Gögnun úr barnaverndarmálum fullorðinna, sem einu sinni voru börn til vinnslu hjá barnaverndinni, eru ekki vistuð hjá Barnavernd Reykjavíkur. Heldur hafa þau verið send til geymslu hjá Borgarskjalasafni Reykjavíkur sem staðsett er á Tryggvagötu 15, 101 Reykjavík. Sjá heimasíðu safnsins; http://www.borgarskjalasafn.is/

Sýna allt Loka öllu

11. júní 2020

 

Tilkynningum til Barnaverndar fjölgar áfram

Líkt og undanfarna mánuði fjölgar tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur. Þó COVID ástandið sé yfirstaðið eru afleiðingar þess til staðar og eiga eftir að versna ef fram fer sem horfir. Aldrei fyrr hafa fleiri tilkynningar borist á einum mánuði til Barnaverndar Reykjavíkur. Tilkynningar í maí voru 500. Það er um 28-36% yfir meðaltali hvers mánaðar undanfarinna tveggja ára.

Sjá tölfræði: Fjöldi barnaverndartilkynninga árin 2009 til 2020

Sjá tölfræði: Fjöldi barnaverndartilkynninga eftir mánuðum árin 2018 til 2020

 

Heimilisofbeldi

Heimilisofbeldi er áfram áberandi ástæða tilkynninga eins og undanfarna mánuði, en 32 tilkynningar bárust í maí vegna heimilisofbeldis. Að meðaltali frá janúar 2018 berast um 20 tilkynningar á mánuði vegna heimilisofbeldis.

Sjá tölfræði: Fjöldi barnaverndartilkynniga í mánuði vegna heimilisofbeldis, árin 2018 til 2020

 

Barn í yfirvofandi hættu

Áfram er aukning á tilkynningum þar sem barn er metið í yfirvofandi hættu af tilkynnanda. Í maí voru 77 tilkynningar metnar þess eðlis og er það rúmlega 100% aukning frá árinu 2015.

Sjá tölfræði: Barn metið í yfirvofandi hættu - fjöldi tilkynninga eftir mánuðum frá árinu 2015 til 2020

 

Áfengis- og vímuefnaneysla

Tilkynningum þar sem foreldrar eru í áfengis- og vímuefnaneyslu hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Meðalfjöldi tilkynninga í mánuði frá árinu 2015 þar sem foreldrar eru í áfengis- og vímuefnaneyslu hefur fjölgað yfir 100%, úr 23,5 tilkynningum á mánuði árið 2015 í 47,6 tilkynningar á mánuði það sem af er þessu ári. Fjöldi tilkynninga í maí 2020 voru 51.

Sjá tölfræði: Foreldrar í áfengis- og vímuefnaneyslu, meðalfjöldi tilkynninga á mánuði, árin 2015 til 2020

 

Frekari tölfræði og upplýsingar fyrir fjölmiðla:

Á tölfræðivef Reykjavíkurborgar má finna frekari upplýsingar um tölfræði í starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur.

Hákon Sigursteinsson, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur veitir jafnframt frekari upplýsingar í netfanginu hakon.sigursteinsson@reykjavik.is eða í síma 411-9200.

 

5. maí 2020

Tilkynningum til Barnaverndar fjölgar áfram

Barnavernd Reykjavíkur fylgist náið með þróun tilkynninga í kjölfar Covid-19. Alls bárust 468 tilkynningar til Barnaverndar í apríl um 332 börn sem er næstmesti fjöldi tilkynninga á mánuði frá upphafi árs 2018. Alls voru 220 tilkynninganna vegna vanrækslu, 135 vegna áhættuhegðunar barna og 113 vegna ofbeldis. Í 71 tilviki var barn metið í bráðri hættu. Virk mál á borði barnaverndarstarfsmanna í Reykjavík eru 2.175 talsins.

Athygli vekur að tilkynningum um heimilisofbeldi, þar sem börn komu við sögu,  fjölgaði hlutfallslega mjög mikið milli mánaða og hafa ekki verið fleiri í upphafi árs í rúman áratug.

Tölfræði Barnaverndar Reykjavíkur – samantekt fyrir apríl 2020

Heildarfjöldi tilkynninga
Tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur heldur áfram að fjölga, en í apríl voru þær samtals 468. Ekki hafa borist fleiri tilkynningar í mánuði síðustu tvö ár ef frá er talinn janúar á þessu ári þegar 480 tilkynningar bárust. Árið 2018 voru tilkynningar að meðaltali 367 pr. mánuð en árið 2019 bárust að meðaltali 390 tilkynningar pr. mánuð.
Sjá tölfræði: Heildarfjöldi tilkynninga pr. mánuð 2018/2019 og 2020

Heimilisofbeldi

Í apríl bárust 46 tilkynningar til Barnaverndar Reykjavíkur vegna heimilisofbeldis. Þar er um mikla fjölgun að ræða, en í mars barst 21 tilkynning og síðustu tvö ár hafa 18 slíkar tilkynningar borist að meðaltali í hverjum mánuði.
Sjá tölfræði: Tilkynningar um heimilisofbeldi per mánuð frá 2018

