Áramótabrennur
Um þessi áramót, 2019 - 2020, verða áramótabrennur á tíu stöðum í Reykjavík, eins og verið hefur undanfarin ár. Stærð þeirra ræðst af aðstæðum á hverjum stað. Umsjón með þeim er ýmist á hendi borgarinnar eða félagasamtaka, sem huga vel að því sem sett er á brennurnar og tryggja að frágangur og vöktun sé í lagi.
Hvar eru áramótabrennurnar?
Áramótabrennurnar í Reykjavík eru á hefðbundnum stöðum og með svipuðu sniði ár hvert. Á gamlárskvöld 2019 eru þær á eftirtöldum stöðum og með tveimur undantekningum er borinn eldur að köstunum kl. 20.30. Skoða staðsetningu í Borgarvefsjá. Skoða kort sem pdf.
1) Við Ægisíðu, lítil brenna.
2) Í Skerjafirði gegnt Skildinganesi 48 - 52, lítil brenna (tendrað kl. 21.00, eftir blysför sem hefst kl. 20.30).
3) Við Suðurhlíðar, neðan við Fossvogskirkjugarð, lítil brenna.
4) Laugardalur, fyrir neðan Laugarásveg 18, lítil brenna.
5) Geirsnef, á norðanverðu Geirsnefi, stór brenna.
6) Við Suðurfell, lítil brenna.
7) Við Rauðavatn að norðanverðu, lítil brenna.
8) Gufunes við Gufunesbæ, stór brenna.
9) Við Kléberg á Kjalarnesi, lítil brenna.
10) Úlfarsfell á athafnasvæði Fisfélagsins ofan við Lambhagaveg, lítil brenna (tendrað kl. 15.00)
Stærð brennanna ræðst meðal annars af mati Eldvarnareftirlitsins á aðstæðum á hverjum stað.
Höfum góða skapið með en enga skotelda
Eldur er borinn að köstunum kl. 20.30 á gamlárskvöld á öllum stöðum með tveimur undantekningum. Á Úlfarsfelli er tendrað kl. 15.00 um daginn og í Skerjafirði er eldur borinn að kestinum kl. 21.00 eftir blysför sem hefst kl. 20.30. Engin formleg dagskrá er á borgarbrennunum en fólk er hvatt til að rifja upp álfasöngvana og mæta með góða skapið.
Vakin er athygli á því að óheimilt er að vera með flugelda og skotblys við brennur en leyfilegt að vera með stjörnuljós og blys önnur en skotblys. Minnt er á hlífðargleraugu og hanska.
Byrjað verður að taka á móti efni á kestina föstudaginn 27. desember. Best er að fá hreint timbur á brennurnar. Stærstur hluti þess sem fer á brennurnar eru vörubretti en einnig er fenginn afgangur af jólatréssölunni. Plast, gúmmí og unnið timbur á ekki erindi í köstinn. Starfsmenn hverfastöðva Reykjavíkurborgar verða á vettvangi við flestar brennurnar og leiðbeina þeim sem koma með efni. Hætt verður að taka á móti efni þegar þær eru orðnar hæfilega stórar eða í síðasta lagi kl. 12.00 á gamlársdag. Upp úr hádegi á gamlársdag verður olía sett á bálkestina. Starfsmenn borgarinnar verða við vakt við brennur í framhaldi af því og standa vaktina fram eftir nóttu.
Fyrirspurnir og/eða ábendingar
Við viljum gjarnan fá ábendingar um það sem betur má fara. Þú getur sett inn ábendingu og upplýsingar í ábendingakerfið okkar >>> SETJA INN ÁBENDINGU <<< eða hringt í þjónustuver Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12 - 14, í síma 4 11 11 11. Starfsmenn þar færa þá ábendingu inn í kerfið. Opið kl. 8.20 - 16.15 alla virka daga.