Borgarhátíðir

Borgarhátíðir Reykjavíkur eiga stóran þátt í því að glæða borgina lífi og þjappa borgarbúum saman. Meðal fjölsóttustu viðburða borgarinnar eru:

Menningarnótt

Menningarnótt er afmælishátíð Reykjavíkurborgar og vafalítið hápunktur viðburðahalds í Reykjavík. Menningarnótt er hátíð sem allir borgarbúar skapa og upplifa saman, úti á torgum og götum miðborgarinnar, í bakgörðum og söfnum, fyrirtækjum og ekki síst í húsunum í bænum.

Markmið Menningarnætur er að hvetja borgarbúa til þátttöku með því að beina kastljósinu að því fjölbreytta og ríkulega framboði af menningarviðburðum og kraftmikilli menningarstarfsemi sem borgin hefur upp á að bjóða. Dagskráin er gestum að kostnaðarlausu og þar með séð til þess að allir gestir geti notið kraftmikils menningarlífs og góðrar samveru.

17. júní

Reykjavíkurborg sér um skipulagningu hátíðahalda fyrir 17. júní í Reykjavík ár hvert. Fyrst var haldið opinberlega upp á 17. júní árið 1911, á 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar, en 17. júní varð ekki þjóðhátíðardagur Íslendinga fyrr en með stofnun lýðveldisins árið 1944. Í Reykjavík hefur þjóðhátíðardagurinn verið haldinn hátíðlegur með sérstakri hátíðadagskrá á Austurvelli, skrúðgöngum, barnaskemmtunum, íþróttum, tónleikum og dansleikjum og fer dagskráin að mestu fram utanhúss.

Vetrarhátíð

Vetrarhátíð er haldin árlega í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þessi hátíð ljóss og myrkurs samstendur af þrem meginstoðum: Safnanótt, Sundlauganótt og ljósalist ásamt yfir 150 viðburðum þar sem fjöldi listamanna tekur þátt í að skapa einstaka stemningu í borginni.

Listahátíð – styrkt af Reykjavíkurborg

Listahátíð í Reykjavík er þverfagleg listahátíð með áherslu á nýsköpun og hefur verið leiðandi afl í íslensku menningarlífi frá stofnun árið 1970. Listahátíð í Reykjavík er haldin á tveggja ára fresti og leitast við að koma stöðugt á óvart, endurspegla fjölbreytileika mannlífsins, vera sýnileg í borginni og teygja sig jafnframt út fyrir borgarmörkin.

Barnamenningarhátíð

Barnamenningarhátíð í Reykjavík er ein af megin þátttökuhátíðum borgarinnar. Vettvangur hátíðarinnar er borgin öll og fara fjölbreyttir viðburðir fram í grunnskólum, leikskólum, frístundamiðstöðvum og listaskólum hennar. Jafnframt er boðið upp á dagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur, Hörpu og lista- og menningarstofnunum borgarinnar. Leiðarljós hátíðarinnar eru gæði, margbreytileiki, jafnræði og gott aðgengi að menningu barna, með börnum og fyrir börn.​