Þegar horft er á þróun undanfarinn áratug sést að tilkynningar vegna heimilisofbeldis á tímabilinu janúar til apríl hafa aldrei verið fleiri en árið 2020.
Sjá tölfræði: Tilkynningar um heimilisofbeldi, jan-apr, 2009 til 2020

Barn í yfirvofandi hættu
Áfram má greina mikla aukningu í tilkynningum þar sem barn er metið í yfirvofandi hættu. Slíkar tilkynningar voru 71 í apríl á þessu ári, sem er sami fjöldi og barst í mars. Þetta er talsverð aukning þegar horft er til síðustu tveggja ára, en þá hafa að meðaltali berast um 45 slíkar tilkynningar í hverjum mánuði.
Sjá tölfræði: Tilkynningar um barn í yfirvofandi hættu per mánuð 2018 / 2019 / 2020

Áfengis- og vímuefnaneysla

Tilkynningum vegna foreldra í áfengis eða vímuefnaneyslu hefur fjölgað umtalsvert undanfarin ár. Ef fram fer sem horfir stefnir í 20-25% fjölgun tilkynninga árið 2020 miðað við árið 2019, en þá fjölgaði tilkynningum einnig mikið; um 29% frá árinu 2018. 
Sjá tölfræði: Fjöldi tilkynninga frá 2015 þar sem foreldrar eru í áfengis eða vímuefnaneyslu

Helstu tilkynnendur
Í apríl bárust tvær tilkynningar beint frá börnum til Barnaverndar Reykjavíkur. Það er svipaður fjöldi og venjulega, en tilkynningar af þessu tagi eru á bilinu 0-5 í hverjum mánuði. Þær voru óvenjumargar í marsmánuði, eða 11 talsins.

Tilkynningar frá skólum voru mjög fáar í apríl eða 7 sem er svipaður fjöldi og tíðkast í sumarfrísmánuði. Til samanburðar bárust 39 slíkar tilkynningar í apríl 2018 en 63 í apríl 2019. Tilkynningum frá lögreglu fjölgaði talsvert í apríl. Þær voru 245 talsins, fleiri en nokkru sinni síðustu tvö ár, en á því tímabili hefur að meðaltal borist 161 tilkynning til lögreglu. Hér er því um meira en 50% aukningu að ræða.
Sjá tölfræði: Fjöldi tilkynninga frá helstu tilkynnendum 2018 / 2019 /2020 per mánuð

 

8. apríl 2020

Hér má sjá nokkrar lykiltölur í starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur. Í fyrsta lagi birtast hér upplýsingar um heildarfjölda tilkynninga á árunum 2009 – 2020 og ástæðu að baki tilkynningum. Tilkynningum til Barnaverndar Reykjavíkur fjölgar ár hvert og á síðasta ári fjölgar tilkynningum um 6% frá árinu 2018. Þá vekur athygli að tilkynningum vegna vanrækslu fjölgar um 15% milli 2018 og 2019, en í þeim flokki eru til að mynda tilkynningar vegna foreldra í áfengis- eða fíkniefnaneyslu, en þeim fjölgar um 29% milli áranna 2018 og 2019. Heildarfjöldi tilkynninga til BR, 2009-2020 Ástæður tilkynninga

Vegna umræðu undanfarið um heimilisofbeldi eru hér sérstaklega dregnar fram tölur um fjölda tilkynninga um heimilisofbeldi. Af þeim má sjá að tilkynningar um heimilisofbeldi voru 21 í mars 2020, en að meðaltali berast um 18 tilkynningar um heimilisofbeldi í hverjum mánuði. Tilkynningar um heimilisofbeldi, eftir mánuðum frá 2018 Tilkynningar um heimilisofbeldi, jan-mars, frá 2009

Þá eru glögg merki um aukningu tilkynninga þar sem barn er í yfirvofandi hættu, en slíkum tilkynningum fjölgar um 31% milli áranna 2018 og 2019. Þá má sjá að fjöldi slíkra tilkynninga í mars á undanförnum árum hefur verið á bilinu 28-42 en voru 71 í mars 2020. Barn metið í yfirvofandi hættu

Á fyrstu mánuðum ársins 2020 má greina aukningu í tilkynningum frá börnum og einnig nágrönnum/almennum borgurum. Í mars 2020 bárust Barnavernd Reykjavíkur 11 tilkynningar frá börnum, en þær hafa verið á bilinu 1-3 í mars undanfarin ár. Tilkynningar frá nágrönnum/almennum borgurum voru 60 í mars á þessu ári en hafa verið á bilinu 22-39 undanfarin ár. Barn og nágranni/almennur borgari sem tilkynnandi

Helsti tilkynnandi til Barnaverndar Reykjavíkur í gegum tíðina hefur verið Lögreglan, en skólar/skólaþjónusta og skólayfirvöld, ásamt velferðar- og heilbrigðisþjónustu hafa bætt sig töluvert síðastliðinn áratug, með aukningu frá 62% til 118%. Helstu tilkynnendur til Barnaverndar Reykjavíkur frá 2011

Tilkynna ber allt athæfi sem getur verið hættulegt andlegri eða líkamlegri heilsu og þroska barns. Það kann að vera vanræksla, vanhæfni eða framferði foreldra gagnvart barni, áreitni eða ofbeldi af hendi annarra gagnvart barni eða hegðun þess.

