Umsókn um byggingarleyfi er tvíþætt. Annars vegar þarf að samþykkja að byggingaráformin (aðalteikningarnar) uppfylli allar lagalegar kröfur sem gerðar eru til framkvæmdarinnar. Hins vegar er byggingarleyfi útgefið og heimild til framkvæmda veitt, þegar búið er að skrá ábyrgðaraðila framkvæmdar (byggingarstjóri og iðnmeistari) og greiða álögð gjöld. Athugið að áður en byggingarvinna hefst þurfa að liggja fyrir samþykktir séruppdrættir af uppbyggingu og útfærslu verksins.

Samþykkt byggingarleyfisumsókn segir einungis til um það hvort áform um framkvæmd uppfylli lagalegar kröfur. Hún veitir ekki heimild til framkvæmda, til þess þarf að liggja fyrir formlega útgefið byggingarleyfi.

Ef óskað er eftir almennum upplýsingum og leiðbeiningum vegna byggingarleyfa má senda fyrirspurn á byggingarfulltrui@reykjavik.is. Starfsfólk embættis byggingarfulltrúa leitast við að svara fyrirspurnum sem sendar eru á netfangið sem fyrst, eða innan 10 vinnudaga. Einnig er hægt að fá síma- og viðtalstíma.

Sýna allt Loka öllu

Þarf ég byggingarleyfi?

Gott er að athuga hvort þörf sé á byggingarleyfi fyrir áætluðum framkvæmdum. Húseigandi eða lóðarhafi getur lagt inn formlega fyrirspurn áður en hönnunarferli hefst til að kanna hvort líklegt sé að leyfi muni fást fyrir tiltekinni framkvæmd. Fyrirspurn þurfa ekki að fylgja fullnaðaruppdrættir og því sparast hönnunarkostnaður ef í ljós kemur að fyrirhuguð framkvæmd er ósamþykkjanleg þar sem hún uppfyllir ekki lagaleg ákvæði.

Fyrirspurnin er lögð fyrir afgreiðslufund byggingarfulltrúa en þeir eru að jafnaði alla þriðjudaga. Fyrirspurnin þarf að berast fimm virkum dögum fyrir fund.

Athugið! Jákvætt svar formlegrar fyrirspurnar veitir ekki heimild til framkvæmdar. Til að fá slíka heimild þarf að sækja um byggingarleyfi. Ekki er gefið að svar við byggingarleyfisumsókn verði með sama hætti og svar formlegrar fyrirspurnar.

Hvenær þarf ekki byggingarleyfi?

Undanþegið byggingarleyfi eru ýmsar minniháttar framkvæmdar samkvæmt gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð. Minniháttar framkvæmdir sem eru undanþegnar byggingarleyfi geta þó verið tilkynningaskyldar. Framkvæmdaraðili ber ábyrgð á að ekki skapist hætta fyrir fólk og eignir og að virt séu öll viðeigandi ákvæði reglugerðarinnar. Hann ber jafnframt ábyrgð á að framkvæmd sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og að ekki sé gengið á rétt nágranna.

Hverjir geta sótt um?

Húseigendur og lóðarhafar, eða hönnunarstjóri í umboði þeirra, geta sótt um byggingarleyfi. Húseigendum ber að ráða löggiltan hönnunarstjóra. Hönnunarstjóri hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á því að hönnunargögn séu til staðar og með þeim hætti sem byggingarleyfisumsókn og framkvæmd krefst. Hönnunarstjóri er að öllu jöfnu sá aðili sem annast öll samskipti við embætti byggingarfulltrúa þegar sótt er um byggingarleyfi.

Eftir að búið er að ganga úr skugga um að sækja þurfi um byggingarleyfi er stöðluðu umsóknareyðublaði skilað inn til yfirferðar.

Til að umsókn sé tekin fyrir á fundi Byggingarfulltrúa þarf að athuga að:

  • Umsækjandi sé lóðarhafi, húseigandi eða hönnunarstjóri í umboði hans.

  • Hönnuður hafi löggildingu, viðurkennt gæðakerfi og fullnægjandi starfsábyrgðartryggingu.

  • Stöðluðu eyðublaði Byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar og gátlista vegna aðaluppdráttar séu rétt útfyllt

  • Öllum fylgiskjölum sé skilað inn; aðaluppdrættir (í tvíriti), útfylltur gátlisti vegna aðaluppdrátta og önnur viðeigandi fylgiskjöl varðandi umsókn sbr. lið 6 á umsóknareyðublaði sem eiga við framkvæmdina.

  • Lágmarkgjald vegna umsóknar sé greitt fyrir fund Byggingarfulltrúa.

Eyðublaði og fylgigögnum er skilað til þjónustufulltrúa í þjónustuveri (Borgartúni 12-14), sem framsendir gögn til embættis byggingarfulltrúa.  

