Einelti er ekki liðið í skóla- og frístundastarfi

Í stefnu og starfsáætlun skóla- og frístundasviðs segir að leita skuli allra leiða til að börnum líði vel í skólanum og að unnið sé markvisst að því í samræmi við forvarnarstefnu borgarinnar að byggja upp jákvæða sjálfsmynd og þjálfa félagsfærni og samskipti barnanna. Tekið er fram að einelti og ofbeldi sé ekki liðið.

Stefnumótun í eineltismálum hefur að markmiði að tryggja öruggt skólaumhverfi þar sem nemendum líður vel. Nemendum líður vel þar sem samskiptin helgast af virðingu, samábyrgð, umhyggju og ábyrgri hegðun. Allir skólar í borginni eru með eineltisáætlun sem þeir starfa eftir til að fyrirbyggja einelti og uppræta það þegar grunur er um slíkt.

Vinsamlegt samfélag miðar að því að styðja við gerð virkra eineltisáætlana og viðeigandi verkferla á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs. 

Hvað er einelti og hvernig má fyrirbyggja það?

Einelti felur í sér að einstaklingur er tekinn fyrir af einum eða hópi með síendurtekinni stríðni, látbragði, niðrandi ummælum, sögusögnum, andlegri kúgun, hótunum af ýmsu tagi, félagslegri höfnun eða markvissri útskúfun.

Einelti getur einnig birst í samskipum í vefmiðlum. Það er hlutverk fullorðna fólksins að sjá til þess að börn umgangist vefinn af ábyrgð.

Áhrif eineltis á börn

Einelti er ofbeldi sem getur haft varanleg áhrif á sálarlíf þolandans. Ef barn er lagt í einelti líður ekki langur tími áður en því fer að líða illa, verður óttaslegið, öryggislaust, einmana og á varðbergi gagnvart félögum. Sjálfstraustið hverfur, barnið dregur sig í hlé og verður jafnvel veikt án sýnilegra sjúkdóma.

Langvarandi einelti veldur streitu sem leitt getur til alvarlegra vandamála eins og óæskilegrar hegðunar, lystarleysis og þunglyndis.

Hvað geta foreldrar gert ef barn þeirra verður fyrir einelti?

Foreldrar skulu alltaf taka vísbendingar eða upplýsingar um einelti alvarlega. Nauðsynlegt er að ræða við barnið, hlusta vel á það og sýna því umhyggju og skilning.

Foreldrar þurfa því næst að ræða við umsjónarkennara. Hann ætti aldrei að gera lítið út áhyggjum foreldra heldur afla nauðsynlegra gagna til að varpa ljósi á staðreyndir. Sé eineltið staðfest gerir skólinn viðbragðsáætlun til að takast á við eineltið samkvæmt aðgerðaráætlun skólans gegn einelti.

Skólinn hefur frumkvæði að því að skipuleggja hvernig vinna skuli gegn einelti og hann á að samhæfa starfið. Yfirleitt er talið best að foreldrar og umsjónarkennari fái leyfi þolanda til að taka málið upp. Hins vegar eru það alltaf þeir fullorðnu sem eru ábyrgir fyrir því að vernda barnið.

Samkvæmt verklagsreglum hefst mál hjá umsjónakennara, hvort sem þau varða við skólareglur eða lög, eða tengjast ofbeldi eða ástundunarvanda. Takist ekki að leysa málið innan skólans geta skólastjórnendur og/eða foreldrar leitað stuðnings þjónustumiðstöðva en þar starfa þverfagleg teymi sérfræðinga sem sinna málefnum íbúa hverfisins, þar á meðal nemendum skólanna. Ef enn næst ekki ásættanleg niðurstaða geta foreldar eða skóli leitað til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.

Ert þú foreldri barns sem leggur aðra í einelti?

Öllum foreldrum eru það vonbrigði og visst áfall þegar skilaboð berast frá skóla um að barn þeirra taki þátt í einelti. Foreldrar verða engu að síður að hafa hugfast að það gagnast ekki barni þeirra að afsaka hegðun þess, réttlæta eða gera lítið úr henni. Það að taka alvarlega á vandanum hjálpar ekki aðeins þolandanum heldur einnig barninu þínu. Rannsóknir sýna að börn sem sýna ofbeldishegðun gagnvart félögum sínum eru í áhættuhópi hvað varðar andfélagslega hegðun sem getur meðal annars leitt til glæpa. Þess vegna er nauðsynlegt að beina barninu inn á farsælar leiðir í samskiptum sínum við aðra. Fyrsta skrefið til að hjálpa barninu er að taka upp jákvætt og markvisst samstarf við skólann.

Yfirleitt er ekki mælt með því að foreldrar þolenda hafi sjálfir samband við foreldra gerenda, heldur er lagt til að umsjónarkennari hafi umsjón með því. Hann boðar til fundar með nemendum sem hlut eiga að máli og foreldrum þeirra. Þar útskýrir hann aðstæður og leitar eftir samkomulagi um aðgerðir til að stöðva eineltið. Þessu samkomulagi er fylgt eftir í samstarfi við foreldra.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar starfar ráðgjafi foreldra og skóla. Hann vinnur að úrlausn eineltismála í samstarfi við foreldra og stofnanir Reykjavíkurborgar. Hægt er að hafa samband í síma 4 11 11 11.

Hér má finna gátlista eineltisáætlana. Hann er leiðbeinandi fyrir þá sem vinna að gerð eineltisáætlana á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs. Hann samræmir áætlun um forvarnir, inngrip og eftirfylgd í eineltismálum í öllum hverfum borgarinnar. Gátlistinn var unninn í víðtæku samráði starfsfólks skóla- og frístundasviðs, fulltrúa foreldra og þjónustumiðstöðva.

Foreldrar eða skólar geta óskað eftir aðstoð sérstaks fagráðs sem starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir að aðkomu sérfræðiþjónustu.