Þegar sótt er um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík veita ráðgjafar þjónustumiðstöðvanna umsækjendum upplýsingar og ráðgjöf um ferli umsókna um félagslegt leiguhúsnæði. Einnig fást þar umsóknir um félagslegt leiguhúsnæði, upplýsingar um biðtíma og skilyrði til að sækja um. Þá eru veittar upplýsingar um önnur úrræði eða þjónustu sem umsækjandi getur átt rétt á sem og stuðningur á biðtíma ef þörf er á.

Félagslegar leiguíbúðir eru ætlaðar Reykvíkingum sem búa við mjög erfiðar félags- og fjárhagsaðstæður. Umsóknir um undanþágu eru afgreiddar á þjónustumiðstöðvum borgarinnar.

Ferill umsóknar/þjónustu

Reykvíkingar sem sækja um félagslegt leiguhúsnæði fara í viðtal til ráðgjafa sem metur umsóknir með hliðsjón af stigagjöf. Í viðtali er farið yfir helstu skilyrði umsóknar og úthlutunar með umsækjanda og kannað hvort hann uppfylli þau (miðað er við aldur, tekjur, eignir og búsetu). Ef skilyrði eru uppfyllt er lagt mat á umsóknina með hliðsjón af aðstæðum umsækjenda svo sem núverandi húsnæðisstöðu, tekjum, fjölskyldustöðu, heilsufari og félagslegum aðstæðum umsækjanda og aðstandenda hans. Til þess að viðhalda gildi umsóknar þarf umsækjandi að ítreka umsókn innan 12 mánaða frá umsóknardegi og síðan á 12 mánaða fresti. Ítrekun fer fram á þjónustumiðstöðvum og getur verið skrifleg eða munnleg. Ekki eru nein skilyrði um umsóknarfrest. Þeir sem óska eftir ráðgjöf, upplýsingum eða stuðningi um húsnæðismál skulu leita til þjónustumiðstöðva. Ráðgjafar á þjónustumiðstöðvunum taka á móti umsóknum á afgreiðslutíma. Einnig er hægt að skila umsókn í afgreiðslu og fá viðtal síðar.

Hafi viðeigandi gögn ekki borist 30 dögum frá umsóknardegi fellur umsókn úr gildi.

Umsækjandi fær sent skriflegt svar þar sem fram kemur hvernig umsókn hans hafi verið metin. Við vinnslu umsóknar skal leita upplýsinga meðal annars um félagslegar aðstæður, lögheimili, tekjur og önnur skilyrði til að umsókn öðlist gildi. Umsækjandi hafi að mati ráðgjafa ekki möguleika á því að kaupa eigið húsnæði og skal hafa átt lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um og að minnsta kosti síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst.

Eignir og tekjur umsækjanda miðast við eftirfarandi hámarksupphæðir: Eignamörk eru 4.675.115 krónur. Tekjumörk eru 3.352.765 krónur fyrir einhleyping en 4.695.058 krónur fyrir hjón og sambúðarfólk, auk þess 561.269 krónur fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára. Tekjumörk eru miðuð við meðaltal tekna síðastliðinna 3ja ára. Heimilt er að taka tillit til skuldastöðu/greiðslubyrði umsækjanda. Hægt er að sækja um undanþágu frá tekju- og eignamörkum.

Umsækjendur skulu vera orðnir 18 ára á umsóknardegi. Þjónustan er fyrir umsækjanda og maka. Einnig fyrir aðra fjölskyldumeðlimi sem eru 20 ára eða eldri.

Eftirfarandi fylgigögn þarf með umsókn:

  • Athugið að oftast geta ráðgjafar nálgast neðangreindar upplýsingar rafrænt en ef það er ekki hægt er óskað eftir þeim frá umsækjanda.
  • staðfestu afriti af skattframtölum síðastliðinna 3ja ára. Afritin er hægt að fá hjá Skattstjóranum í Reykjavík, Laugavegi 162, 150 Reykjavík;
  • þremur síðustu launaseðlum frá atvinnurekanda eða öðrum þeim sem umsækjandi hefur fengið greiðslur frá (örorku- eða ellilífeyrir, atvinnuleysisbætur, fjárhagsaðstoð);
  • búsetuvottorði frá Þjóðskrá Íslands Borgartúni 21, 150 Reykjavík;
  • vottorði um lögheimili síðastliðinna 3ja ára staðfest af Þjóðskrá Íslands, Borgartúni 21, 150 Reykjavík.

Hægt er að sækja um undanþágu frá skilyrðum í reglum í sérstökum tilfellum og getur umsækjandi skilað inn frekari gögnum ef hann eða ráðgjafi óskar eftir því.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Hægt er að koma almennum kvörtunum/ábendingum á framfæri símleiðis í 411 11 11 eða í móttöku á öllum þjónustumiðstöðvum. Ákvörðun um synjun á undanþágu á skilyrðum vegna búsetu og/eða tekju- og eignamörkum vegna umsóknar um félagslega leiguíbúð eða vegna niðurstöðu stigagjafar má skjóta til velferðarráðs, Borgartúni 12 - 14, 105 Reykjavík. Skal það gert skriflega og ekki síðar en fjórum vikum eftir að viðkomandi barst vitneskja um ákvörðun. Ákvörðun velferðarráðs má áfrýja til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, velferðarráðuneyti, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, 150 Reykjavík. Skal það gert ekki síðar en þremur mánuðum frá því að viðkomandi barst vitneskja um ákvörðun.