Umsóknir eru teknar fyrir á fundi byggingarfulltrúa hvern þriðjudag. Skila þarf inn umsókn fimm vinnudögum fyrir fund.

Leiðréttar umsóknir

Þeir sem hafa skilað inn byggingarleyfisumsókn fyrir framkvæmdum sem ekki uppfylla ákvæði laga, reglugerðar, skipulags og annars sem málið varðar fá að loknum afgreiðslufundi upplýsingar um stöðu málsins og gefst þá kostur á að lagfæra áformin og gögnin ef við á.

Synjaðar umsóknir

Ef umsókn er synjað á þeim forsendum að framkvæmdir uppfylli ekki ákvæði laga, reglugerðar, skipulags og annars sem málið varðar getur umsækjandi kært niðurstöðuna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011.

Ferli umsóknar

Starfsmenn embættis byggingarfulltrúa fara yfir umsóknir og ganga úr skugga um að framkvæmd uppfylli ákvæði laga og reglna um mannvirki og byggingar, skipulagsskilmála og annað sem málið varða. Að fundi loknum fá umsækjendur tilkynningu um afgreiðslu málsins á uppgefin tölvupóstföng, auk þess sem bréf er sent á lögheimili viðkomandi.

Að öllu jöfnu má búast við að það taki starfsmenn embættis byggingarfulltrúa og umsagnaraðila fimm vinnudaga að fara í gegnum gögn umsóknar. Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa eru að jafnaði alla virka þriðjudaga.

Fundargerð byggingarfulltrúa er lögð fyrir fund Umhverfis- og Skipulagsráðs, sem eru að jafnaði haldnir hvern virkan miðvikudag. Borgarráð staðfestir fundargerðina síðan á sínum næsta fundi, en þeir fundir eru að jafnaði hvern virkan fimmtudag. Því líða að öllu jöfnu að lágmarki tveir dagar frá samþykkt byggingarfulltrúa þar til borgarráð hefur staðfest erindið.

Athugið að samþykkt umsókn er ekki ígildi byggingarleyfis og mega framkvæmdir ekki hefjast fyrr en formlegt leyfi er gefið út.

Útgáfa

Til að fá byggingarleyfi útgefið svo framkvæmdir geti hafist þarf að skila inn eftirfarandi gögnum:

  1. Beiðni um skráningu byggingarstjóra þarf að skila inn útfylltri og undirritaðri af lóðarhafa/eiganda til þjónustuvers. 

  2. Undirritaðri yfirlýsingu byggingarstjóra um ábyrgð sína á framkvæmdinni (eyðublað fyrir staðfestingu á leyfi og ábyrgð byggingarstjóra fæst afhent eftir beiðni um skráningu byggingastjóra í þjónustuveri).

  3. Undirritaðri ábyrgðaryfirlýsingu iðnmeistara sem bera ábyrgð á einstöku verkþáttum (eyðublað fæst afhent eftir skráningu byggingastjóra í þjónustuveri).

  4. Starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra frá tryggingarfélagi (staðfesting tryggingar er send frá tryggingarfélagi á netfang byggingarfulltrúa: byggingarfulltrui@reykjavik.is). 

  5. Yfirliti hönnunarstjóra um innra eftirlit við framkvæmd hönnunar um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða og áritun hans til staðfestingar á því að um tæmandi yfirlit sé að ræða.

  6. Eignaskiptayfirlýsingu (ef við á).

  7. Greiða byggingarleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld.

 

Athugið!

Það er hlutverk hönnunarstjóra að tryggja að öll gögn berist embætti byggingarfulltrúa sem og að óska eftir áframhaldandi afgreiðslu málsins þegar gögnin og greiðslan hafa borist. Þá getur formlegt byggingarleyfi verið gefið út og einungis þá getur framkvæmdin hafist. 

Byggingarleyfi er gefið út með þeim skilyrðum að allir viðeigandi verkuppdrættir skuli liggja fyrir samþykktir og áritaðir af byggingarfulltrúa áður en vinna við viðkomandi verkþátt hefst.

Byggingarleyfi fellur sjálfkrafa úr gildi hafi byggingarframkvæmd ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess.

 

Afgreiðslutími

Endanlegur tími fyrir samþykkt áforma og útgáfu byggingarleyfis fer eftir því hvort öllum viðeigandi gögnum var skilað inn og hvort þau uppfylla þær kröfur sem eru gerðar, stærð verkefnis, hvort fara þurfi í grenndarkynningu og hvenær tilskilin gjöld eru greidd.