Einnig skal tilkynna ef grunur er um að refsiverður verknaður hafi verið framinn gegn barni eða af því.

Mjög góð svör við algengum spurningum vegna tilkynninga má finna á heimasíðu Barnaverndarstofu, sjá hér.

Almennum tilkynningum eða fyrirspurnum er hægt að koma á framfæri til Barnaverndar Reykjavíkur þar sem þeim er komið til viðkomandi yfirmanna. Barnavernd Reykjavíkur er að Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík, sími: 4 11 92 00, netfang: barnavernd@reykjavik.is. Hægt er að tilkynna símleiðis á skrifstofu Barnaverndar Reykjavíkur mánudaga til fimmtudaga frá kl. 13.00 - 15.00 og föstudaga frá 10.00-12.00.

Eftir lokun skrifstofu og um helgar er neyðartilvikum sinnt í síma neyðarlínunnar 112.  Einnig er hægt að tilkynna rafrænt til Barnaverndar á síðu borgarinnar.

Starfsfólki stofnana borgarinnar sem þjónusta börn með einhverjum hætti, s.s. leikskólar, grunnskólar, þjónustumiðstöðvar og frístundastofnanir, er bent á að hafa samband við skilgreinda tengiliði barnaverndar í viðkomandi hverfum, annaðhvort gegnum tölvupóst eða beina síma þeirra. Yfirmenn stofnana eiga að vera með lista yfir þá starfsmenn.

Eftir móttöku tilkynningar taka starfsmenn barnaverndarnefndar ákvörðun um hvort tilefni sé til að hefja könnun máls (sjá nánar þjónustulýsingu um könnun máls). Er það gert innan sjö daga frá því að tilkynning berst. Sú ákvörðun er tekin á vikulegum fundum með stjórnendum nema tilefni sé talið til þess að bregðast við án tafar. Foreldrar eru ávallt látnir vita skriflega að tilkynning hafi borist og hvaða ákvörðun hafi verið tekin í framhaldinu.

Opinberir tilkynnendur, til dæmis starfsfólk skóla, sjúkrastofnana, félagsþjónustu eða annarra barnaverndarnefnda fá einnig bréflega staðfestingu á móttöku tilkynningar.

Ákvörðun um að hefja könnun skal ekki tekin nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til. Mál telst barnaverndarmál þegar tekin hefur verið formleg ákvörðun um að hefja könnun. Ákvörðunina taka starfsmenn Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, en á þessu stigi eru málin ekki lögð formlega fyrir nefndina.

Starfsmenn skulu afgreiða mál svo fljótt sem auðið er. Ákvörðun um hvort hefja skuli könnun á grundvelli tilkynningar skal að jafnaði tekin innan 7 daga frá því að tilkynning berst. Móttaka tilkynninga er allan sólarhringinn alla daga ársins.

Fagfólk metur í hverju tilviki fyrir sig hvernig bregðast skal við.  Samkvæmt IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002 ber öllum almenningi skylda að tilkynna til barnaverndarnefndar ef til staðar er grunur um að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Tilkynningarskylda þeirra starfsstétta sem vegna stöðu sinnar og starfa hafa afskipti af málefnum barna, er sérstaklega tilgreind og gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta. Barnavernd Reykjavíkur óskar eftir því að opinberir aðilar tilkynni skriflega um óviðunandi aðstæður barna, sé þess nokkur kostur.

Ákvörðun barnaverndarnefndar um að hefja könnun máls eða láta mál niður falla er hvorki kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála né annars stjórnvalds. Ákvörðun barnaverndarnefndar um nafnleynd er heimilt að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála. Leiðbeina skal tilkynnanda um rétt hans til að kæra ákvörðun barnaverndarnefndar.

Samkvæmt 6. gr. barnaverndarlaga er heimilt að skjóta úrskurðum og stjórnvaldsákvörðunum barnaverndarnefnda, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum, til úrskurðarnefndar velferðarmála eða eftir atvikum dómstóla.

Félags- og jafnréttismálaráðherra fer með yfirstjórn barnaverndarmála á Íslandi og hefur eftirlit með Barnaverndarstofu. Barnaverndarstofa hefur eftirlit með störfum barnaverndarnefnda samkvæmt barnaverndarlögum og getur, á grundvelli kvartana eða annarra upplýsinga sem henni berast um meðferð einstakra mála og ef hún telur ástæðu til, aflað nauðsynlegra gagna, upplýsinga og skýringa hjá viðkomandi barnaverndarnefnd.