Er peran sprungin?

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því þegar götuljós loga ekki og oftast er það vegna þess að pera er farin yfir, en einnig geta önnur tæknileg atriði verið að trufla eins og bilun í streng eða í spennistöð. Reykjavíkurborg tekur á móti öllum slíkum viðhaldsábendingum á ábendingavef.

Hvenær er kveikt á ljósastaurunum?

Götulýsing í Reykjavík stjórnast af ljósmæli sem tekur mið af dagsbirtu. Ljósneminn sem mælir dagsbirtuna er staðsettur á þaki höfuðstöðva OR á Bæjarhálsi. Reglan er því sú að það kviknar á götuljósum um leið og byrjar að dimma.

Undantekning frá þessari stýringu er gerð nokkra daga í október og febrúar, en þá er götulýsing látin loga lengur til að ekki slokkni á morgnana frá kl. 7:45 - 8:30 þegar börn eru á leið í skólann.


Á sumrin, frá 20. maí til 1. ágúst, loga götuljós mun styttra en það eru um það bil 150 klukkustundir á þessu tímabili,  eða 4% af heildar logtíma. Þar af eru um 20 dagar sem ekki kviknar á götulýsingu vegna birtu.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því þegar götuljós loga ekki og oftast er það vegna þess að pera er farin, en einnig geta önnur tæknileg atriði verið að trufla eins og bilun í streng eða í spennistöð. Reykjavíkurborg tekur á móti öllum slíkum viðhaldsábendingum á ábendingavef.

Hvað eru margir ljósastaurar í Reykjavík?

Í Reykjavík eru hátt í 30 þúsund götuljós eða lampar, eins og sjá má í töflunni hér fyrir neðan.  Til samanburðar eru tölur fyrir landið í heild, en í Reykjavík eru um 34% allrar götulýsingar á landinu.

  Staurar Lampar Uppsett afl (kW) W/staur W/íbúa Íbúar/Staur
Reykjavík 27.882 29.887 4.761 171 41 4,21
Landið allt (áætlað) 80.907 86.492 12.349 153 39 3,93

Fjöldi lampa er fleiri en staura því á staurum eru stundum fleiri en einn lampi og einnig eru lampar í undirgöngum og á pollum taldir með. Reykjavíkurborg er langstærsti notandinn með 21.000 lampa af þeim tæplega 30.000 sem eru í Reykjavík.  Aðrir stórir notendur eru Vegagerðin, sem sér um lýsingu á stofnbrautum og Faxaflóahafnir sem sér um lýsingu á hafnarsvæðum.  Einnig eru inn í heildartölunni lóðarhafar sem eru með lýsingu á bílastæðum og einkalóðum.

Hver er kostnaður borgarinnar við götuljós?

Í samræmi við aðhald í rekstri Reykjavíkurborgar er kostnaðargát einnig vegna götulýsingar. Rekstur götulýsingar skiptist í megindráttum í þrennt: orkukaup, viðhald og endurnýjun. Hér fyrir neðan er yfirsýn yfir bókfærðan viðhaldskostnað og orkukaup síðustu ára. Orkuveita Reykjavíkur annast viðhald götulýsingar og selur Reykjavíkurborg orku sem greiðir samkvæmt afltaxta (B23).

  Kostnaður 
Raforkukaup 2011 164 millj. kr.
Raforkukaup 2012 176 millj. kr.
Raforkukaup 2013 185 millj. kr.
Raforkukaup 2014 164 millj. kr.
Raforkukaup 2015 163 millj. kr.
   
Rekstur og viðhald 2011 282 millj. kr.
Rekstur og viðhald 2012 313 millj. kr.
Rekstur og viðhald 2013 322 millj. kr.
Rekstur og viðhald 2014 337 millj. kr.
Rekstur og viðhald 2015 353 millj. kr.
   
Endurnýjun götulýsingar 2011 8,5 millj. kr.

Hvernig perur notar Reykjavíkurborg?

Í götulýsingunni í Reykjavík eru nokkrar gerðir af perum eins og sést í töflunni hér fyrir neðan.  Einnig er hægt að skipta þessu í tvo flokka eftir lit eða í „hvíta birtu“ og  „gula birtu“.  Hvíta birtan er frá kvikasilfur- og málmhalógenperum en gula birtan er frá natríumperum (sodium á ensku).

