Atvinnutengt nám
Atvinnutengt nám er ætlað nemendum í 9. og 10. bekk grunnskóla í Reykjavík, sem vegna sértækra örðugleika annarra en fötlunar, hafa dregist verulega aftur úr í námi og/eða eiga við félags- og tilfinningalega örðugleika að stríða sem valda þeim verulegri vanlíðan í grunnskóla.
Markmið Atvinnutengds náms er að mæta þeim nemendum sem líður illa í skóla og eiga undir högg að sækja félagslega. Einnig er markmiðið að bæta líðan nemenda og styrkja sjálfsmynd þeirra og auk þess að vinna með umhverfislæsi þeirra.
Að verkefninu standa skóla - og frístundasvið, velferðarsvið og Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts.
Skipulag Atvinnutengds náms
Hver skóli ákveður hvaða nemendur veljast í Atvinnutengt nám. Tengiliðir grunnskóla og þjónustumiðstöðvar geta fundið nemanda vinnustað í Atvinnutengdu námi innan skólans, í nágrenni hans eða nálægt heimili nemandans. Verkefnastjóri tekur þátt í þessari vinnu sé þess óskað. Skráning í Atvinnutengt nám hefst þann 1. september 2021. Biðtíminn eftir vinnustað getur orðið allt að þremur vikum frá því að formleg umsókn er send til verkefnastjóra.
Skráning í Atvinnutengt nám
Tengiliður skóla leitar reglubundið eftir upplýsingum frá tengiliði á vinnustað um hagi nemandans og mætingar. Verkefnastjóri sér um að greiða honum laun skv. vinnuframlagi. Sem launþegi hjá Reykjavíkurborg nýtur nemandinn launþega- og ábyrgðartryggingar inni á vinnustaðnum. Nemandinn fær ekki greidd laun ef hann er frá vinnu vegna veikinda og gefur tengiliður vinnustaðarins nemandanum umsögn við lok hins atvinnutengda náms.
Verkefnisstjórn, skipuð af samstarfsaðilum, þróar starf atvinnutengda námsins og mótar stefnu þess. Hún boðar einnig til samráðsfunda með samstarfsaðilum verkefnisins eftir þörfum. Áhersla er lögð á að skóli og grenndarsamfélag þrói atvinnutengt nám innan skólans og umsýslusvæðis þjónustumiðstöðvar. Jafnframt verði litið til þarfa samfélagsins þar sem nemendur í atvinnutengdu námi geta lagt hönd á plóg, svo sem í tengslum við þjónustu við elstu og yngstu borgarana. Umhverfislæsi nemenda verður aukið með samtölum, fræðslu og þátttöku inni á vinnustöðum.
Launakjör
Nemendur í atvinnutengdu námi eru launþegar hjá Reykjavíkurborg og njóta því atvinnu- og ábyrgðartryggingar sem slíkir. Vinnustundafjöldi má ekki fara yfir 16 klukkustundir á mánuði hjá nemendum í atvinnutengdu námi. Ein klukkustund í atvinnutengdu námi jafnast á við 1,5 kennslustundir.
Nemendur í atvinnutengdu námi fá greitt tímakaup sem hér segir:
• Nemendur í 9. bekk fá 886 kr.- á tímann.
• Nemendur í 10. bekk fá 1107 kr.- á tímann.
Nemanda í atvinnutengdu námi sem veikist eða forfallast á annan hátt ber að tilkynna sínum vinnustað um forföll sín rétt eins og skólanum. Nemandinn fær þann dag (eða þá daga) sem hann forfallast ekki greiddan.
Í upphafi árs 2022 þurfa nemendur í 10.bekk að greiða skatta. Allar upplýsingar eru á vef ríkisskattstjóra.
Verkefnisstjórn og verkefnisstjóri
Verkefnisstjórn Atvinnutengda námsins skipa Magnús Arnar Sveinbjörnsson, skólastjóri Vinnuskólans fyrir hönd umhverfis- og samgöngusviðs, Sólveig Reynisdóttir framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts fyrir hönd velferðarsviðs, og Alda Árnadóttir sérfræðingur frá skóla- og frístundasviði.
Arna Hrönn Aradóttir er verkefnastjóri en hún er með aðsetur á Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts í Hraunbæ 115. Verkefnastjóri hefur umsjón með Atvinnutengdu námi nemenda, heldur utan um skráningu, sér til þess að nemendur fái greitt fyrir sína vinnu og er tengiliður við grunnskóla og vinnustaði nemenda.
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar um Atvinnutengt nám veitir verkefnastjóri.
Arna Hrönn Aradóttir, verkefnisstjóri
Símar: 411 1200 og 411 1236 (beint)
Netfang: arna.hronn.aradottir(hjá)reykjavik.is
Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts - Velferðarsvið Reykjavíkurborgar
Hraunbæ 115, 110 Reykjavík