Hver eru mín réttindi?
Barnalög
Í barnalögum er fjallað um forsjá barna og samkvæmt þeim ber foreldrum að annast barn sitt, sýna því umhyggju, virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum eftir því sem best verður á kosið. Samkvæmt lögum ber foreldrum skylda til þess að vernda börn sín gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi sem og annarri vanvirðandi meðferð.
Barnaverndarlög Íslands
Markmið laganna er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Skal það gert með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. 28. grein. Barnaverndarlaga segir: „Forsjá barns felur í sér skyldur foreldra til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi“. Þetta þýðir að ekkert barn eigi að þurfa að þola ofbeldi og þá allra síst á heimili sínu.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna
Barnasáttmálinn var lögfestur á Íslandi 20. febrúar 2013. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn séu hópur sem þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu og að réttinda þeirra hafi ekki verið nægilega gætt í fyrri mannréttindasamningum. Jafnframt felst í honum viðurkenning á því að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi; þau eigi sín eigin réttindi – óháð réttindum fullorðinna. Fjallað er um vernd gegn ofbeldi og vanrækslu í 19. grein sáttmálans: „Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi, misnotkun, skeytingarleysi og vanrækslu, innan eða utan heimilis. Stjórnvöld skulu veita börnum sem sætt hafa illri meðferð og fjölskyldum þeirra viðeigandi stuðning.“
Lanzarote samningurinn
Lanzarote samningurinn fjallar um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu barna. Samningurinn miðar að því að vernda og styrkja stöðu barna sem hafa mátt þola kynferðislegt ofbeldi í einni eða annarri mynd. Samningurinn kallar á greiningu á lögum, verklagi og viðhorfum til meðferðar mála um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Við mótun fyrirmyndar vinnubragða er einnig nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar Leiðbeiningarreglur Evrópuráðsins um barnvænlega réttarvörslu frá 2008. Árið 2012 fullgildi Ísland þennan samning.