Um foreldrasamstarf

Markmiðið með foreldrasamstarfi er að tryggja hagsmuni nemenda með upplýsingamiðlun og samráði foreldra og skóla. Nemandinn öðlast aukið öryggi við að finna gagnkvæmt traust og virðingu milli hinna fullorðnu sem og samræmi í gildum og væntingum heima fyrir og í skólanum.

Foreldrar geta leitað stuðnings hjá þjónustumiðstöðvum við lausn mála sem tengjast skólastarfi, en þar starfa meðal annarra kennsluráðgjafar og sálfræðingar. Í hverju sveitarfélagi skal í umboði sveitarstjórnar vera skólanefnd sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða. 

Á Foreldravefnum má finna ýmsar upplýsingar um skólagöngu barna og aðkomu foreldra.

Skólaráð og foreldrafélög

Í lögum um grunnskóla segir að við grunnskóla skuli starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Eins er kveðið á um að við grunnskóla skuli starfa foreldrafélag. Skólastjóri er ábyrgur fyrir stofnun þess og sér til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Hlutverk foreldrafélags er að styðja við skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Sjá handbók um skólaráð. 

Samtök foreldra

Foreldrar hafa stofnað foreldrafélög í öllum grunnskólum borgarinnar. Foreldrafélögin og foreldraráð í borginni hafa einnig myndað samtökin SAMFOK og til eru heildarsamtök foreldra í landinu sem nefnast Heimili og skóli.

Ráðgjafi foreldra og skóla

Á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur starfar ráðgjafi foreldra og skóla, Alda Árnadóttir, sem getur veitt faglega ráðgjöf í málefnum sem upp geta komið í grunnskólum borgarinnar. Ráðgjafinn vinnur að viðeigandi úrræðum fyrir nemendur með fjölþættan vanda í samstarfi við foreldra og stofnanir Reykjavíkurborgar. Haft er samband við hann í síma 4 11 11 11.

Skoðaðu foreldravefinn!