Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vekur athygli á að vinnsla og dreifing á matvælum frá einkaheimilum er óheimil.

Starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur skal hanga uppi á áberandi stað.

Hvaða búnað þarf ég ?

Húsnæði og búnaður leyfisskyldra fyrirtækja tekur mið af hvers konar starfsemi á að vera í viðkomandi húsnæði.

Húsnæði, búnaður og matvælaöryggiskerfi (innra eftirlit) skal vera þannig að öryggi matvæla og viðskiptavina/gesta  sé ávallt tryggt á mestu álagstímum. Vísað er í Leiðbeiningar um góða starfshætti í matvælafyrirtækjum og samræmd starfsleyfisskilyrði Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Bent er á upplýsingasíðu Matvælastofnunar um matvæli.

Ný matvælafyrirtæki

Þegar stofnað er nýtt fyrirtæki þarf að ganga úr skugga um að húsnæðið uppfylli ákvæði byggingarreglugerðar um atvinnuhúsnæði og hafi hlotið samþykki embættis byggingarfulltrúa fyrir starfseminni.  Fyrir starfsleyfisveitingu þarf jákvæð umsögn byggingarfulltrúa að liggja fyrir áður en Matvælaeftirlitið getur lagt umsókn um starfsleyfi fyrir til samþykktar.  Séu gerðar breytingar á húsnæði matvælafyrirtækis þarf, í flestum tilfellum, að sækja um byggingarleyfi til byggingarfulltrúa og leggja inn uppdrætti af breytingum til samþykktar.  Eftir að uppdrættir hafa verið samþykktir þarf að panta loka-/stöðuúttekt hjá byggingarfulltrúa.  Sé húsnæðið í lagi við úttekt gefur embætti byggingarfulltrúa Matvælaeftirlitinu jákvæða umsögn. Matvælaeftirlitið þarf einnig að taka út húsnæðið áður en starfsemi hefst og ef engar athugasemdir eru gerðar við úttekt fær fyrirtækið starfsleyfi.  Starfsleyfið tekur gildi um leið og greitt hefur verið fyrir það samkvæmt gildandi gjaldskrá.  Starfsleyfi eru almennt gefin út til tólf ára.

Breytingar á húsnæði eða starfsemi

Séu fyrirhugaðar meiriháttar breytingar á húsnæði, framleiðslu og rekstri fyrirtækis skal það gert í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og þá þarf að sækja um nýtt starfsleyfi.  Alltaf þegar um meiriháttar breytingar á húsnæði er að ræða þarf að sækja um byggingarleyfi, fá uppdrætti samþykkta og fá loka-/stöðuúttekt.  Jákvæð umsögn byggingarfulltrúa þarf að liggja fyrir áður en hægt er að samþykkja starfsleyfisumsókn.
 

Endurnýjun starfsleyfa eða eigendaskipti

Sé um endurnýjun á starfsleyfi eða eigendaskipti/kennitölubreytingu að ræða á fyrirtæki sem er í fullum rekstri þarf að sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna endurnýjunar/eigendaskipta.  Jákvæð umsögn byggingarfulltrúa er ekki nauðsynleg fyrir leyfisveitingu hafi engar breytingar verið gerðar á rekstri eða húsnæði.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Nánari upplýsingar um byggingamál veitir embætti byggingarfulltrúa á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Sími 4 11 11 11.