Allir eiga rétt á að fá aðstoð gegn ofbeldi og ofbeldið er aldrei brotaþola að kenna!

Ef þú ert brotaþoli kynbundins ofbeldis eða þekkir til einhvers sem er það þá eru ýmiss úrræði í boði.

Höfuðborgarsvæðið

Kvennaathvarfið 

Sími: Skrifstofa: 561 3720
Neyðarnúmer allan sólarhringinn: 561 1205
Netfang: kvennaathvarf@kvennaathvarf.is

Athvarf, fyrir konur og börn þeirra þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna andlegs eða líkamlegs ofbeldis eiginmanns, sambýlismanns eða annarra heimilismanna.

Athvarfið er einnig fyrir konur sem hefur verið nauðgað.

Símaráðgjöf allan sólarhringinn í síma 561 1205. Konur geta hringt og rætt mál sín og fengið stuðning og upplýsingar.

Ókeypis viðtöl, þar sem konur geta komið og fengið stuðning og upplýsingar án þess að til dvalar komi.

Nauðsynlegt er að hringja áður í síma 561 1205 og panta tíma í viðtal.

Sjálfshjálparhópar starfa á vegum Kvennaathvarfsins, þar sem nokkrar konur hittast reglulega undir handleiðslu starfskonu athvarfsins. Nauðsynlegt er að koma í viðtal áður.


Stígamót 

Laugavegur 170
105 Reykjavík
Símanúmer : 562 6868 / 800 6868
Netfang: stigamot@stigamot.is

Þjónusta Stígamóta er fyrir fólk frá 18 ára aldri, bæði konur og karla. Flestir sem koma til Stígamóta eru brotaþolar kynferðisofbeldis, bæði í æsku og/eða á fullorðinsárum. Stígamót eru líka fyrir fjölskyldumeðlimi og aðra aðstandendur brotaþola.


Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis Landspítalanum 

Landspítalinn - Fossvogi
Símanúmer:
543 1000 - Aðalskiptiborð LSH
543 2000 - Afgreiðsla bráðamóttöku LSH
543 2094 - Neyðarmóttaka á dagvinnutíma
543 2085 - Áfallamiðstöð LSH

Markmið neyðarmóttökunnar að tryggja velferð og stöðu þeirra sem til þjónustunnar leita vegna nauðgunar, tilraunar til nauðgunar eða annars kynferðisofbeldis.

Tilgangur með þjónustu neyðarmóttökunnar er að draga úr eða koma í veg fyrir andlegt og líkamlegt heilsutjón sem oft er afleiðing kynferðislegs ofbeldis.

Þeim sem leita til neyðarmóttökunnar skal sýnd fyllsta tillitssemi og hlýja og þess gætt að þeim sé ekki mætt með vantrú eða tortryggni.

Kvennaráðgjöfin 

Túngötu 14
101 Reykjavík
Sími: 552 1500

Kvennaráðgjöfin er ókeypis lögfræði- og félagsráðgjöf fyrir konur. Opnunartímar eru þriðjudaga frá kl. 20:00 til 22:00 og fimmtudaga frá kl. 14:00 til 16:00. Megintilgangur starfseminnar er að veita konum stuðning og ráðgjöf, en Kvennaráðgjöfin er opin öllum konum og körlum og má hvort sem er koma eða hringja. Þjónustan er endurgjaldlaus og þurfa þeir sem leita til ráðgjafarinnar ekki að gefa upp nafn eða aðrar persónuupplýsingar.

Hjá Kvennaráðgjöfinni starfa lögfræðingar, félagsráðgjafar, laganemar og félagsráðgjarfanemar í sjálfboðavinnu. Alltaf er þörf nýrra sjálfboðaliða og leikur ekki vafi á því að reynslan af sjálfboðastörfum fyrir Kvennaráðgjöfina kemur bæði félagsráðgjafar- og laganemum til góða.

Heimilisfriður

Sími : 555 3020

Heimilisfriður (hét áður Karlar til ábyrgðar) er eina sérhæfða meðferðarúrræðið fyrir karla og konur sem beita ofbeldi á heimilum hér á landi. Um er að ræða einstaklings- og hópmeðferð hjá sálfræðingum. 

Mikilvægt er að rjúfa vítahring ofbeldis með því að styrkja meðferðarúrræði fyrir gerendur. Markmið verkefnisins er að veita körlum og konum sem beitt hafa heimilisofbeldi meðferð og aðstoð séu þeir reiðubúnir að leita sér hjálpar. Verkefnið er á ábyrgð Jafnréttisstofu og liður í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Verkefnið felur í sér einstaklings- og hópmeðferð fyrir karla og konur sem beita maka sína ofbeldi sem og stuðning við maka þeirra karla sem leita sér aðstoðar.

Drekaslóð 

Borgartúni 3, 2.hæð
105 Reykjavík
Símanúmer: 551 5511 / 860 3358

Fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur alls kyns ofbeldis og aðstandendur þeirra. Miðstöðin er fyrir bæði konur og karla.

Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar - www.reykjavik.is/thjonustumidstodvar

Sími: 4 11 11 11

Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar eru staðsettar í 6 hverfum og sinna þjónustu ýmiss konar við einstaklinga og fjölskyldur. Þar er hægt að leita sér stuðnings ef um ofbeldistengd málefni eru að ræða, hvort sem það er á heimili eða utan þess. Stuðningurinn er í formi ráðgjafar ýmiss konar þar sem að þjónustumiðstöðvarnar veita meðal annars félags- og fjölskylduráðgjöf.

Landsbyggðin

Aflið 

Systursamtök Stígamóta á Akureyri.

Brekkugötu 34
600 Akureyri
Símanúmer: 461 5959 / 857 5959

Aflið er samtök sem voru stofnuð á Akureyri árið 2002 í framhaldi af tilraunastarfsemi Stígamóta þar sem í ljós kom mikil þörf fyrir samtök af þessu tagi. Starfsemin byggir á forsendum þolenda kynferðislegs ofbeldis og/eða heimilisofbeldis.

Þar sem um mjög viðkvæm og persónuleg mál er að ræða er lögð rík áhersla á að fyllsta trúnaðar og þagmælsku sé gætt um öll mál og þá einstaklinga sem þangað leita.

Aflið er fyrir alla sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og/eða heimilisofbeldi og aðstandendur þeirra, svo sem maka, foreldra, systkini og vini sem óska eftir ráðgjöf.


Sólstafir - www.solstafir.is

Systursamtök Stígamóta á Ísafirði.

Túngötu 12, kjallara
400 Ísafirði
Sími: 846 7484

Sólstafir eru óformleg grasrótarsamtök kvenna og starfshættir markast af því. Ábyrgð á daglegu starfi deila starfskonur jafnt. Starfskonur Sólstafa eru ekki sérfræðingar, sálfræðingar, geðlæknar eða félagsráðgjafar. Þær koma frá margvíslegum starfsstéttum og það sem tengir þær saman er reynsla þeirra sjálfra af kynferðisofbeldi. Menntun ein og sér tryggir ekki góðan skilning á kynferðisofbeldi og afleiðingum þess fyrir einstaklinginn sem verður fyrir því.