Hinsegin dagar

Hinsegin dagar er einstakur viðburður; mannréttinda- og menningarhátíð sem fagnar sýnileika og baráttu hinsegin fólks á Íslandi. Hinsegin dagar er hátíð sem sannarlega styrkir ímynd Reykjavíkur sem mannréttindaborgar, og uppfyllir þess utan öll skilyrði sem sett voru í reglum um borgarhátíðir.

Hönnunarmars

Hönnunarmars uppfyllir ákaflega vel öll skilyrði sem sett voru í reglum um borgarhátíðir. Hönnunarmars er eina hátíðin í borginni sem beinir kastljósinu að hönnun og er gríðarlega mikilvæg fyrir íslenska hönnuði.

Iceland Airwaves

Iceland Airwaves er sú tónlistarhátíð sem hefur haft stærsta þýðingu fyrir aðgengi – og velgengni íslenskra hljómsveita og tónlistarmanna á erlendri grund. Hátíðin hefur farið í gegnum ákveðna fjárhagslega erfiðleika, en vonir standa til að með breyttu eignarhaldi sé hún komin í örugga höfn.

Myrkir músíkdagar

Myrkir músíkdagar verður 40 ára árið 2020 og er þannig ein af elstu hátíðum landsins og sú eina sem beinir sjónum sínum að íslenskum samtímatónskáldum. Hátíðinni hefur, þrátt fyrir virðulegan aldur, alltaf tekist að vera framsækin og ögrandi og má kinnroðalaust halda fram að hún hafi skipt sköpum fyrir íslensk tónskáld og eigi ótvíræðan hlut í velgengni þeirra í dag.

Reykjavík Dance Festival 

Reykjavík Dance Festival er ung hátíð en hefur tvímælalaust sannað mikilvægi sitt, sem sést best í ótrúlegri aukningu í gestatölum. RDF mikilvægur vettvangur fyrir sjálfstæða dansara og danshöfunda en sinnir einnig því mikilvæga hlutverki að teygja sig út úr samfélagi dansara og kynna greinina fyrir öðrum afar ólíkum hópum.

RIFF - Reykjavík International Film Festival

RIFF - Reykjavík International Film Festival hefur skapað sér nafn langt út fyrir landsteinana og hefur tekist að þróa afar verðmæt tengsl við lykilaðila innan kvikmyndageirans erlendis, sem sést best á þeim kvikmyndum og erlendum gestum hátíðin nær til landsins.