Hjúkrunarheimili
Reykjavíkurborg á og rekur tvö hjúkrunarheimili, Droplaugarstaði og Seljahlíð. Sólarhringsþjónusta er á báðum stöðum.
Droplaugarstaðir
Á Droplaugarstöðum eru 82 íbúar, allir í einbýlum með sérbaði. Á heimilinu er sjúkra- og iðjuþjálfun, öldrunarsálfræðingur og tannfræðingur. Starfrækt er hárgreiðslustofa og fótaaðgerðarstofa á staðnum.
Seljahlíð
Í Seljahlíð eru mismunandi búsetuform fyrir aldraða, hjúkrunardeild og þjónustuíbúðir. Á hjúkrunardeild búa 26 einstaklingar og 55 einstaklingar búa í þjónustuíbúð. Alls er 81 íbúi í Seljahlíð. Félagsstarf og margs konar þjónusta er fyrir íbúa hússins svo sem matur, böðun, hárgreiðsla, fótsnyrting, sjúkraþjálfun, leikfimi og fleira. Á lóð Seljahlíðar eru 18 sjálfseignaríbúðir með brunavarnarkerfi sem tengist símavakt í þjónustumiðstöð Seljahlíðar. Íbúar þar geta tekið þátt í félagsstarfi Seljahlíðar og fengið ýmsa þjónustu.
Hjúkrunarheimili eru fyrir þá sem geta ekki búið sjálfstætt. Á dvalar- og hjúkrunarheimilum er sólarhringsþjónusta og öldrunarlæknisþjónusta. Einnig er boðið upp á sjúkra- og iðjuþjálfun, fótsnyrtingu, hárgreiðslu, hreyfiþjálfun og böðun auk þess sem þar er hægt að stunda ýmis konar tómstundaiðju.
Ferill umsóknar/þjónustu
Hægt er að sækja um eða fá nánari upplýsingar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Álfabakka 16, 109 Reykjavík. Sími: 411 9600. Aflað er upplýsinga um getu og aðstæður umsækjanda. Leitað er upplýsinga um líkamlegt og andlegt heilsufar, félagslegar aðstæður svo sem fjölskylduaðstæður, og hvort og þá hvaða aðstoðar umsækjandi nýtur. Athugað er hvernig umsækjanda gengur að bjarga sér við athafnir daglegs lífs, persónulega umhirðu og heimilisstörf. Þegar sótt er um pláss á hjúkrunarheimili þarf að liggja fyrir svokallað færni- og heilsumat. Færni- og heilsumat er faglegt mat á þörf fólks, óháð aldri, fyrir varanlega vistun í hjúkrunarrými eins og þau eru skilgreind í lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu. Einungis þarf að skila umsókn undirritaðri af umsækjanda. Þegar færni- og heilsumat liggur fyrir er umsækjanda sent skriflegt svar. Ef færni- og heilsumat er samþykkt eru niðurstöður notaðar til að forgangsraða á biðlista í hjúkrunarrými.
Fyrirspurnir og/eða ábendingar
Ef hlutaðeigandi einstaklingur sættir sig ekki við framgang færni- og heilsumats eða niðurstöðu þess getur hann vísað málinu til umsagnar landlæknis eða faghóps heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins samkvæmt lögum.