Endurvinnsla og endurnýting
Pappír og pappi
Flokkun pappírs og pappa og skil til endurvinnslu hefur bæði umhverfislegan ávinning og er hagkvæmari en ef hann er settur í gráu tunnuna og urðaður í Álfsnesi. Þess vegna er bláa tunnan ódýrari en gráa tunnan. Pappír er auðlind sem hægt er að nýta til ýmissa hluta ef hann er flokkaður frá og skilað til endurvinnslu.
Pappír, sem skilað er til endurvinnslu, er flokkaður vélrænt í móttöku- og flokkunarstöð SORPU bs. í Gufunesi til að aðskilja bylgjupappa frá sléttum pappa og pappír. Efnið er pressað og baggað og síðan flutt til Svíþjóðar til frekari flokkunar og endurvinnslu. Úr endurunnum pappír og pappa eru t.d. framleiddur salernispappír, eldhúspappír, dagblaðapappír og karton sem notað er til að útbúa nýjar umbúðir. Úr endurunnum bylgjupappa er framleiddur nýr bylgjupappi.
Plast
Með því að flokka og skila plasti til endurvinnslu eykst endurvinnsla plasts og magn urðaðs úrgangs minnkar. Mikilvægt að koma í veg fyrir urðun plastúrgangs út frá umhverfislegum sjónarmiðum þar sem með því er auðlindum sem annars hefðu nýst sóað. Einnig kostar meira að meðhöndla óflokkaðan blandaðan úrgang en flokkuð plastefni og því er græna tunnan ódýrari en gráa tunnan.
Plasti sem skilað er til endurvinnslu er baggað í móttöku- og flokkunarstöð SORPU bs. í Gufunesi. Plastið er sent til Svíþjóðar þar sem það er annað hvort endurunnið eða brennt til orkuvinnslu. Hægt er að efnisendurvinna stóran hluta plasts og brennsla til orkunýtingar er ákjósanlegri valkostur en urðun í þeim tilfellum þar sem endurvinnsla er ekki fýsileg af einhverjum ástæðum. Flokkun og skil til endurvinnslu er undirstaða þess að þetta sé hægt.
Plast er eitt algengasta efnið í umhverfi okkar og notkun þess eykst í sífellu. Hlutur þess var 20% í blönduðum úrgangi skv. greiningu SORPU bs. árið 2014 eða næst stærsti flokkurinn á eftir lífrænum úrgangi.
Gler
Það borgar sig út frá umhverfislegu sjónarhorni að flokka, safna, flytja út og endurvinna gler frá Íslandi. Rúmlega eitt þúsund tonn af gleri og steinefnum falla til frá heimilum í Reykjavík og hafa þau verið urðuð með blönduðum heimilisúrgangi í Álfsnesi en úrgangsflokkurinn var um 5% alls blandaðs heimilisúrgangs skv. greiningu SORPU bs. í nóvember 2014. Gleri hefur verið safnað með steinefnum á endurvinnslustöðum SORPU bs sem eru 6 á höfuðborgarsvæðinu og er efnið notað sem burðarlag sem telst til endurnýtingar svipað og annars staðar á landinu.
Grenndarstöðvar eru með sérstaka gáma undir glersöfnun.
Markmiðið er tvíþætt, annarsvegar að minnka hlut glers í blönduðum heimilisúrgangi með því að auðvelda íbúum skil á gleri og hinsvegar að skoða forsendur þess að endurvinna glerið í stað þess að endurnýta það í burðarlag. Í gámana má skila hvers konar gleri sem fellur til á heimilum, s.s. sultukrukkum, glerflöskum án skilagjalds og öðrum ílátum úr gleri. Glerið má hvort sem er vera glært eða litað og þarf að vera hreint og ílát tóm. Þegar hefur verið leitað samstarfs við SORPU bs. og Úrvinnslusjóð um að skoða forsendur þess að endurvinna glerið sem safnast.
