Hvað er fokheldisúttekt?

Staðfesting með úttekt byggingarfulltrúa á að bygging hafi náð því byggingarstigi að teljast fokheld, það er fullreist bygging sem lokað hefur verið fyrir veðri og vindum. Byggingarstigið fokheld er nánar skilgreint í ÍST-51 og er samkvæmt staðlinum byggingarstig 4. Byggingarár húss er miðað við skráningu fokheldisstigs í fasteignaskrá og mikilvægt að rétt sé skráð til dæmis vegna friðunarákvæða.

Hverjir geta óskað eftir fokheldisúttekt?

Byggingarstjóri fyrir hönd eigenda byggingar og eftir atvikum eigandi geta óskað eftir henni.

Forsendur málsmeðferðar

Sá sem óskar eftir fokheldisúttekt útfyllir EBB 106, Beiðni um fokheldisúttekt, en eyðublaðið er jafnframt gátlisti sem fylla verður út. Útfylltu eyðublaði er skilað til þjónustuvers í Borgartúni 12 - 14, 105 Reykjavík. Greiða verður úttektargjald og er tilkynning um upphæð send í heimabanka greiðanda sem hann greiðir áður en úttekt er gerð. Geri skrifstofa byggingarfulltrúa ekki athugasemd við móttekna úttektarbeiðni og gátlista getur úttektin farið fram.

Framkvæmd úttektar

Byggingarfulltrúi í samráði við beiðanda ákveður úttektartíma. Viðstaddir úttektina eru auk byggingarfulltrúa, byggingarstjóri og eftir atvikum eigandi/umráðamaður byggingar.

Vottorð og skráning

Uppfylli bygging öll þau atriði sem upp eru talin í 4. kafla ÍST-51 gefur byggingarfulltrúi út vottorð um fokheldi sem hann afhendir byggingarstjóra eða eiganda. Jafnframt skráir byggingarfulltrúi byggingarstig 4 í fasteignaskrá þjóðskrár. Niðurstöður úttektar skráir byggingarfulltrúi í málakerfi sitt.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Fyrirspurnir berast til embættis byggingarfulltrúa í gegnum þjónustuver borgarinnar, síma 4 11 11 11 eða á netfangið upplysingar@reykjavik.is.

Til að bæta þjónustu embættis byggingarfulltrúa eru allar ábendingar og athugasemdir vel þegnar. Þeim má koma á framfæri bréflega og á netfangið byggingarfulltrui@reykjavik.is.