Friðarsúlan eða Imagine Peace Tower eins og verkið heitir á ensku er hugarfóstur myndlistarmannsins, tónlistarmannsins og friðarsinnans Yoko Ono. Verkið er hugsað sem leiðarljós fyrir heimsfrið til minningar um eiginmann hennar John Lennon sem var einn af stofnendum Bítlanna (The Beatles). Verkið er í formi „óskabrunns“, en upp úr honum stígur há og mikil ljóssúla. Orðin „Hugsa sér frið“ eru grafin í brunninn á 24 tungumálum. Ljóssúlan er samansett úr mismunandi geislum sem sameinast í einu sterku ljósi. Sex ljósgeislanna fara lárétt um göng á palli í kringum brunninn og er endurkastað upp á við með speglum. Þéttleiki ljóssins, sem stafar frá súlunni, er háður sífelldum breytingum á ögnum í andrúmsloftinu sem hegða sér í takt við þá margbreytilegu veðráttu sem einkennir Ísland. Friðarsúlan / Imagine Peace Tower var tekin í notkun 9. október 2007.  

Ár hvert er Friðarsúlan í Viðey tendruð á afmælisdegi Johns Lennons, 9. október og lýsir hún upp kvöldhimininn til og með 8. desember en þann dag dó Lennon árið 1980. Undanfarin ár hefur verið boðið upp á siglingu út í Viðey og hafa gestir upplifað notalega og umfram allt friðsæla stund við tendrunina. Þar að auki er Friðarsúlan tendruð frá vetrarsólstöðum til nýárs, í eina viku í kringum vorjafndægur og á sérstökum hátíðardögum sem listamaðurinn Yoko Ono og Reykjavíkurborg koma sér saman um.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar


Nánari upplýsingar veita Guðmundur Birgir Halldórsson, verkefnastjóri viðburða, í gegnum síma 411 6010  eða Björg Jónsdóttir, verkefnastjóri viðburða, í gegnum síma 411 6006.