Flutningur milli leikskóla
Hægt er að sækja um flutning milli leikskóla borgarinnar í gegnum vala.is. Að öllu jöfnu fer sá flutningur fram á tímabilinu júní - september, en nauðsynlegt er að sækja um flutning fyrir lok febrúar áður en innritað er í leikskólana fyrir haustið.
Flutningur innan Reykjavíkur
Þú sækir um flutning á milli almennra leikskóla í gegnum vala.is. Að öllu jöfnu fer sá flutningur fram á tímabilinu júní - september.
Foreldrar barna í sjálfstætt starfandi leikskólum með þjónustusamning við Reykjavíkurborg þurfa að sækja um flutning hjá leikskólastjóra. Við undirritun dvalarsamnings hjá sjálfstætt starfandi leikskólum falla börn út af biðlista í almenna leikskóla.
Flutningur til Reykjavíkur
Foreldrar sem hyggjast flytja til Reykjavíkur geta sótt um leikskólapláss en barn getur ekki hafið leikskólagöngu fyrr en lögheimili hefur verið flutt. Úthlutun leikskólaplássa fer jafnan fram á tímabilinu mars - maí ár hvert og eru foreldrar hvattir til að senda inn umsókn fyrir lok febrúar. Eigi foreldrar ekki möguleika á að flytja lögheimili fyrir þann tíma geta þeir haft samband við innritunarfulltrúa og látið vita hvenær flutningur er fyrirhugaður. Námsmenn í lánshæfu námi þurfa að framvísa skólavottorði og staðfestingu frá heimasveitarfélagi um greiðslu leikskólagjalda fyrir barnið óski þeir eftir undanþágu frá skilyrði um lögheimili í Reykjavík.
Flutningur frá Reykjavík
Börnum, sem flytja milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, er heimilt að dvelja áfram í leikskóla í því sveitarfélagi sem flutt er úr í allt að sex mánuði frá flutningi lögheimilis ef barn er á biðlista eftir leikskóla og ætla má að barnið hefji leikskóladvöl í nýja sveitarfélaginu innan sex til tólf mánaða. Samþykki sveitarfélags sem flutt er úr þarf að liggja fyrir. Sé barn á lokaári í leikskóla eða ef barnið er fatlað og sú þjónusta sem barnið þarf á að halda er ekki fyrir hendi í nýja sveitarfélaginu geta tímamörk verið rýmri en sex mánuðir og þarf barn þá ekki að vera á biðlista eftir leikskóla í hinu nýja sveitarfélagi. Samþykki sveitarfélags sem flutt er úr þarf að liggja fyrir. Sækja skal fyrirfram um slíka undanþágu í gegnum netfangið sfs@reykjavik.is.
Fyrirspurnir og/eða ábendingar
Þú getur sent inn fyrirspurnir á netfangið innritun.leikskolar@reykjavik.is. Sótt er um þjónustuna á vala.is