Reykjavíkurborg er skipt upp í 10 stjórnsýslueiningar sem kallast borgarhlutar og stefnt er að því að vinna hverfisskipulag fyrir hvern borgarhluta á grunni Rammaskipulags aðalskipulags Reykjavíkur og er um að ræða nýjung í skipulagsmálum á Íslandi.

Hverfisskipulag er tegund deiliskipulags fyrir þegar byggð hverfi þar sem vikið er frá kröfum sem gerðar eru um framsetningu deiliskipulags fyrir nýja byggð. Í hverfisskipulagi skal setja almennar reglur eða skilmála um yfirbragð, þróun og varðveislu byggðar. Taka skal afstöðu til ónýttra byggingarheimilda ef fyrir liggja og heimilt er að setja fram almennar reglur, leiðbeiningar og fyrirmæli um umfang og yfirbragð mannvirkja, breytingar og viðhald húseigna í stað byggingarreita og skilmála um nýtingarhlutfall eða byggingarmagn, að því tilskyldu að framkvæmdaheimildir séu skýrðar með fullnægjandi hætti.

Við endurskoðun á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 - 2030 var unnið svokallað Rammaskipulag fyrir hvern borgarhluta.  Liður í þeirri nálgun var að færa aðalskipulagið nær íbúum borgarinnar.  Hér er um nýbreytni að ræða í framsetningu aðalskipulags. 

Tvíþættur tilgangur hverfisskipulags

Annars vegar er markmiðið að vinna heildarskipulag fyrir öll hverfi borgarinnar með það að leiðarljósi að sameina gildandi deiliskipulagsáætlanir og skilmála fyrir viðkomandi hverfi í eina skipulagsáætlun með almennum byggingar- og skipulagsheimildum sem einfalda skipulagsyfirvöldum fram- og eftirfylgni skipulagsáætlana fyrir hverfi borgarinnar. Íbúum borgarinnar verður þannig gert einfaldara fyrir að sækja um breytingar á eigin húsnæði innan ramma almennra byggingar- og skipulagsskilmála viðkomandi hverfis án þess að þurfa að fara í kostnaðarsamar breytingar á skipulagi.  Hverfisskipulaginu er einnig ætlað að brúa bilið og tengja með því betur saman aðalskipulagsstig og hverfis-/deiliskipulagstigið.

Hins vegar er hverfisskipulagi borgarinnar ætlað það metnaðarfulla hlutverk að leggja grunn að þróun hverfa borgarinnar inn í framtíðina með skipulagslausnum, framkvæmdum og öðrum aðgerðum  á vistvænum forsendum. Með vistvænum lausnum og umhverfisvænni hugsun mætum við kröfum samtímans um leið og við gætum með ábyrgum hætti að hag komandi kynslóða.  Að koma á vistvænni byggð í hverfum borgarinnar er þannig liður í að nálgast markmið um sjálfbæra þróun og stefnumótun Reykjavíkurborgar í þá átt.