Leikskólamötuneyti: Innra eftirlit
Mötuneyti má ekki starfrækja án þess að hafa starfsleyfi og undirstrikar starfsleyfið ábyrgð hvers mötuneytis. Heilbrigðiseftirlitið heimsækir reglulega öll mötuneytin sem hafa starfsleyfi til að skoða hvort öll starfsemi sé með felldu og uppfylli allar kröfur.
Almennt um innra eftirlit
Til að tryggja sem best öryggi barna gerir skóla- og frístundasvið þá kröfu að mötuneytin séu með virkt innra eftirlit. Í þeim tilgangi hefur verið gefin út Gæðahandbók skólamötuneyta. Í henni er lýst innra eftirliti mötuneyta í grunnskólum og leikskólum Reykjavíkurborgar og á hún að hjálpa til við að tryggja rétta meðhöndlun, vinnslu og eldun á matvælum.
Móttökueftirlit
Ekki skal taka á móti vöru sem er gölluð (innihald skemmt, umbúðir skemmdar eða hitastig of hátt). Ef vöru er hafnað vegna galla skal skrá það. Einnig skal skrá rekjanleikanúmer kjúklingasendingar á nótu sem fylgir sendingunni.
Hitastigseftirlit
Mæla skal hitastig í kælum og frystum í byrjun hvers vinnudags. Hitastig í kælum á að vera 0 - 4°C og -18°C eða kaldara í frystum. Skrá skal hitastig einu sinni í viku, nema þegar frávik eru (kælir heitari en 4°C og frystir heitari en -18°C) þá skal skrá daglega.
Sjá hitaskráningar fyrri hluta árs.
Sjá hitaskráningar seinni hluta árs.
Þrifaáætlun
Þrifaáætlun skal hanga uppi í eldhúsum, helst plöstuð. Þrifaáætlun tekur til eldhúss, búrs, kæla og frysta. Í þrifaáætlun skal koma fram hvað á að þrífa, hversu oft og hvernig (með hvaða hreinsiefni og leiðbeiningar ef þarf). Þrifaáætlun fæst hjá söluaðilum hreinsiefna.
Þrifaskráning
Skrá skal þrif sem unnin eru vikulega eða sjaldnar á sérstakt eyðublað (sem er í samræmi við þrifaáætlun).
Heilsufarsskýrsla
Starfsmenn í eldhúsi skulu skrifa undir heilsufarsskýrslu þar sem þeir skuldbinda sig til að láta leikskólastjórnendur vita, svo fljótt sem kostur er, hafi þeir fengið einkenni sem benda til matareitrunar eða matarsýkingar. Sjá heilsufarsskýrslu sem matráðar eiga að skrifa undir og geyma hjá skólastjórnanda.