Urðun úrgangs
Blandaði úrgangurinn er hakkaður í móttökustöð SORPU bs. í Gufunesi, sendur gegnum málmskiljur og loks baggaður og fluttur í Álfsnes til urðunar. Lífrænt efni er flokkað frá í móttöku og flokkunarstöð og sent í gas og jarðgerð í GAJU - nýja gas- og jarðgerðarstöð fyrir höfuðborgarsvæðið. Á árinu 2021 hófst almenn innleiðing á brúnni tunnu undir lífúrgang. Allur sá lífræni úrgangur sem safnað er í brúna tunnu er meðhöndlaður sérstakalega í GAJU þannig að sá jarðvegsbætir sem hægt er að framleiða úr úrganginum komist ekki í snertingu við mengandi efni.
Í Álfsnesi hefur síðan 1999 verið framleitt metan úr hauggasi sem verður til vegna niðurbrots lífræns úrgangs í haugnum. Metan er kraftmikil gróðurhúsalofttegund eða allt að 25 sinnum öflugara en koltvísýringur ef það fær að gufa óhindrað upp úr haugnum. Með því að safna hauggasinu, hreinsa það og nota sem bifreiðaeldsneyti, í stað innflutts jarðefnaeldsneytis, eru gróðurhúsaáhrif urðunarstaðarins í lágmarki. Allar sorphirðubifreiðar Reykjavíkurborgar eru knúnar metangasi sem framleitt er hjá Sorpu.
Móttaka jarðefna í Bolaöldum
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa gert samning við Bolaöldur ehf. um meðhöndlun óvirks úrgangs. Móttaka jarðefna við Bolaöldur fer fram í hlíðum Vífilsfells, en þar er hægt að skila inn endurnýtanlegum, óvirkum jarðefnum s.s. mold, möl og grjóti auk þess tekið er við steinsteypubrotum sem hreinsuð hafa verið af járnum og öðrum efnum.
SORPA bs.
SORPA bs. er byggðasamlag í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Garðabæjar. Tilgangur samlagsins er að annast meðhöndlun úrgangs sbr. lög nr. 55/2003 fyrir þessi sveitarfélög, m.a. með því að útvega og starfrækja urðunarstað fyrir úrgang, byggja og reka söfnunarstöðvar, stunda vinnslu og sölu á efnum úr úrgangi til endurnýtingar eftir því sem hagkvæmt þykir, að fylgjast með tækniþróun á sviði sorpeyðingar og endurvinnslu, að þróa nýjar aðferðir til þess að vinna verðmæti úr úrgangsefnum og að sinna kynningu á eigin verkefnum og gildi umhverfissjónarmiða við meðhöndlun úrgangs.
SORPA bs., fyrir hönd sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, er aðili að sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009 - 2020 sem unnin var á grundvelli laga nr. 55/2003. Í áætluninni er mörkuð stefna um meðhöndlun úrgangs frá Gilsfjarðarbotni að Markarfljóti.
SORPA bs.
SORPA bs. er byggðasamlag í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Reykjavíkur, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Garðabæjar. Tilgangur samlagsins er að annast meðhöndlun úrgangs sbr. lög nr. 55/2003 fyrir þessi sveitarfélög, m.a. með því að útvega og starfrækja urðunarstað fyrir úrgang, byggja og reka söfnunarstöðvar, stunda vinnslu og sölu á efnum úr úrgangi til endurnýtingar eftir því sem hagkvæmt þykir, að fylgjast með tækniþróun á sviði sorpeyðingar og endurvinnslu, að þróa nýjar aðferðir til þess að vinna verðmæti úr úrgangsefnum og að sinna kynningu á eigin verkefnum og gildi umhverfissjónarmiða við meðhöndlun úrgangs.
SORPA bs., fyrir hönd sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, er aðili að sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009 - 2020 sem unnin var á grundvelli laga nr. 55/2003. Í áætluninni er mörkuð stefna um meðhöndlun úrgangs frá Gilsfjarðarbotni að Markarfljóti.