Verkefni

Opinskátt gegn ofbeldi
Skóla- og frístundasviði var falið að vinna að því verkefni að skapa það andrúmsloft í skólum að rætt sé um ofbeldi opinskátt. Grandaskóli er nú þátttakandi í þróunarverkefni ásamt leikskólanum Gullborg og frístundaheimilinu Undralandi. Markmið þess er að auka þekkingu barna/nemenda á ofbeldi, gera þau fær um að ræða um ofbeldi opinskátt og taka afstöðu gegn því. Hreinskiptin umræða um ofbeldi og afleiðingar þess sem sniðin er að þroska barna á leik -  og grunnskólaaldri er skref í þá átt að draga tjöldin frá og rjúfa þögnina sem hefur umlukið ofbeldi. Ekkert verkefni, að okkur vitandi, hefur verið unnið með þessum hætti enda frekar nýtt af nálinni að ofbeldi sé rætt opinskátt við börn. Ætlunin er að skrásetja verkefnið þannig að ef vel tekst til sé hægt að nýta það í öðrum skólum og frístundamiðstöðvum. Verkefnið er einnig tækifæri til að efla samskiptin milli skólastiga og skóla og frístundastarfs.

Vitundavakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum
Vitundarvakningin um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi var samtarfsverkefni innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis. Hlutverk Vitundarvakningar var að kortleggja, samhæfa og stuðla að umfangsmiklu forvarnarstarfi í málaflokknum í samstarfi við viðkomandi aðila, huga að rannsóknum varðandi ofbeldi gegn börnum og stuðla að aukinni samfélagsvitund um málaflokkinn. Fræðsla og forvarnir beinast fyrst og fremst að börnum, fólki sem vinnur með börnum, réttarvörslukerfinu sem og almenningi. Skýrsla Vitundavakningar.

Stattu með þér! - Stuttmynd um sjálfsvirðingu, ofbeldi og setja mörk
Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi hefur látið gera forvarnar- og fræðsluefnið Stattu með þér!, sem er 20 mínútna löng stuttmynd ætluð nemendum á miðstigi grunnskóla. Myndinni er ætlað að spyrna gegn kynferðisofbeldi og klámvæðingu með sjálfsvirðingu og jákvæðni að leiðarljósi. Stattu með þér! er fyrsta fræðsluefni sinnar tegundar fyrir þennan aldurshóp og standa vonir til að kennarar og foreldrar nýti það til að efla 10-12 ára börn í; að standa með sér gegn staðalímyndum og útlitsdýrkun og rækta sjálfsvirðingu í mannlegum samskiptum.

Verndum börn
Barnaheill - Save the Children á Íslandi hefur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í starfi sínu. Samtökin hafa frá upphafi unnið að réttindum barna og velferð og eitt af meginverkefnum þeirra er að berjast gegn ofbeldi á börnum. Þessi vefsíða hefur að geyma upplýsingar um ofbeldi á börnum, einkenni, afleiðingar og hvert er hægt að leita ef grunur vaknar um ofbeldi á barni. Vefsíðan er ætluð öllum almenningi og ekki síst þeim sem starfa með og að málefnum barna.

Ef ég hefði bara vitað
,,Ef bara ég hefði vitað“ er efni sem danski Rauði krossinn tók saman og fjallar um hvernig maður getur hjálpað sjálfum sér og öðrum þegar maður upplifir alvarlega atburði. Með alvarlegum atburðum er átt við t.d. skilnað, dauðsfall, umferðarslys, alvarlega ólæknandi sjúkdóma, þunglyndi, ástarsorg og einelti. Þetta efni er byggt upp á nokkrum sönnum frásögnum unglinga sem hafa upplifað erfiða atburði í lífinu. Allar frásagnirnar eiga það sameiginlegt að þær lýsa því hvernig tekist er á við vandann og sálræn einkenni, sem oft fylgja í kjölfarið.

