Á þessari vefsíðu eru upplýsingar sem umsækjendur eru hvattir til að kynna sér áður en sótt er um rafrænt á „Mínum síðum“.  

Götusala er leyfisskyld og eru leyfi gefin út til ákveðins tíma. Götusala á við um sölustarfsemi sem fer fram á almannafæri, svo sem á torgum, götum, gangstéttum og í almenningsgörðum. Yfirlit yfir götu- og torgsölusvæði má finna í Borgarvefsjá.

Undir götu- og torgsölu fellur ekki námskeiðshald, kennsla, kynningar, sýningar, viðburðarhald og minniháttar góðgerðasala, svo sem tombólur barna og ungmenna, hvort sem er í vögnum, bílum, gámum eða undir beru lofti. Allt viðburðahald, þ.m.t. borgarhátíðir (s.s. 17. júní, Menningarnótt og Reykjavík Pride), fellur ekki undir götu- og torgsölu. Sækja skal um söluleyfi á slíkum viðburðum til skrifstofu menningarmála hjá Reykjavíkurborg.

Hvað telst til götusölu og hvar er hún leyfð?

Um götu- og torgsölu gildir samþykkt borgarráðs frá 9. janúar 2020.

Til götu- og torgsölu telst eftirfarandi:

Markaðssala einyrkja   

Markaðssala einyrkja er leyfi fyrir um 5 fermetra svæði.  Hægt er að sækja um tímabundin söluleyfi sem gilda frá 1. hvers mánaðar á skilgreindum markaðssvæðum á tímabilinu  1. mars – 30. nóvember.  Sala er heimiluð frá kl. 09:00‐21:00. Sækja þarf um leyfi fyrir tvo mánuði að lágmarki að undanskyldum nóvember og skal leiga greidd fyrir undirritun samnings.

Óskir um framlengingu sendist fyrir 15. hvers mánaðar á torgsala@reykjavik.is     
Eftirfarandi svæði eru skilgreind sem markaðssvæði einyrkja: Bernhöftstorfa, Lækjartorg, Ingólfstorg og Frakkland (garður efst á Frakkastíg) og getur leyfishafi flutt sig milli þessara staða að vild. 
Leyfishafa er gert skylt að víkja séu afnotaleyfi veitt vegna viðburða á ofangreindum svæðum. 

Dag-  og nætursala  í miðborginni         

Starfsár dag- og nætursölu hefst 15. maí ár hvert. Lágmarkstími útgefins leyfis er tveir mánuðir. 

Dagsala er heimiluð frá kl. 09:00 – 21:00. 
Eftirfarandi svæði innan miðborgarkjarnans eru skilgreind sem dagsölusvæði (skýringar á flokkun söluaðstöðu):

  • Skólavörðuholt og Frakkland - 2 sölusvæði (A, C og D). Öll umferð dráttarbíla bönnuð á stæði 2. 
  • Mæðragarður - 2 sölusvæði  (A, C, og D)
  • Hlemmur - 2 sölusvæði (A, C, og D)
  • Arnarhóll - 1 sölusvæði (A og C)
  • Kalkofnsvegur  - 1 sölusvæði  (A og C) 
  • Vitatorg - 4 sölusvæði (A, C, og D) 
  • Bernhöftstorfa - 2 sölusvæði (A og C). Öll umferð dráttarbíla bönnuð.
  • Fógetagarður - 3 sölusvæði (A og C). Öll umferð dráttarbíla bönnuð. Athugið að ekki eru veitt leyfi í Fógetagarði að svo stöddu. 

    Staðsetning sölusvæða er skv. teikningum í fylgiskjali 2.  
    Staðsetning innan sölusvæða er skv. teikningu í fylgiskjali 3.  

Nætursala er heimiluð frá 22:00 – 05:00. 

Hverfasvæði    

Veitt eru leyfi fyrir dagsölu á hverfasvæðum.  Sala er heimiluð frá kl. 09:00 – 21:00. Allt að 5 söluaðilar geta samtímis verið með leyfi á sama hverfasvæði. Um sölubifreiðar gildir sú meginregla að þær má aðeins staðsetja á bílastæðum og fjarlægð söluaðstöðu skal vera 50 m frá sambærilegri söluaðstöðu.  Sækja skal um leyfi fyrir 3 mánuði að lágmarki. Á hverfasvæði er heimilt að vera með söluaðstöðu í flokkum A,B,C,D,E og F (skýringar á flokkun söluaðstöðu).  Söluaðstaða skal falla vel að nærumhverfi og vera samþykkt af götu- og torgsölunefnd.

Sumarsala    

Sumarsala fer fram á skilgreindum svæðum í almenningsgörðum, sjá teikningar aftast í fylgiskjali 3.   Öllum er heimilt að sækja um leyfi fyrir sumarsölu, óháð fjölda ársleyfa.

Sala er heimiluð frá 15. maí til 15. september.
Sumarsala er einungis heimiluð fyrir söluaðstöðu í flokkum A og C (skýringar á flokkun söluaðstöðu).

Matsöluvagnar á 17. júní, Reykjavík Pride og Menningarnótt 

Leyfi  um götu- og torgsölu gildir ekki á hátíðum sem fara fram í miðborgarkjarna borgarlands, s.s. 17. júní, Reykjavík Pride og á Menningarnótt. 

Sækja þarf sérstaklega um leyfi hjá viðburðateymi skrifstofu menningarmála hjá Reykjavíkurborg sem sér um leyfisveitingu fyrir hönd þessara hátíða. Sótt er um leyfi með því að senda tölvupóst á menning@reykjavik.is.

