Markmið og tilgangur Frístundakortsins er að öll börn og unglingar í Reykjavík 6 - 18 ára geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi.

Styrkurinn er 50.000 krónur á barn frá og með 1. janúar 2021, ekki er um beingreiðslur til forráðamanna að ræða, heldur hafa þeir rétt til að ráðstafa tilgreindri upphæð í nafni barns síns til niðurgreiðslu á þátttöku- og æfingagjöldum.

Börn sem verða sex ára á árinu eiga rétt á styrk frá 1. janúar það ár og út árið sem þau eru 18. Einstaklingar sem orðnir eru 18 ára þurfa að skrá sig sjálfir til þess að ráðstafa styrk.

Meginskilyrði félaga sem gerast aðilar að Frístundakortinu er að starfsemin sé á forsendum uppeldislegra gilda og forvarna í víðum skilningi og að starfsemin fari fram undir leiðsögn starfsmanna og leiðbeinanda sem eru hæfir til að starfa með börnum og unglingum. Styrkhæf starfsemi þarf að vera við lýði í 8 vikur samfellt hið minnsta.

Forráðamenn ráðstafa styrk í gegnum kerfi þeirra félaga sem barnið er skráð hjá.

Opið er fyrir ráðstöfun frá 1. janúar til 31. desember.

Innheimta aðildarfélaga er með ýmsum hætti og er mikilvægt að forráðamenn kynni sér hvernig innheimtu er háttað hjá aðildarfélagi síns barns. Félögum er heimilt að ákveða sjálf lokadag ráðstöfunar á hverri önn svo hægt sé að ganga frá innheimtu eftirstöðva séu þær einhverjar.

Ekki er heimilt að flytja styrkinn á milli ára.

Frekari upplýsingar um Frístundakortið svo sem reglur og skilyrði, umsóknir félaga og leiðbeiningar fyrir félög og forráðamenn má finna hér til hægri á síðunni.

 

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Fyrirspurnir, ábendingar eða kvartanir berist á netfangið fristundakort@itr.is