Hljóðvistarstyrkur
Reykjavíkurborg styrkir íbúðaeigendur við umferðarþungar götur til að skipta út venjulegu gleri út fyrir einangrandi gler sem bætir hjóðvist í íbúðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Hverjir geta sótt um hljóðvistarstyrk?
Allir íbúðaeigendur sem eiga hýbýli við umferðargötu þar sem umferðarhávaði fer yfir 65dB(leq) hávaða geta sótt um úthlutun á styrk frá umhverfis og skipulagssviði Reykjavíkurborgar til að dempa niður hávaða innandyra með ísetningu á nýju hljóðvistargleri sem uppfyllir staðla byggingarreglugerðar og hljóðvistarreglugerðar.
Hvað er hljóðvistarstyrkur hár?
Styrkur er að jafnaði 50 - 70% af kostnaði. Upphæð styrkja miðast við það hversu mikill hávaðinn er utan við glugga sem segir til um það hve mikið þurfi til dempa hávaða til að fullnægja kröfum um hljóðvist innandyra og svo flatarmáli þeirra glugga sem er útsettur fyrir hávaða yfir 65db(leq) mörkum.
Vilji íbúðareigandi skipta um gler í fleiri gluggum en styrkurinn nær til er það að fullu á kostnað eiganda íbúðar.
Umsókn, framkvæmd og greiðsla styrks
Uppfylli umsókn öll skilyrði fyrir úthlutun er hún tekin til afgreiðslu, annars verður henni synjað. Umsóknum er forgangsraðað í þrjá flokka eftir umferðarhávaða. Úthlutun styrkja er háð því fjármagni sem veitt er til styrkja á hverju ári. Fagaðili metur umfang glerskipta og hávaða á viðkomandi stað þar sem sótt er um styrk. Að undangenginni skoðun fagaðila á umfangi verksins og núverandi stöðu getur íbúðareigandi hafið framkvæmdir við glerskipti í samræmi við úttektarskýrslu fagaðila. Þar koma fram leiðbeinandi kröfur sem uppfylla skilyrði reglugerðar hljóðvistar og úthlutunar styrkveitingar. Samþykkt vilyrði fyrir úthlutun styrks liggur fyrir þegar búið er að samþykkja tillögu fagaðila að styrkfjárhæð. Íbúðareigandi hefur tvö ár til að ljúka framkvæmdum, en eftir þann tíma fellur vilyrði fyrir styrk úr gildi.
Íbúðareigandi sem lokið hefur framkvæmdum á tilsettum tíma skal óska eftir úttekt frá byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar á framkvæmd glerísetningar. Fullnægjandi úttekt byggingarfulltrúa í samræmi við leiðbeinandi kröfur fagaðila er skilyrði fyrir greiðslu styrks, annars fellur hann niður að öllu leiti eða hluta.