Almenn fyrirspurn

Ef óskað er eftir almennum upplýsingum og leiðbeiningum vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar er hægt að hringja inn á auglýstum símatíma eða senda óformlega fyrirspurn á byggingarfulltrui@reykjavik.is. Starfsfólk embættis byggingarfulltrúa leitast við að svara fyrirspurnum sem sendar eru á netfangið sem fyrst, eða innan 10 vinnudaga.

Formleg fyrirspurn

Áður en formlegt hönnunarferli hefst getur húseigandi eða lóðarhafi einnig lagt inn formlega fyrirspurn – á  eyðublaðið hér - til byggingarfulltrúa til að kanna hvort líklegt sé að leyfi muni fást fyrir tiltekinni framkvæmd. Fyrirspurn þurfa ekki að fylgja fullnaðaruppdrættir og því sparast hönnunarkostnaður ef í ljós kemur að fyrirhuguð framkvæmd er ósamþykkjanleg þar sem hún uppfyllir ekki lagaleg ákvæði. Slík formleg fyrirspurn er send inn með því að fylla inn sérstakt eyðublað. Formlegar fyrirspurnir eru lagðar fyrir á vikulegum afgreiðslufundum byggingarfulltrúa og er niðurstaða send í tölvupósti til fyrirspurnaraðila á uppgefið netfang og bréf á skráð lögheimili viðkomandi. Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa eru að jafnaði alla virka þriðjudaga og þarf formleg fyrirspurn að berast fimm vinnudögum fyrir fund.
 
Jákvætt svar formlegrar fyrirspurnar veitir ekki heimild til framkvæmdar. Til að fá slíka heimild þarf að sækja um byggingarleyfi með formlegum hætti og láta þá ítarlegri upplýsingar og tilskilin gögn fylgja með. Sem hluta af því ferli er byggingarleyfi formlega gefið út. Ekki er gefið að svar við byggingarleyfisumsókn verði með sama hætti og svar formlegrar fyrirspurnar, enda geta ítarlegri upplýsingar leitt í ljós að framkvæmdin uppfyllir ekki lagaleg ákvæði.

Algengar spurningar

Hægt er að sjá ýmsar spurningar og svör um byggingar, byggingarframkvæmdir og tengd viðfangsefni á heimasíðu Mannvirkjastofnunar, sem ber ábyrgð á samræmingu í byggingarmálum. Til viðbótar er hér að finna algengar spurningar sem berast embætti byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar.

Þarf leyfi fyrir fánastöng inni á lóð?

Ef fánastöngin er inni á lóð þarf ekki leyfi frá byggingarfulltrúa.

Hvar fæ ég afrit af uppdráttum?

Aðaluppdrættir eru aðgengilegir á teikningavef Borgarvefsjár. Séruppdrætti má nálgast í þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14.

Hvar get ég séð eignarskiptayfirlýsingu fyrir húsið mitt?

Þær eignaskiptayfirlýsingar sem eru til liggja hjá sýslumanninum í Reykjavík. Ef eignaskiptayfirlýsing er ekki fyrir hendi eða hún er ófullnægjandi þarf að halda húsfund um málið og taka ákvörðun um að láta gera eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið. Skortur á eða ófullnægjandi eignaskiptayfirlýsing getur valdið töfum og erfiðleika í fasteignaviðskiptum.

Hvar get ég fundið upplýsingar um það hvort íbúðin sem ég er að íhuga að kaupa er „samþykkt“?

Embætti byggingarfulltrúa hjá Reykjavíkurborg veitir upplýsingar um það hvort íbúðir eru „samþykktar“.  Hafðu samband í síma 411 1111 eða netfangið byggingarfulltrui@reykjavik.is.

Frá hverjum þarf ég leyfi til að setja skjólvegg á lóðarmörk?

Sækja þarf um byggingarleyfi hjá embætti byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar fyrir skjólveggjum og  girðingum lóða sem ekki falla undir undanþáguákvæði byggingarreglugerðar.
 
Til undantekningar teljast:
 
  • Skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 m að hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m.
  • Girðingar eða skjólveggir sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og eru ekki hærri en sem nemur fjarlægðinni að lóðarmörkum.
  • Allt að 2,0 m langir og 2,5 m háir  skjólveggir sem eru áfastir við hús og í a.m.k. 1,8 m fjarlægð frá lóðarmörkum.
Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingu eða skjólvegg allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina. Hámarkshæð girðingar/skjólveggjar miðast við jarðvegshæð við girðingu/vegg eða jarðvegshæð lóðar á lóðarmörkum ef hæð jarðvegs þar er
meiri en jarðvegshæð á lóð við vegginn.

Hvernig eru byggingarstjóri og iðnmeistarar skráðir á verk?

Eigandi þeirrar eignar þar sem byggingarframkvæmdir standa til skráir byggingarstjóra verksins hjá embætti byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar. Þegar embætti byggingarfulltrúa hefur samþykkt byggingarstjórann, þá ber hann í framhaldi ábyrgð á að leggja fyrir byggingarfulltrúa lista yfir þá iðnmeistara sem hann hyggst ráða til verksins. Byggingarstjóri fær eyðublað fyrir skráningu iðnmeistara afhent í þjónustuveri Reykjavíkurborgar þegar hann hefur verið skráður á verkið.
Ef byggingarstjóri hættir á meðan á framkvæmdum stendur ber eigandi ábyrgð á því að nýr byggingarstjóri taki við störfum án tafar og á að tilkynna breytinguna til embættis byggingarfulltrúa.  Hætti iðnmeistari umsjón með framkvæmdum áður en verki er lokið sér byggingarstjóri um að nýr iðnmeistari taki til starfa án tafar og að tilkynna breytinguna til embættis byggingarfulltrúa.
________________________________________