Fyrir hverja eru frístundamiðstöðvarnar?

Frístundamiðstöðvar eru fyrir íbúa hverfisins en sérstaklega er horft til barna og unglinga á aldrinum 6 - 18 ára.

Starf fyrir 6 - 9 ára börn fer fram á frístundaheimilum. Þau eru starfrækt við alla grunnskóla Reykjavíkurborgar. Þar er börnunum boðið upp á fjölbreytt frístundastarf eftir að skóladegi lýkur. Leitast er við að bjóða börnunum upp á spennandi viðfangsefni sem veita börnunum útrás fyrir leik og sköpunarþörf. 

Starf fyrir 10 - 16 ára börn og unglinga fer fram í félagsmiðstöðvum. Einnig er boðið upp á sértækt félagsmiðstöðvarstarf fyrir fötluð börn og unglinga á fjórum stöðum í borginni. Opnunartími félagsmiðstöðva yfir vetrartímann fylgir að mestu starfsári grunnskólanna. Frekari upplýsingar um starfsemina er að finna á heimasíðum félagsmiðstöðvanna.

Hvað kostar þjónusta frístundamiðstöðvanna?

Verð þjónustunnar ræðst af verkefnum. Föst gjaldskrá er fyrir frístundaheimili.

Hvernig starf fer fram á frístundamiðstöðvum?

Frístundamiðstöðvarnar starfa eftir Starfsskrá frístundamiðstöðva SFS. Mikið er lagt upp úr framboði á fjölbreyttu og áhugaverðu frístundastarfi og að skapa vettvang fyrir tómstundir, menntun, menningu og uppeldi undir handleiðslu hæfs starfsfólks. Sjá einnig frístundastefnu Reykjavíkurborgar. 

Starf í takt við þarfir samfélagsins

Starf á vegum frístundamiðstöðvanna gegnir veigamiklu uppeldishlutverki þar sem lögð er áhersla á að efla félagsþroska og styrkja ábyrgð og sjálfstæði einstaklinga. Fagstarfið þróast í takt við breytingar og þarfir samfélagsins.

Í hverfum borgarinnar er unnið að fjölmörgum samstarfsverkefnum þar sem frístundamiðstöðvar, skólar, lögregla, félagsþjónusta, foreldrar, íþrótta- og æskulýðsfélög, kirkjur, og aðrir sem vinna að málefnum barna og unglinga taka höndum saman um góð verkefni.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Þú getur komið fyrirspurnum og ábendingum/kvörtunum á framfæri við þá frístundamiðstöð sem um ræðir. Einnig má beina þeim til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, Borgartúni 12 - 14, 105 Reykjavík. Sími: 4 11 11 11. Netfang: sfs@reykjavik.is.