Ráðgjöf við einstaklinga og fjölskyldur

Ráðgjöf við einstaklinga og fjölskyldur miðar að því að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir þeirra sem leita til þjónustumiðstöðvanna.

Einnig veita ráðgjafar upplýsingar um mögulega þjónustu utan þjónustumiðstöðvanna og vísa fólki á þau úrræði sem henta hverjum og einum.

Markmið ráðgjafarinnar er að hjálpa fólki til sjálfshjálpar þannig að sérhver einstaklingur geti sem best notið sín í samfélaginu.

Félagsleg ráðgjöf tekur meðal annars til ráðgjafar vegna atvinnuleysis, veikinda, húsnæðisleysis, fjárhagsvanda, fötlunar, öldrunar, málefna útlendinga, málefna barna og ungmenna, fjölskylduvanda og áfengis- og vímuefnavanda.

Nánari upplýsingar um ráðgjöf er að fá hjá þjónustumiðstöðvum borgarinnar.

Ferill umsóknar/þjónustu

Hægt er að hafa samband við þjónustumiðstöð borgarinnar miðað við lögheimili hvers og eins og óska eftir upplýsingum um þjónustu, réttindi eða frekari ráðgjöf. 

Félagsráðgjafar aðstoða við gerð umsókna um þjónustu ef þörf er á.

Félagsráðgjafar taka á móti beiðnum um félagslega ráðgjöf á afgreiðslutíma þjónustumiðstöðvanna.

Allir með lögheimili í Reykjavík, 18 ára og eldri, sem þurfa á ráðgjöf eða upplýsingum um félagsleg réttindi eða þjónustu að halda geta leitað til þjónustumiðstöðva borgarinnar miðað við lögheimili hvers og eins.

Ekki þarf að skila sérstökum gögnum nema félagsráðgjafa þyki það ákjósanlegt með hliðsjón af aðstæðum.

Hvað kostar þjónustan?

Þjónustan er borgarbúum að kostnaðarlausu.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Hægt er að koma fyrirspurnum og almennum kvörtunum/ábendingum á framfæri símleiðis eða í móttöku á öllum starfsstöðvum þjónustumiðstöðva borgarinnar miðað við lögheimili hvers og eins.

Þar sem um samkomulag er að ræða sem notandi gerir við félagsráðgjafa sinn er ekki hægt að áfrýja/kæra málsmeðferð. Hægt er að koma athugasemdum á framfæri við yfirmann á viðkomandi þjónustumiðstöð.