Skoða skýrslu stýrihóps um stefnumörkun í bíla- og hjólastæðamálum.

Endurskoðun gjaldskrár og gjaldskyldutíma bílastæða

Reglur um endurskoðun gjaldskrár og gjaldskyldutíma bílastæða í borgarlandi, stefna að því markmiði að verð gjaldskyldra bílastæða stuðli að því að bílastæðanýting á borgarlandi sé um 85%. Það þýðir að á hverjum götulegg eða skilgreindu svæði séu um 1-2 bílastæði laus. Gjaldskyldutími verði lengdur og gjaldskylda tekin upp á sunnudögum þar sem þörf er á. Þá verði gjaldskrá bílastæða endurskoðuð árlega og heimilað að setja kvöð um hámarkstíma ökutækja í bílastæðum, til að tryggja að bílastæði við verslanir og þjónustu séu fyrst og fremst nýtt af viðskiptavinum. 

Af hverju að fjölga gjaldskyldusvæðum?

Tilgangurinn með fjölgun gjaldskyldusvæða er að framfylgja markmiðum aðalskipulags Reykjavíkurborgar og stuðla að fjölbreyttri notkun bílastæða í borgarlandi, með því að stýra eftirspurn eftir bílastæðum og styðja þannig við þjónustuaðila, gesti og íbúa. Hagsmunaaðilar, t.d. fyrirtæki, stofnanir, íbúar og hagsmunasamtök, geta óskað eftir því að innleitt verði nýtt gjaldsvæði, með því að senda beiðni á bilastaedasjodur@reykjavik.is. Við ákvörðun um ný gjaldsvæði er horft til þess að bílastæðanýting sé að jafnaði yfir 85% á þeim tímum sem eftirspurn er í hámarki eða að gjaldskylda sé mikilvægur liður í að ná markmiðum aðalskipulags. 

Reglur um fjölda bíla- og hjólastæða

Í reglunum eru kröfum um fjölda bíla- og hjólastæða, innan lóða, í Reykjavík vegna nýbyggingar og/eða endurnýjunar byggðar lýst. Þær eru hluti af bíla- og hjólastæðastefnu aðalskipulags borgarinnar. Reglurnar eru lagðar til grundvallar við gerð hverfis- og deiliskipulags og við umsókn byggingarleyfa.