Tafir

Algeng ástæða lengri afgreiðslutíma á samþykkt áforma og útgáfu byggingarleyfis er að gögn sem berast eru ekki fullnægjandi. Þar má helst nefna:

  • ekki fylgja öll nauðsynleg gögn umsókninni (t.d. samþykki meðeiganda, umsögn burðarvirkishönnuða)
  • teikningar eru ófullgerðar, ófullnægjandi eða samræmast ekki byggingarreglugerð
  • teikningar eru ekki í samræmi við samþykkt skipulag
  • gjöld eru ekki greidd
Sýna allt Loka öllu

Alla aðaluppdrætti af húsum er hægt að nálgast á teikningar.reykjavik.is

Lagnateikningar, burðarþolsteikningar og séruppdrætti arkitekta er hægt að nálgast í þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14.

Nýjustu raflagnateikningar, frá janúar 2007, eru geymdar í þjónustuveri, Borgartúni 12-14.

Raflagnateikningar fyrir eldri hús eru geymdar í Borgarskjalasafni í Grófinni, Tryggvagötu 15.

Teikningaafgreiðsla í þjónustuveri er opin alla virka daga frá kl. 8.20 - 16.00

Hægt að fá afrit af teikningum gegn gjaldi. Því miður er ekki tekið við rafrænum beiðnum um teikningar.

Þær eignaskiptayfirlýsingar sem eru til liggja hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Ef þinglýst eignaskiptayfirlýsing er ekki fyrir hendi eða hún er ófullnægjandi með hliðsjón af lögum um fjöleignahús 26/1994 þarf að halda húsfund um málið og taka ákvörðun um að láta gera eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið til að sýna réttar stærðir og hlutfallsskiptingu á milli eignahluta. 

Embætti byggingarfulltrúa hjá Reykjavíkurborg veitir upplýsingar um það hvort íbúðir eru „samþykktar“.  Hafðu samband í síma 411 1111 eða á netfangið byggingarfulltrui@reykjavik.is.

Sækja þarf um byggingarleyfi hjá embætti byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar fyrir skjólveggjum og girðingum lóða sem ekki falla undir undanþáguákvæði byggingarreglugerðar. Einnig þarf samþykki lóðarhafa að lóðarmörkum.

Til undantekningar teljast:

  • Skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m.
  • Girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum.
  • Allt að 2,0 m langir og 2,5 m háir  skjólveggir sem eru áfastir við hús og í a.m.k. 1,8 m fjarlægð frá lóðarmörkum.

Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingu eða skjólvegg allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Hámarkshæð girðingar/skjólveggjar miðast við jarðvegshæð við girðingu/vegg eða jarðvegshæð lóðar á lóðarmörkum ef hæð jarðvegs þar er meiri en jarðvegshæð á lóð við vegginn.

Eigandi þeirrar eignar þar sem byggingarframkvæmdir standa til skráir byggingarstjóra verksins hjá embætti byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar. Þegar embætti byggingarfulltrúa hefur samþykkt byggingarstjórann, þá ber hann í framhaldi ábyrgð á að leggja fyrir byggingarfulltrúa lista yfir þá iðnmeistara sem hann hyggst ráða til verksins. Byggingarstjóri fær eyðublað fyrir skráningu iðnmeistara afhent í þjónustuveri Reykjavíkurborgar þegar hann hefur verið skráður á verkið.

Ef byggingarstjóri hættir á meðan á framkvæmdum stendur ber eigandi ábyrgð á því að nýr byggingarstjóri taki við störfum án tafar og á að tilkynna breytinguna til embættis byggingarfulltrúa.  Hætti iðnmeistari umsjón með framkvæmdum áður en verki er lokið sér byggingarstjóri um að nýr iðnmeistari taki til starfa án tafar og að tilkynna breytinguna til embættis byggingarfulltrúa.

  • Greiða skal svokallað lágmarksgjald vegna umsóknar um byggingarleyfi og greiðist gjaldið fyrir afgreiðslu umsóknarinnar.
  • Ef þörf er á endurtekinni málsmeðferð umsóknar vegna athugasemda við fyrri innlögð gögn er lágmarksgjald lagt á að nýju við hverja þriðju umfjöllun.
  • Við móttöku byggingarleyfisumsóknar er greiðsluseðill vegna lágmarksgjalds sendur í heimabanka á uppgefinn greiðanda á umsóknareyðublaði, sem og önnur gjöld sem kunna að vera lögð á í tengslum við umsóknina. Eftirlaunaþegar og fyrirtæki fá greiðsluseðil póstsendan.
  • Við samþykkt byggingarleyfisumsóknar kunna síðan að vera lögð á önnur gjöld, samkvæmt samþykktum borgarinnar og eftir eðli framkvæmda og heimildum sem þeim tengjast. Slík gjöld eru m.a. vegna lögbundinna úttekta, yfirferðar og samþykktar raflagnauppdrátta, gatnagerðar  og bílastæða.

Upplýsingar um lágmarksgjaldið og önnur viðbótargjöld er að finna í gjaldskrá byggingarfulltrúa.