Forvarnir
Velferðarsvið ber ábyrgð á stefnumörkun í forvarnamálum og vinnur með forvarnarnefnd Reykjavíkurborgar sem vann forvarnastefnu borgarinnar. Stefnan tekur til allra barna og ungmenna frá fæðingu til tvítugs, foreldra og allra sem að málefnum þeirra og uppeldi koma. Áhersla er á að forvarnir hefjist strax í æsku, séu heildstæðar, víðtækar og sameini krafta og störf borgarbúa og borgarstarfsmanna.
Hvert er leiðarljós forvarnastefnunnar?
Leiðarljós stefnunnar er að skapa öllum börnum og ungmennum uppeldisaðstæður og umhverfi sem eflir sjálfstraust þeirra og sjálfsmynd, einkennist af samkennd og býr yfir viðeigandi stuðningsúrræðum þegar þörf krefur.
Velferðarsvið ber ábyrgð á innleiðingu stefnunnar og eftirliti með framkvæmd. Þjónustumiðstöðvar bera ábyrgð á framkvæmd stefnunnar og nánari útfærslu hennar í samstarfi við börn og ungmenni sem og foreldra þeirra, íbúa og stofnanir sem á einn eða annan hátt koma að málefnum barna og ungmenna.
Velferðarsvið ber ábyrgð á þróun velferðarþjónustu, þar með talið þróunar- og átaksverkefnum og er þátttakandi í fjölmörgum samstarfsverkefnum sem lúta að forvörnum og endurhæfingu fyrir unga jafnt sem aldna. Velferðarsvið hefur átt frumkvæði að mörgum þeirra, stýrir sumum og er þátttakandi í öðrum. Velferðarsvið vinnur fyrir forvarnarnefnd Reykjavíkurborgar og á fulltrúa í fjölda samstarfs- og þróunarverkefna á sviði forvarna. Velferðarsvið leggur mikla áherslu á endurhæfingu þeirra sem fengið hafa fjárhagsaðstoð í langan tíma með það að markmiði að auka lífsgæði þeirra. Velferðarsvið vinnur að átaksverkefnum í samstarfi við þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar og Tryggingastofnun ríkisins og fleiri.