Afgreiðslutímar

Upplýsingar um afgreiðslutíma er að finna á vef Borgarbókasafnsins.

Meginmarkmið Borgarbókasafns Reykjavíkur

Hlutverk

Borgarbókasafn Reykjavíkur er alhliða upplýsinga- og menningarstofnun og meginhlutverk þess er að jafna aðgengi að menningu og þekkingu. Lögð er áhersla á gott aðgengi borgarbúa á öllum aldri að þjónustu, fræðslu og viðburðum á sviði menningar og lista.

Leiðarljós

Borgarbókasafn Reykjavíkur standi, í alþjóðlegu umhverfi, jafnfætis bestu almenningsbókasöfnum og menningarhúsum hvað varðar þjónustu, búnað og viðburðahald. Starfsemin beri vott um fagmennsku, virðingu, víðsýni og sköpunarkraft.

Meginmarkmið

Lýðræði: Borgarbókasafn eflir lýðræði og jöfnuð. Þjónusta safnsins skal ná til allra borgaranna án tillits til aldurs, kyns, kynþáttar, stjórnmálaskoðana, trúar, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu. Þannig eflir það lýðræði, jafnrétti, athafnafrelsi og velferð borgaranna

Menning: Borgarbókasafn er miðstöð mannlífs og menningar. Borgarbókasafn Reykjavíkur er menningarstofnun í víðustu merkingu þess orðs. Þar mætast ólíkir hópar sem gefa raunsanna mynd af hinni margvíslegu menningu samfélagsins.

Menntun: Borgarbókasafn er vettvangur barna, ungmenna  og fullorðinna til að uppgötva og rannsaka heiminn og þróa þannig hæfileika sína og tækifæri. Menntun, líkt og menning, er liður í þroska og þróun hvers einstaklings, óháð því hvernig hennar er aflað.

Uppspretta: Borgarbókasafn er vettvangur hugmynda, sköpunar og upplifunar. Einstaklingar og hópar hafa tækifæri til að örva andann og sköpunarkraftinn, hvort sem það er í gegnum samskipti við aðra, þátttöku, menningu og listir.

Fyrirmynd: Borgarbókasafn Reykjavíkur er upplýsinga- og menningarmiðstöð sem gegnir forystuhlutverki meðal almenningsbókasafna landsins og sækir fyrirmynd sína til fremstu safna heims.

Borgarbókasafnið starfar samkvæmt bókasafnalögum nr. 150/2012. Það hefur yfirlýsingu frá UNESCO um almenningsbókasöfn frá 1994, menningarstefnu Reykjavíkurborgar, mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og samþykkt um Borgarbókasafn að leiðarljósi í starfi sínu.

Borgarbókasafnið rekur sjö starfsstaði: í Árbæ, Gerðubergi, Grófinni, Kringlunni, Sólheimum, Spönginni og Úlfarsárdal. Einnig bókabílinn Höfðingja og sögubílinn Æringja.