Einelti í leikskólum
Einelti felur í sér að barn er tekið fyrir af öðru barni eða hópi barna. Einelti og ofbeldi í leikskólum er ekki liðið. Markvisst er unnið gegn einelti í leikskólum, meðal annars með samstarfsverkefninu Vinsamlegt samfélag.
Ef grunur vaknar hjá foreldrum um að barnið þeirra sé lagt í einelti er hægt að snúa sér til leikskólastjóra eða til foreldraráðgjafa á fagskrifstofu leikskólamála hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.
Hvað er einelti?
Einelti felur í sér að barn/einstaklingur er tekinn fyrir af einum eða hópi með síendurtekinni:
- stríðni eða látbragði,
- niðrandi ummælum og sögusögnum,
- andlegri kúgun og hótunum af ýmsu tagi,
- félagslegri höfnun eða markvissri útskúfun.
Ef barn er lagt í einelti líður ekki langur tími áður en því fer að líða illa, verður óttaslegið, öryggislaust, einmana og á varðbergi. Einelti er ofbeldi sem getur haft varanleg áhrif.
Hvert geta foreldrar snúið sér ef barn þeirra er lagt í einelti?
Foreldrar þurfa alltaf að taka alvarlega grun um að barn þeirra verði fyrir einelti eða ef upplýsingar berast frá leikskólanum um að barn þeirra sæti einelti. Ef grunur vaknar geta foreldrar snúið sér til leikskólastjóra í viðkomandi leikskóla eða til foreldraráðgjafa á fagskrifstofu leikskólamála hjá skóla- og frístundasviði.
Hægt er að ná í foreldraráðgjafann í síma 4 11 11 11 eða með því að senda tölvupóst á netfangið sfs@reykjavik.is.
Stefna gegn einelti
Hjá skóla- og frístundasviði er unnið markvisst gegn einelti í leikskólum. Leiðarljós er að í leikskólanum njóti börnin bernsku sinnar, læri og þroskist í leik og samveru. Lögð er áhersla á velferð og framfarir allra barna enda búi starfsfólk leikskóla börnunum hollt og hvetjandi umhverfi og örugg náms- og leikskilyrði sem grundvallist á lýðræðislegum gildum. Börn í leikskóla öðlast leikni í lýðræðislegum vinnubrögðum, skoðanaskiptum og ákvarðanatöku.
Unnið er markvisst að því að byggja upp jákvæða sjálfsmynd, félagsfærni og leikni í samskiptum hjá börnunum og lögð er áhersla á að í leikskólanum ríki gagnkvæmt traust milli foreldra, starfsmanna og barna.
Foreldraráð starfar við hvern leikskóla og foreldrar eru hvattir til virkrar þátttöku í uppeldi og menntun barna sinna í leikskólanum.