Í frítímanum gefast ótal tækifæri til að vinna með þætti sem efla og styrkja einstaklinginn sem félagsveru og virkan þjóðfélagsþegn. Í starfi frístundamiðstöðva er lögð megináhersla á að vinna með sjálfsmynd, umhyggju, félagsfærni, virkni og þátttöku. Frítíminn skipar stóran sess í lífi barna og ungmenna og í gegnum viðfangsefni í frítíma gefast þeim tækifæri til að spegla skoðanir sínar og viðhorf í jafningjahópi á eigin forsendum enda þátttaka valfrjáls. Það starf sem unnið er á vettvangi frítímans og inni í skólakerfinu styður hvort annað í átt til aukinnar færni, líkt og tvær hliðar á sama peningi. Með virkri þátttöku í frítímanum skapast annars konar tækifæri fyrir börn og ungmenni til þjálfunar og í öðru samhengi og umhverfi en í skólanum.

 
Frístundamiðstöðvar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar byggja á norðurevrópskri hugmyndafræði sem þekkist jafnvel ekki í samfélögum utan þess svæðis. Hlutverk frístundamiðstöðva er að kynna fyrir foreldrum mikilvægi skipulags frístundastarfs en æskilegt er að leita eftir samstarfi við leik- og grunnskóla til að ná til sem flestra foreldra. Börn á Íslandi verja miklum hluta af sínum frítíma í skipulögðu frístundastarfi en rannsóknir hafa sýnt að slíkt starf hefur mikið forvarnargildi. Foreldrasamstarf í fjölmenningarlegu frístundastarfi þarf annars vegar að byggja á upplýsingum til foreldra um mikilvægi frístundastarfsins fyrir nám og þroska barnsins og hinsvegar því að hvetja foreldra til að taka þátt í því starfi sem er skipulagt í frítíma barnsins.
 
Þegar barn sem talar annað móðurmál en íslensku byrjar í skóla eða frístundastarfi ætti að leggja sérstaka rækt við að byggja upp samstarf við foreldra strax frá upphafi með það að markmiði að mynda tengsl og traust. Eins og fram kemur í móttökuáætlun skóla og frístundasviðs vegna með barna með annað móðurmál en íslensku er æskilegt að fulltrúi frístundaheimilis eða félagsmiðstöðvar komi í móttökuviðtalið í grunnskólanum til að kynna frístundastarf hverfisins og notkun frístundakorts en mikilvægt er að kynna strax fyrir fjölskyldunni hvaða frístundastarf er í boði fyrir börnin í viðkomandi hverfi. Sjá upplýsingar um frístundaheimili á ýmsum tungumálum. 
 
Skipulagt frístundastarf til viðbótar við grunnskóladaginn er afar mikilvægt þar sem tíminn sem varið er í íslensku málumhverfi skiptir máli. Máltaka íslensku sem annars máls er tímafrekt ferli og börn þurfi að verja a.m.k. 50% vökutímans í íslensku málumhverfi til þess að tungumálið vaxi og dafni og nýtist þeim til gagns (Elín Þöll Þórðardóttir, 2012).
 
Þrír mánuðir án endurgjalds á frístundaheimili

Foreldrar barna sem flutt hafa til landsins á síðustu tólf mánuðum og eru með annað móðurmál en íslensku geta fengið undanþágu frá greiðslu gjalda fyrir frístundaheimili í þrjá mánuði gegn umsókn þar um. Niðurfelling gjalda gildir ekki fyrir börn sem eru með lögheimili erlendis og koma tímabundið til Íslands. Hér er umsóknareyðublað vegna þessa.

 
Sumarstarf fyrir börn með annað móðurmál en íslensku
Athygli er vakin á því að börn sem eiga annað eða báða foreldra af erlendum uppruna, hafa búið skemur en tvö ár á Íslandi og hafa lögheimili í Reykjavík geta fengið 3 vikur gjaldfrjálsar í sumarstarfi skóla- og frístundasviðs. Þetta gildir ekki um börn sem eru að koma erlendis frá í sumarleyfi. Hér er að finna umsóknareyðublað vegna þessa á nokkrum tungumálum.