal leggja fram tímanlega svo ekki komi til tafa á framkvæmdum eða viðburði. 
Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram öll gögn umsóknar og tryggja að þau séu fullnægjandi.
Viðmið um afgreiðslutíma:
1. Almenn afnotaleyfi (minni framkvæmdir og viðburðir) - 3 til 8 virkir dagar.
2. Aukin inngrip í umferð og áhrif á nærumhverfi - 9 til 30 virkir dagar. Hér er átt við afnot af borgarlandi og inngrip í umferð sem varir frá einum degi eða lengur. 
3. Stærri framkvæmdir og viðburðir - lengri afgreiðslutími og sérstakt samráð. Mikilvægt er að upplýsa um framkvæmd eða viðburð með góðum fyrirvara svo hægt sé að meta umfang og gera ráðstafanir. 
Afgreiðslutími umsóknar er metinn hverju sinni m.t.t. eðlis og umfangs framkvæmdar eða viðburðar.
Í mörgum tilfellum þarf að leita umsagnar annarra aðila sem málið varðar, s.s. Strætó bs., lögreglu, íbúa og annarra hagsmunaaðila og í þeim tilvikum getur afgreiðslutími lengst. Þegar um er að ræða stærri framkvæmdir er kallað til sérstaks samráðsfundar með leyfishafa og viðeigandi hagsmunaaðilum.

Fyrirspurnir og ábendingar

Símatími afnotaleyfa er mánudaga til fimmtudaga frá kl. 10:30 – 11:30 í síma 411 11 11. Einnig má senda fyrirspurnir og ábendingar á netfangið afnotaleyfi@reykjavik.is eða hringja í þjónustuver í ofangreint númer og skilja eftir skilaboð.