Grenndarstöðvar

Alls eru 57 grenndarstöðvar í Reykjavík og 85 á höfuðborgarsvæðinu. Þeim er ætlað að taka á móti úrgangi frá heimilum. Um 85% íbúa hafa aðgengi að grenndarstöðvum í 500 metra fjarlægð frá heimili sínu eða minna. Plasti og pappírsefnum er hægt að skila á grenndarstöðvar. Glersöfnun er nú á 38 grenndarstöðvum í borginni.
Gámar fyrir gler eru á eftirtöldum stöðum; Bústaðarvegi, Stóragerði, Eggertsgötu, Gnoðavogi, Knarrarvogi, Birtingakvísl, Suðurfelli/Unufelli, Nóatúni, Ferjubakka, Rofabæ, Hamrahlíð, Einarsnesi, Eiðisgranda, Stekkjabakka, Mjódd, Barðastöðum, Dalhúsum við sundlaug Grafarvogs, Fjallkonuvegi, Óðinsgötu, Háaleitisbraut, Hallgrímskirkju, Hofsvallagötu við sundlaug Vesturbæjar, Kjarvalsstöðum, Kjalarnesi, Kleppsvegi við Shell, Langholtsskóla við Holtaveg, Laugardalslaug, Laugalæk, Maríubakka/Arnarbakka, Norðlingabraut 1, Rofabæ/Bæjarbraut, Selásbraut/Norðurás, Spönginni,  Úlfarsbraut, Þjóðhildarstíg, Skógarseli, Vesturbergi/Norðurfelli og Suðurhlíð við Öskjuhlíðarskóla.

Kort sem sýnir staðsetningu grenndargáma.
 
Stefnt er að því að glersöfnun verði komin á allar 57 grenndarstöðvar borgarinnar árið 2020.
 
Á grenndarstöðvum stendur Bandalag Íslenskra Skáta (BÍS) fyrir söfnun á skilagjaldsskyldum umbúðum auk þess sem Rauði krossinn er með söfnunargáma fyrir fatnað, skó og aðra vefnaðarvöru (textíl).

Hægt er að hringja í síma 660 2249 eða senda tölvupóst á netfangið sorpa@sorpa.is ef þú hefur ábendingu um þjónustu grenndarstöðva.

Endurvinnslustöðvar

Sex endurvinnslustöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu, þar af þrjár í Reykjavík, við Sævarhöfða, Ánanaust og Jafnasel. Endurvinnslustöðvar eru bæði fyrir úrgang frá íbúum og rekstaraðilum. Gjald vegna reksturs endurvinnslustöðva er innheimt með fasteignagjöldum. Endurvinnslustöðvarnar taka á móti 32 úrgangsflokkum og eru ætlaðar til losunar smærri farma, undir tveimur rúmmetrum. Móttöku- og flokkunarstöð SORPU bs. er staðsett í Gufunesi og þar er tekið við förmum sem eru yfir tveimur rúmmetrum og er yfirleitt greitt fyrir skil eftir kílóverði úrgangsflokks.


Hægt er að hringja í síma 520 2200 eða senda tölvupóst á netfangið sorpa@sorpa.is ef þú hefur ábendingu um þjónustu endurvinnslustöðva.
 

Aðrir sem taka á móti úrgangi

Hægt er að skila hlutum til endurnotkunar og endurvinnslu víðs vegar um borgina. Sem dæmi tekur Rauði krossinn við fatnaði, skóm og öðrum textílvörum í söfnunargámum á grenndarstöðvum og endurvinnslustöðvum SORPU bs. Á höfuðborgarsvæðinu er einnig hægt að skila fatnaði, skóm og nytjavörum á nytjamarkað Hjálpræðishersins auk þess sem Mæðrastyrksnefnd tekur við framlögum sem nýtast hér á landi.
 
Samhjálp og ABC barnahjálp reka einnig nytjamarkaði þar sem tekið er við hvers kyns nytjavöru. Ýmsar aðrar leiðir eru til staðar fyrir nytjahluti svo sem bílskúrssölur, nytjamarkaðurinn í Kolaportinu o.s.frv.
 
Úreltum lyfjum og lyfjaafgöngum skal skilað til starfsmanna í apótekum. Vissar gleraugnaverslanir taka á móti gömlum gleraugum. Einnig eru oft settar á stað árvissar safnanir á vissum úrgangsflokkum og nytjahlutum, svo sem söfnun á gleraugum, garðaúrgangi og skóm í tengingu við góðgerðarsamtök og hreinsunarátök.
 
Skilagjaldsskyldum umbúðum er hægt að skila á grenndarstöðvar og endurvinnslustöðvar SORPU bs. en skilagjald er ekki greitt á öllum endurvinnslustöðvunum. Skilagjald umbúða sem skilað er á grenndarstöðvar rennur til Bandalags íslenskra skáta. Einnig er hægt að skila og fá greitt fyrir skilgjaldsskyldar umbúðir hjá Endurvinnslunni hf. í Knarrarvogi. Söfnunargáma ungmennafélaga og annarra samtaka má einnig finna víðs vegar um borgina.

Ruslastampar á almenningssvæðum

Um 1.355 ruslastampar eru í Reykjavík en undanfarin ár hefur áhersla verið lögð á að koma stömpum fyrir við bekki og strætóskýli í borginni auk þess sem brugðist hefur verið við þegar ábendingar hafa borist um að fjölga þurfi ruslastömpum. Stömpum er dreift misþétt um borgarlandið og er fjarlægð milli stampa minnst í miðborginni, en þar eru þeir um 0,94 á hvern hektara. Í dag eru fjórar mismunandi tegundir af ruslastömpum á opnum svæðum, bæði upphengdir og frístandandi.
 
Marghólfa stampar fyrir úrgangsflokkun er að finna á nokkrum völdum almenningssvæðum í borginni með það að markmiði að auka flokkun í Reykjavík og vitund almennings um flokkun og skil til endurvinnslu.

Hundaskítur og lífrænn úrgangur er almennt langstærsti úrgangsflokkurinn í ruslastömpum borgarinnar. Samsetning úrgangs úr stömpum er þó nokkuð öðruvísi á miðbæjarsvæðinu, en þar er hlutfall plasts og pappírsefna í flestum tilfellum stærra en lífræns úrgangs.

Hafa samband

Tekið er við fyrirspurnum og pöntunum í síma 4 11 11 11 eða á netfangið sorphirda@reykjavik.is. Athugið að hússtjórn fjöleignarhúsa þarf að óska eftir breytingum sem hefur áhrif á gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs. Símatíminn er milli kl. 8:30-9:00 og 13:00-14:00.