Gjaldheimta í fjöleignarhúsum

Meirihluta eigenda þarf til að óska eftir breytingum á fjölda og tegund tunna í fjöleignarhúsum þar sem slíkar breytingar hafa áhrif á gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs íbúa hússins. Í smærra fjölbýli þar sem ekki er starfandi hússtjórn dugar þó tölvupóstur íbúa um að þeir séu sammála um breytingarnar.
 
Sorpgeymslur og ílát undir úrgang í fjöleignarhúsum eru sameign og skulu samnýtt. Í fjöleignarhúsum er hirðugjöldum skipt á eigendur eftir eignarhluta í húsinu skv. lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994. Gjöldin eru innheimt með fasteignargjöldunum og í Reykjavík taka þau mið af fjölda tunna, stærð íláta, hirðutíðni, fjarlægð sem þarf að fara til að losa ílátin og tegund úrgangs, og taka breytingum frá og með þeirri viku sem óskað er breytinga á tunnum.
 
Í einhverjum tilfellum óska íbúar í fjölbýli eftir annarri skiptingu gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs en almenna reglan er. Þar sem í fyrrnefndri samþykkt er kveðið á um hvernig skipta skuli kostnaði við söfnun heimilisúrgangs er ekki heimilt að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs með öðrum hætti en þar kemur fram.
 
Reykjavíkurborg getur ekki tekið upp af sjálfsdáðum að haga innheimtu gjalda með öðrum hætti að ósk íbúa. Í 46. gr. fjöleignarhúsalaga segir að húsfélög fjöleignarhúsa geti ákveðið aðra skiptingu sameiginlegs kostnaðar en hlutfallslega skiptingu. Reykjavíkurborg hefur enga aðkomu að slíku samkomulagi og hefur slíkur samningur ekkert gildi gagnvart borginni, heldur er um einkaréttarlegan samning að ræða innan húsfélags.

Skrefagjald

Viðbótargjald bætist við ef sækja þarf ílát lengra en 15 m frá hirðubíl skv. gjaldskrá. Íbúar geta komist hjá gjaldi með því að færa tunnur sínar varanlega eða á losunardegi innan 15 metra. Öll ílát verða tæmd á losunardegi en þurfi ítrekað að sækja ílát lengra en 15 metra verður lagt á það viðbótargjald.

Gjald fyrir umfram úrgang

Hægt er að kaupa merkta poka undir umframúrgang eða fara með úrgang á grenndar- eða endurvinnslustöðvar ef úrgangur rúmast ekki ílátum við heimili. Til að tilfallandi umframúrgangur sem ekki rúmast í ílátum sér hirtur við heimilii þarf hann að vera í sérmerktum pokum sem innifela gjald. Pokana er hægt að kaupa á hjá N1 stöðvum i Reykjavík og í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14.

Gjald fyrir aukalosun

Sé ekki hægt að losa ílát vegna hindranna, rangrar flokkunar eða af öðrum ástæðum, geta íbúar óskað eftir aukaferð til losunar. Greitt er fyrir þjónustuna skv. gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs.

Gjald vegna reksturs endurvinnslustöðva

Endurvinnslustöðvagjald er lagt á hverja íbúð í Reykjavík til að standa undir hlutdeild Reykjavíkurborgar í rekstri endurvinnslustöðva Sorpu. Hlutur borgarinnar í rekstri endurvinnslustöðva hefur áður verið greiddur af útsvarstekjum en er nú greiddur sérstaklega með þessu gjaldi.

Endurvinnslustöðvarnar eru sjö talsins og eru staðsettar víðsvegar um borgina. Þar gefst íbúum kostur á að koma með úrgang til endurvinnslu og/eða förgunar. Kostnaður vegna reksturs endurvinnslustöðva er greiddur af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúar greiða fyrir losun á úrgangi frá daglegum heimilisrekstri með endurvinnslugjaldinu. Úrgangur skal vera flokkaður þegar honum er skilað á endurvinnslustöð í samræmi við reglur um flokkun úrgangs.

Mögulegar aðferðir til að lækka hirðugjöld

Íbúar í Reykjavík geta á einfaldan hátt lækkað hjá sér kostnað við meðhöndlun úrgangs. Á heimilum þar sem lítið fellur til af blönduðum úrgangi geta íbúar í sérbýli óskað eftir spartunnu sem er ódýrari og helmingi minni en gráa tunnan eða 120 lítrar. Spartunnan er hirt á 14 daga fresti eins og gráar tunnur undir blandaðan heimilisúrgang. Þetta er sama hirðutíðni og tíðkast í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar geta einnig valið hvort þeir vilja nýta sér þjónustu grenndar- eða endurvinnslustöðva eða hvort þeir kjósa að endurvinnanlegur úrgangur sé sóttur á heimili þeirra í þar til gerðar bláar og grænar tunnur. Greiða þarf fyrir þá þjónustu.
 
Íbúar í fjölbýlum geta endurskoðað fjölda grárra tunna og fækkað þeim ef tilefni er til og greitt þannig lægri gjöld. Oft má fækka gráum tunnum í fjölbýlishúsum þar sem tunnur eru samnýttar og getur þá skapast svigrúm til að fá grænar og bláar tunnur undir endurvinnsluefni.

Sérstakt gjald er tekið af ílátum sem draga þarf lengra en 15 metra frá sorpgeymslu eða -gerði að hirðubíl til losunar samkvæmt gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í Reykjavík. Í einhverjum tilfellum er hægt að færa tunnur og komast þannig hjá því að greiða gjaldið.
 
Notaðu reiknivélina á ekkirusl.is til að skoða gjöldin miðað við fjölda og tegund íláta.

Leiðarljós við ákvörðun gjaldheimtu

Horft er til mengunarbótareglunnar og þjónustustigs við ákvörðun gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs.

Mengunarbótareglan, um að sá geldur sem veldur, er höfð að leiðarljósi. Íbúar sem kjósa að flokka úrgang til  endurvinnslu og draga þannig úr fjárhagslegum og umhverfislegum kostnaði við meðhöndlun úrgangs greiða þannig minna. Einnig greiða íbúar í takt við þjónustustig, þannig bætist viðbótargjald við ef sækja þarf ílát lengra en 15 m frá hirðubíl skv. gjaldskrá.
 
Gjaldið í Reykjavík miðast við úrgangsflokk og fjölda, stærð og hirðutíðni íláta við íbúðarhús auk fjarlægðar íláta frá hirðubíl. Þeir sem kjósa að flokka til endurvinnslu geta minnkað eða fækkað ílátum undir blandaðan úrgang og þannig lækkað gjöld sín.

Í fjöleignarhúsum tekur hússtjórn eða meirihluti eigenda ákvörðun um fjölda íláta og gjöldum er skipt á íbúa eftir hlutfallstölu eignarhluta.
 
Sé ílátum fjölgað, fækkað eða losunartíðni breytt á árinu miðast gjaldið við þá viku sem breytingarnar fara fram.

Hafa samband

Tekið er við fyrirspurnum og pöntunum í síma 4 11 11 11 eða á netfangið sorphirda@reykjavik.is Athugið að hússtjórn fjöleignarhúsa þarf að óska eftir breytingum sem hefur áhrif á gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs. Símatíminn er milli kl. 8:30-9:00 og 13:00-14:00.