Fyrirspurnum vegna annarrar sölu og þjónustu en sölu matvæla á borgarhátíðum skal beint til sama aðila í netfangið menning@reykjavik.is.

Hvernig er sótt um leyfi fyrir götusölu?         

Sótt er um leyfi fyrir götu- og torgsölu á vefsvæðinu  Rafræn Reykjavík / Mínar síður. 
Reikningur fyrir leigugjaldi verður sendur á þann aðila sem skráður er fyrir aðgangi að Rafrænni Reykjavík. Fyrirtæki sem sækja um verða að vera með aðgang á sínu nafni. Umsækjanda er send krafa um leigugjald í heimabanka. 
Úthlutun byggir á eftirfarandi meginþáttum: 

  • Kröfu um fjölbreytileika og mismunandi framboð á vöru og þjónustu.
  • Útliti og hvernig söluaðstaða fellur að nærumhverfi.
  • Góðri reynslu af sambærilegri starfsemi. 

Starfsár götu-og torgsölu er frá 15. maí ár hvert til 14. maí ári síðar.

Á starfsárinu 2022 - 2023 verður opnað fyrir nýjar umsóknir þriðjudaginn 15. febrúar 2022 kl. 09:00 á Mínum síðum Rafræn Reykjavík. Umsóknir sem berast fyrir þann tíma eru ekki teknar gildar.
Öll matsala er leyfisskyld hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Leigugjald er ekki endurkræft. 
Samþykkt þessi gildir að öðru leyti ekki um sölustarfsemi á viðburðum á vegum einkaaðila. Upplýsingar um slíka sölustarfsemi má nálgast með því að senda póst á netfangið menning@reykjavik.is.    

Flokkun söluaðstöðu ræðst af þeirri staðsetningu sem valin verður hverju sinni.
Í umsókn komi fram eftirfarandi: 

  • Tilgreina skal ósk um sölusvæði,
  • stærð söluaðstöðu, heildarlengd x breidd x hæð,
  • þyngd söluaðstöðu,
  • staðsetning söluops,
  • sorpílát,
  • orkugjafa,
  • raforkuþörf sölustarfseminnar (kW) þar sem við á,
  • myndir af söluaðstöðu,
  • mynd af sölusvæði þegar sótt er um hverfasvæði,
  • lýsing á því hvernig söluaðstöðu er komið að og frá sölusvæði, 
  • umsækjandi skal gera grein fyrir geymslustað söluaðstöðu utan sölutíma.  

Hver og einn söluaðili má að hámarki hafa tvö leyfi í kjarna miðborgar, þó aðeins eitt nætursöluleyfi.  

Lögð er áhersla á að söluvarningur sé viðbót við það vöruframboð sem fyrir er hjá nærliggjandi verslunar- og þjónustuaðilum.

Leyfisveitanda er heimilt að fella leyfi úr gildi hafi leyfishafi ekki hafið sölustarfsemi innan mánaðar frá undirritun samnings. 

Hvað tekur afgreiðsla umsókna langan tíma?

Afgreiðslutími umsókna:

  • Markaðssala einyrkjar – 1 vika.
  • Dag- og nætursölusvæði – allt að 2 mánuðir.
  • Hverfasvæði – allt að 2 mánuðir.
  • Sumarsala – allt að 2 mánuðir.

Hvað kostar leyfið?       

Gjaldskrá  
Leyfisgjald fæst ekki endurgreitt eftir að leyfi hefur verið gefið út.

Aðgengi að rafmagni             

Umsækjendur sem þurfa rafmagn skulu tilgreina hve mikla orkuþörf starfsemi þeirra krefst og skila inn vottun frá skoðunarstofu þar um. Leyfishafi greiðir fyrir rafmagnsnotkun.     

Aðgengi að rafmagni er að finna á eftirfarandi stöðum:      

  • Bernhöftstorfu,          
  • Skólavörðuholti,        
  • Ingólfstorgi,    
  • Hlemmi,         
  • Hljómskálagarði,       
  • Lækjargötu,  
  • Lækjartorgi,   
  • Mæðragarði,
  • við Norræna húsið
  • Klambratúni og
  • Vitatorgi

Skilyrði leyfis   

Leyfishafi skal ávallt skila sölusvæði hreinu. Mögulegar skemmdir á borgarlandi og vegsvæðum verða lagfærðar af umhverfis- og skipulagssviði á kostnað viðkomandi leyfishafa. Götu- og torgsöluleyfi er ekki hægt að framselja eða framleigja. 

Götu- og torgsala má ekki skerða öryggi og aðgengi gangandi, hjólandi og akandi umferðar.  Gerð er sú krafa að óhindruð gangstéttarbreidd sé minnst 1,5 m og að fjarlægð frá inngangi rekstraraðila með sambærilega vöru sé að lágmarki 20 m.         

Starfsemin má hvorki valda hávaða- né ljósamengun á eða í námunda við úthlutað svæði. Leyfishafa er óheimilt að stunda götu- og torgsölu annars staðar en leyfið kveður á um og taka meira pláss en skilgreint er samkvæmt leyfi.             

Burðarþol og munstur stétta og torga hafa einnig mikil áhrif á úthlutun en þessir staðir eru ekki gerðir fyrir mikinn þunga og/eða snúning stórra ökutækja. Reykjavíkurborg leggur því áherslu á að létta vagnana og að notuð verði besta aðferð í hverju tilfelli til að koma þeim að og frá sölusvæði án þess að vagnarnir séu dregnir af bifreið eða öðru þungu dráttartæki.

Fyrirspurnir og nánari upplýsingar             

Fyrirspurnir og óskir um nánari upplýsingar sendist á netfangið torgsala@reykjavik.is