  Kvikasilfur Natríum Málm Halogen Aðrar teg. Hlutfall kvikasilfurslampa
Reykjavík: 13.929 14.324 1.018 616 47%
Landið allt: 30.966 49.912 1.697 1.681 37%

Hversu oft er skipt um peru?

Peruskipti eru mismunandi eftir perutegundum.

Kvikasilfurperum er skipt kerfisbundið út á fjögurra ára fresti og hefur sá tími verið lengdur í sparnaðarskyni. Þeim var áður skipt út á þriggja ára fresti en vegna tækniþróunar hefur líftíminn lengst sem gerir þetta mögulegt. Ekki deyr á kvikasilfurperum heldur dofna þær og verða grænleitar undir lok líftíma.

Natríumperum er skipt út jafnóðum og það slokknar á þeim eða á 4 - 6 ára fresti. Brugðist er við ábendingum íbúa vegna skipta á þeim perum og einnig eru farnar eftirlitsferðir hjá framkvæmda- og eignasviði.

Um aðrar perutegundir (svo sem málmhalógenperur og einstaka sparperur) gildir það sama og um natríumperur.

LED ljósgjafar eru ekki eiginlegar perur heldur glóandi rafrás – hálfleiðari. Lítil reynsla er komin á þá tækni, en gert er ráð fyrir 50 - 100.000 lýsingartímum. Í árum talið er það 13 - 27 ár. Þeir lampar sem hafa verið settir upp í Reykjavík eru gefnir upp fyrir 80 þúsund klukkustundir eða um 20 ár.

Endurnýjun búnaðar

Auk peruskipta þarf að endurnýja lampa, staura og dreifikerfi (strengir og skápar).  Líftími lampa hefur verið áætlaður um 15 ár, staura um 30 ár og dreifikerfis um 40 ár. Líftíminn hefur þó ekki verið rannsakaður til fulls. Í árslok 2011 voru um 6 þúsund lampar sem komnir voru yfir líftíma og 10 þúsund staurar.

Innflutningur og sala á kvikasilfurperum verður bönnuð frá og með 1. apríl 2015. Hefur það í för með sér að endurnýja þarf kvikasilfurslampa og í ársbyrjun 2012 er 47% lampa í Reykjavík kvikasilfurlampar.  Þetta hlutfall er hærra í Reykjavík en hjá öðrum sveitarfélögum.  Kvikasilfur var á sínum tíma valið vegna ljósgæða – birtan er hvítari en í natríum og litarendurgjöf ljóssins betri fyrir mannsaugað en það gerir liti greinilegri og hentar því betur í miðbænum og íbúðargötum.

Götuljósaskrá

Orkuveita Reykjavíkur heldur utan um götuljósaskrá fyrir Reykjavíkurborg en í henni eru skráðar upplýsingar um staura og ljósgjafa. Í Landupplýsingakerfi Orkuveitu Reykjavíkur (LUKOR) er haldið utan um upplýsingar um staðsetningu stólpa, legu strengja og tengingar við dreifistöðvar. Með staðsetningunum eru skráðar grunnupplýsingar um viðföngin svo sem gerð og stærð, hvenær stólpi var uppsettur, gerð/tegund ljóskers, uppsett afl með töpum, hvenær fyrst var kveikt á ljóskerinu, hverfisskipting og rásaskipting. Skráning stólpa og ljóskera er með einkvænu (ID) númeri þannig að hægt er að merkja alla stólpa og ljóskerfi og einnig er númerið notað til að tengja gögn í LUKOR við götuljósaskrá. Bæði götuljósaskráin og LUKOR halda utan um götuljósagögn á öllu starfssvæði Orkuveitunnar. Allar bilanir og viðgerðir eru skráðar í Tetra-kerfinu, en það tengist landupplýsingakerfi svo sem þegar skipt er um ljósbúnað, perur eða stólpa eða aðrar viðgerðir þannig að hægt sé að sjá hvaða viðhald er á kerfinu.

Fyrirspurnir og/eða ábendingar

Við viljum gjarnan fá ábendingar um það sem betur má fara. Þú getur sett inn ábendingu og upplýsingar í ábendingakerfið okkar >>> SETJA INN ÁBENDINGU   <<<  eða hringt í þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 4 11 11 11. Starfsmenn þar færa þá ábendingu inn í kerfið.