Fjölmenning í frístundastarfi
Mikilvægt er að börn og ungmenni með annað móðurmál en íslensku njóti frístundaþjónstu sem stuðlar að samþættingu og tengslamyndun. Í frístundamiðstöðvum borgarinnar er því lögð áhersla á fjölmenningarlegt starf með börnum og ungmennum.
Í frítímanum gefast ótal tækifæri til að vinna með þætti sem efla og styrkja einstaklinginn sem félagsveru og virkan þjóðfélagsþegn. Í starfi frístundamiðstöðva er lögð megináhersla á að vinna með sjálfsmynd, umhyggju, félagsfærni, virkni og þátttöku. Frítíminn skipar stóran sess í lífi barna og ungmenna og í gegnum viðfangsefni í frítíma gefast þeim tækifæri til að spegla skoðanir sínar og viðhorf í jafningjahópi á eigin forsendum enda þátttaka valfrjáls. Það starf sem unnið er á vettvangi frítímans og inni í skólakerfinu styður hvort annað í átt til aukinnar færni, líkt og tvær hliðar á sama peningi. Með virkri þátttöku í frítímanum skapast annars konar tækifæri fyrir börn og ungmenni til þjálfunar og í öðru samhengi og umhverfi en í skólanum.
Foreldrar barna sem flutt hafa til landsins á síðustu tólf mánuðum og eru með annað móðurmál en íslensku geta fengið undanþágu frá greiðslu gjalda fyrir frístundaheimili í þrjá mánuði gegn umsókn þar um. Niðurfelling gjalda gildir ekki fyrir börn sem eru með lögheimili erlendis og koma tímabundið til Íslands. Hér er umsóknareyðublað vegna þessa.