Sú vitneskja sem kemur fram í þessu efni, getur vonandi orðið til þess að hægt sé að líta öðruvísi á vandann þannig að sá sem þetta les geti aukið færni sína til þess að hjálpa sjálfum sér, eða veitt öðrum stuðning.

Bæklingar:

Býrð þú við ofbeldi?
Bæklingur sem Velferðarráðuneytið gaf út. Upplýsingar um heimilisofbeldi, áhrif þess, einkenni og hvert sé hægt að leita hjálpar. Bæklingurinn er á íslensku, ensku og pólsku.

Verum örugg
Bæklingur um leiðir til að þekkja og forðast kynferðislegt ofbeldi.  Hann er sérstaklega ætlaður einstaklingum með þroskahömlun.

Ofbeldi gegn börnum, hlutverk skóla – Handbók fyrir starfsfólk
Umfjöllunarefni þessarar handbókar er ofbeldi sem börn verða fyrir en markmiðið er að upplýsa kennara og annað starfsfólk skóla um einkenni og áhrif ofbeldis á börn og að vekja athygli á forvörnum, inngripi og úrræðum sem eru til staðar til að tryggja sem best velferð nemenda.

Rannsóknir:

Um nýja nálgun í heimilisofbeldismálum: Samstarf barnaverndar og lögreglu
Í þessari skýrslu eru kynntar niðurstöður mats á tilraunaverkefni Barnaverndarstofu vegna heimilisofbeldis. Um er að ræða tímabundna þjónustu sem veitt var um tveggja ára skeið, frá september 2011 til maí 2013, þar sem sérfræðingur á vegum Barnaverndarstofu og lögregla störfuðu saman eftir fyrirfram ákveðnu vinnulagi „Þjónusta við börn sem búa við heimilisofbeldi“. Verkefnið var samstarf Barnaverndarstofu, barnaverndarnefnda og lögreglu á höfuðborgarsvæðinu og miðaði að því að tryggja barnvæna nálgun í heimilisofbeldismálum þar sem börn komu við sögu.

Börn sem eru vitni að heimilisofbeldi
Rannsókn Barnaheilla – Save the Children á Íslandi gefur vísbendingar um stöðu mála í Reykjavík. Viðmælendur sem tóku þátt í rannsókninni starfa hjá mikilvægum stofnunum í samfélaginu sem mörgum hverjum er ætlað að vernda börn og hafa hag þeirra að leiðarljósi í sínu starfi. Þeir eru einnig í lykilstöðu til að hafa áhrif á áherslur, viðhorf, vinnulag og verklagsreglur hjá viðkomandi stofnunum.

Ofbeldi á heimili: Með augum barna
Þessi bók eftir Guðrúnu Kristinsdóttur er framlag til rannsókna á heimilisofbeldi, vanrækslu og misbeitingu gagnvart börnum og mæðrum og er jafnframt innlegg í baráttuna gegn þessu alvarlega þjóðfélagsmeini. Í rannsókninni var leitað til barnanna sjálfra til að athuga hvaða hugmyndir þau hefðu um heimilisofbeldi. Niðurstöðurnar leiddu meðal annars í ljós að viðhorf drengja og stúlkna eru nokkuð ólík og að vitneskja þeirra er oft meiri en foreldrar halda. Í bókinni segja börn frá skilningi sínum og viðbrögðum við margþættu ofbeldi á heimilum. Einnig lýsa mæðurnar, sem bjuggu bæði við andlegt og líkamlegt ofbeldi reynslu sinni.

Heimilisofbeldi gegn börnum á Íslandi: Höggva – hýða – hirta –hæða – hafna – hrista - hræða
Ofbeldi gegn börnum og refsingum í tímans rás er lýst og gerð grein fyrir umræðu fagfólks og annarra um viðfangsefnið og helstu niðurstöðu rannsókna kynntar. Bókinni er ætlað að styðja við forvarnir hér á landi, í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.